23.01.2008 18:58

Vestmannaeyjagos fyrir 35 árum.

 Gosið!

Í dag 23. janúar eru 35 ár frá því gos hófst í Heimaey. Þá bjuggum við þar að Vesturvegi 34 hjá Tótu á Enda sem kölluð var og Hjálmari bróður hennar. Þá voru strákarnir Sigfús og Eiríkur litlir eyjapeyjar fæddir 68 og 70. Þetta er atburðir sem aldrei gleymast, það er nokkuð víst. Við höfðum aðeins átt heima í bænum tæpt ár. Fluttum 5. febrúar 1972. Og sennilega ekki nógu lengi til að flytja aftur út.

Við fluttum úr Hafnarfirði mest vegna þess að þar var lítil atvinna. Gunni sem var nýbúin að læra vélvirkjun bauðst vinna í vélsmiðjunni Þór. Þar kynntist hann Sigmund hinum eina sanna sem teiknar fyrir Moggann. Reyndar myndaðist vinskapur milli okkar og Óla sonar hans sem hefur haldist síðan. Hann er aðeins yngri en við og byrjaði á því að passa strákana svo við kæmumst á ball!

En þetta var svolítið skrítið tímabil. Og margs að minnast. Siglingin til lands um nóttina og hvað ættingjarnir voru fegnir að fá okkur heil á húfi. Báturinn varð vélarvana og okkur sóttist ferðin seint. Komum til Þorlákshafnar kl. 10.30. En við lögðum af stað klukkan fjögur um nóttina. En Gunni fór svo aftur út til Eyja nokkrum dögum seinna á vegum Viðlagasjóðs og vann í yfir tvo mánuði þar við að bjarga verðmætum, kæla hraunið og fleira.

En í dag er verið að minnast þessa atburðar víða og fréttirnar í sjónvarpinu t.d. verða sendar út frá Vestmannaeyjum. Það verður gaman að fylgjast með því á eftir. Mér er minnistætt að fyrir nokkrum árum var ég fengin til að tala við krakka í kirkjustarfinu í Sandgerði og ég átti að segja þeim hvernig væri að vera flóttamaður.

Og sennilega hugsa flestir til Austurlanda þegar talað er um flóttamenn. En það hefði mátt heyra saumnál detta, svo spennt voru þau. Flest voru á aldrinum 9 til 10 ára og hópurinn var frekar stór hátt í þrjátíu krakkar. Og lengi á eftir voru þau að stoppa mig á götu og út í búð og spyrja..Ert þú ekki Flóttamaðurinn?? Já það er ýmislegt sem hægt er að segja frá og minnast. Og frá tiltölulega stuttum tíma!

En nú fer að koma að því fljótlega að við förum að fara á sýninguna í LA. Þar verður vonandi hægt að sjá eitthvað sem þeim nýtist feðgunum. Ég ætla með fartölvuna mína og kannski læt ég heyra frá mér. Hver veit...

Hafið það sem best.
Silla.
Flettingar í dag: 1175
Gestir í dag: 79
Flettingar í gær: 156
Gestir í gær: 16
Samtals flettingar: 98933
Samtals gestir: 19901
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 14:17:16