14.01.2008 10:28

Snjór



Þar kom að því að það fór að snjóa duglega. Svo að Bjössi varð að skilja vörubílinn eftir og fara á jeppanum. Gunni rétt komst í gegn og er í vinnunni. En hann treystir mér ekki innúr (og ekki ég sjálf). Það er búið að hvessa síðan í morgun og komnir skaflar. Svo ég bíð bara róleg. Annað hvort sækir Gunni mig eða ég bíð þar til búið er að skafa.

Það getur nú dregist. Ef mikill snjór er í þéttbýlinu bíðum við hér!! Það er bara lögmálið. En það er langt síðan hefur verið ófært. Báða veturna sem við vorum í skúrnum hjá Bjössa var alltaf fært. Ég var að tala við Lindu og Jón fór á jeppanum í bæinn. En hjá Kúagerði snarbreyttist umhverfið..ekki snjókorn..Svona er þetta stundum ólíkt milli svæða og oft skiptist það einmitt þarna.

En veðurspáin segir að það eigi að hlána eftir hádegi svo líklega mun þetta standa stutt.  Ég var að dásama veðrið í gær og þetta sýnir okkur hvað það er fljótt að breytast..En allt finnst mér betra en rok og rigning..... En áðan var ég að lesa þankabrotin hennar Kollu á 245.is og hafði gaman af því. Hún er svo jákvæð kona hún Kolla.

Það var líka gaman að lesa um upphafið að listasmiðjunni. Það rifjuðust ýmsir góðir hlutir upp fyrir mér. Ég byrjaði einmitt í Bæjarstjórn árið 1994. (Var reyndar varamaður 90-94). En það er einnig gaman að minnast þess að á árunum 1994-2002 var K-listinn okkar með hreinan meirihluta. Já sem betur fer hefur með góðum samtakamætti mikið breyst bæði í málum listarinnar og ekki síður Heldri borgara!

Ég veit að þeir eru fjölmargir sem hafa fundið listamanninn í sjálfum sér í Nýrri vídd hjá Kolbrúnu og hennar fólki og það er ekki lítið mál því eins og Kolla réttilega segir bætir það sjálfsmynd og sjálfstraust að hafa skapandi hugðarefni. Er ég ekki enn orðin háfleyg!! En nú ætla ég að fá mér kaffisopa og og horfa á þetta hvíta undur..ha ha. góðar stundir um þessar mundir..og alltaf.
Ykkar Silla.
Flettingar í dag: 10
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 43
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 100942
Samtals gestir: 20395
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 06:04:46