21.03.2008 20:15

Útskálakirkja og fleira...



Við fórum í messu í gær í Útskálakirkju. Það var verið að taka hana í notkun eftir allsherjar lagfæringar. Hún var byggð 1861 af Sigurði Sivertsen sem var þá prestur í Útskálaprestakalli. Þá náði prestakallið yfir miklu stærra svæði til að mynda Keflavík og Njarðvík. Biskupinn Sr. Karl Sigurbjörnsson prédikaði og svo sá Sr. Björn Sveinn auðvitað um athöfnina líka. Kirkjan er mjög fín og allt orðið miklu bjartara og skírara. Jón Hjálmarsson formaður sóknarnefndar og hans fólk hefur unnið gott verk. Einnig hafa Hollvinasamtökin og fleiri aðilar verið mikill styrkur. Eftir messu var kirkjugestum boðið i Flösina í kaffi og þar voru kirkjunni afhentar ýmsar góðar gjafir. 

En engin kirkja er samt fallegri í minum augum en Hvalsneskirkja. Henni hefur verið nokkuð vel við haldið en samt þarf nú að fara að huga að ýmsu. Í kirkjunni á Hvalsnesi hafa flestar athafnir okkar fjölskyldu farið fram. Allir krakkarnir okkar eru fermdir þar og fjögur þeirra hafa gift sig þar líka. Ég fermdist þar að sjálfsögðu. Ég man vel eftir þegar miklar lagfæringar voru gerðar á kirkjunni sennilega um 1960. Þá var fallegi turninn tekinn í gegn.

En að öðru..Fúsi ehf bauð í verk upp í Búrfellsvirkjun og fékk það. Okkur létti því alltaf þarf að hafa vinnu fram í tímann. Það voru sex aðilar sem buðu í verkið og þeir feðgar Fúsi og Gunni ásamt Erlu Jónu voru búin að liggja yfir tölum síðustu daga. Og það var frekar  taugastrekkjandi törn. Þetta verður 2-3 mánaða vinna hjá þeim. Og ég er ákveðin að fara og skoða aðstæður þarna upp frá þegar þeir byrja. Kannski verður hægt að kíkja við í Árnesi í kaffisopa.


Það er búin að vera blíða í dag. Bjössi var að taka myndir og setja inn á albúmið hjá sér. Hann er svo duglegur við það. Þau komu hér með honum Hlíf og Aron Darri. Kíkið inná hjá honum Bjössa ef ykkur langar að sjá dýra og mannamyndir af ýmsu tagi.

En lifið heil og gleðilega hátíð.
Silla 

Flettingar í dag: 85
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 96
Gestir í gær: 15
Samtals flettingar: 101417
Samtals gestir: 20514
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 14:57:53