15.09.2007 05:51

Foam Lake.


Hæ allir heima! Ég má til að láta vita af okkur. Við erum nú stödd í Foam Lake sem var ein stærsta Íslendingabyggðin hér í Kanada. Mikið af frændfólki Gísla býr hér og við gistum núna hjá Terry og Noreen sem eru stórbændur hér. Þau heita Markússon family .Við erum búin að fara um nágrennið með þeim og meira að segja vera í stærsta vinnutæki sem ég hef séð. Splunkunýrri þreskivél. Og í kvöld var kallað til fólk til að hitta okkur. Elsta var 93 ára og talaði íslensku bara nokkuð vel. Þetta fólk virðist mjög hrifið af að fá ættingja frá gamla landinu í heimsókn.

Í gær komum við aðeins við hjá fullorðnum hjónum í Church Bridge (Kirkjubrú). Húsbóndinn Pétur og Gísli eru þremenningar. Konan hans heitir Rúna. Þau töluðu bæði Íslensku eins góða og hún getur verið en hvorugt er fætt á Íslandi. Í þeim bæ voru líka margir landar sem settust þar að og kirkjan í þorpinu var byggð af Íslendingum. Já þau liggja víða sporin og þetta er hrein upplifun fyrir okkur. Mér finnst mikið rólegra yfir Kanadamönnum en nágrönnum þeirra í Bandaríkjunum. Minna stress.

Á morgun förum við til Edmonton sem er dálítið mikið vestar og tekur 7-9  tíma að keyra þangað. Þar bíða Charlene og Barrý eftir okkur. Það verður örugglega gaman að hitta þau. En hér á bóndabýlinu í Foam Lake er háannatími í uppskerunni svo við viljum ekki stoppa of lengi. Þau leggja dag við nótt núna því það er gott veður en hafði verið rigning um tíma. Þau hafa borið okkur á höndum eins og við værum kóngafólk!!

Jæja ætli sé ekki best að fara að sofa. Sum ykkar eru að vakna heima þvi við erum alltaf að fara yfir tímabeltin og nú munar sex tímum. Hér er klukkan 12 á miðnætti og sumir farnir að hrjóta við hliðina á mér..ha ha. Vona að þið hafið það öll gott og gaman að fá álitin (commentin) á síðuna núna. Veit ekki hvenær ég læt vita af mér næst. Svo þangað til hafið það sem best.

Silla og hinir flakkararnir.
 
Flettingar í dag: 38
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 80
Gestir í gær: 19
Samtals flettingar: 101127
Samtals gestir: 20445
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 06:21:10