15.03.2008 20:38

Að lokinni útför.


Jæja kæru lesendur mínir. Ég er mætt í bloggið aftur. Tengdapabbi var jarðsettur í dag. Og þvílík veðurblíða sem hann fékk og við öll. Við höfðum kaffi handa kirkjugestum hér heima í Heiðarbæ. Það voru hér um níutíu manns. Sennilega hafa verið um hundrað manns í kirkjunni sem tekur hundrað og fimm manns í sæti.

 Sirrý systir Gunna og einkadóttir Sigfúsar, Erla Jóna tengdadóttir mín og stelpurnar mínar lögðu saman krafta sína og bökuðu og smurðu. Og samtakamátturinn er það sem dugar.

Já, myndi nú einhverjir segja..Var þetta ekki í kyrrþei? Já og nei. Allir voru velkomnir og við fengum því kjarna vina og ættmenna sem gátu komist til þessarar hinstu samkomu hans Fúsa míns. Sigfús nafni hans, sonur minn söng með kórnum yfir afa sínum og þetta var góð stund. Við fengum líka góðan einsöngvara Guðmund Sigurðsson sem söng tvö lög og svo fallega Dýrðarsönginn með kórnum.

 Við erum öll í skýjunum yfir þessum fallega degi, því eitt sinn verða allir menn að deyja eins og Vilhjálmur heitinn söng. Og Sr. Björn Sveinn var mjög góður og allt var svo eðlilegt og látlaust hjá honum.

Eiríkur, Lilja og börnin komu frá Danmörku til að kveðja afa. Sr. Lilja hafði smá kyrrðarstund fyrir börnin í morgun. Það kemur sér vel að hafa prest í fjölskyldunni. Sum voru að upplifa sorgina í fyrsta sinn. Sáu á eftir afa sínum sem var þeim mjög kær öllum, enda mikill barnakarl..Afi!!

En ég læt þetta duga í bili. Eigið góðar stundir.
Silla.
Flettingar í dag: 18
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 109
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 101459
Samtals gestir: 20530
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 02:28:59