26.07.2008 15:52

Að græða upp landið.


Góðan og blessaðan daginn. 
Nú er frekar rólegt í Heiðarbænum. Reyndar eru Petró, Carlos og Carmen í helgargistingu. Það eru tjúáahundarnir hennar Svandísar. Hún er ásamt fjölskyldunni á skátamóti á Akureyri. Hér er sól og frekar heitt en hávaðarok. Ég geri ráð fyrir að góða veðrið sé fyrir norðan og austan og bara undarlegt að skuli ekki rigna hér. Í gær var ég að reyta arfa þegar Ölli stoppaði og sagði mér að hitinn hefði verið 19 gráður. Það var líka þvílík blíða og hægur vindur í gær.

Ég var að viðra hundana áðan og skemmtilegt hvað þeir (gestahundarnir) muna vel eftir sér síðan fyrr í sumar. Gegndu strax þegar ég kallaði á þá. Reyndar lumaði ég á harðfisk til vonar og vara. Gunni og David eru uppi í Búrfelli við vinnu. Eru þar að festa niður plötur. Það er ekki gerður greinarmunur á laugardögum og öðrum dögum. Ég held að þeir ætli samt að taka sér gott frí allir um næstu helgi (verslunarmannahelgina).

Við Jóhanna ætlum að fara í bíó í kvöld. Ég er nú ekki mikil bíókerling en mig langar að sjá þessa mynd. Hún heitir Mamma mía og er með Meril Streep.

En það sem ég ætlaði að blogga um var aðallega uppgræðsla og umhverfismál. Ég las á bloggsíðu á mbl.is hjá honum Halli Magnússyni að honum er skelfilega illa við Lúpínuna. En ég held nú að það sé alls ekki sama hvar henni er sáð. Það er að segja í hvernig umhverfi. Hér í kring alveg frá Höfnum að Hvalsnesi er hraun og lítið um mela og móa. En fólkinu hér um slóðir og áður landgræðslunni hefur tekist að græða upp mikið á milli hraungrýtis og klappa. Þar á meðal er orðið þó nokkuð mikið af Lúpínu. Mér finnst hún eiga fullann rétt á sér í þannig tilfellum. Sumir kalla hana illgresi en mér sýnist hún nú stoppa við grasjaðra. Það þarf kannski að fylgjast með henni blessaðri EN mér finnst hún flott.

Svo höfum við skötuhjúin verið að reyna að laga til í okkar nánasta umhverfi. Við tyrftum í júní eins og ég sagði áður og ég var með vatnið á lofti í margar vikur vegna þurrks. En nú er bletturinn orðinn vel grænn og þá erum við að ná því takmarki að skilja hvergi eftir okkur opin sár í kring um Heiðarbæinn. Svo hef ég gróðursett nokkur tré sem öll hafa nöfn. Tvær aspir heita Ása og Geiri vegna þess að flest allt hefur jú verið keypt af þeim í gróðrastöðinni Glitbrá. Frábært hvað hefur tekist vel til hjá þeim. Sigrún vinkona gaf mér eina í vor og hún heitir auðvitað Sigrún.  Svo setti ég niður tvö birkitré. En ég þarf að verja þessar plöntur vel yfir veturinn. Gaman að geta þess að ösp sem ég setti niður fyrir 12-13 árum í horni hér í garðinum er í fullu fjöri þó svo ég hafi lítið sinnt henni fyrr en síðustu árin.

Svo eru grjótgarðarnir að komast í rétt útlit. Ég er búin að hlaða þá upp að mestu. Gaman að geta haldið við þessum bráðum 200 ára görðum. (Sumir halda að hér hafi verið réttir). En þeir voru í notkun þegar ég var krakki en þó sumir aflagðir. Hér ræktaðu foreldrar mínir kartöflur og við systkinin fengum að hafa sér parta og seldum svo uppskeruna á haustin.  Reyndar var kartöfluræktin þó nokkur hjá fólki hér um slóðir. Það var líka mikið ræktað af rófum og var Sigurbjörn heitinn á V-Stafnesi með stærstu ræktendum hér þá. Margir muna eftir honum því hann hélt lengi í rófuræktina.

En ætli ég láti þetta ekki duga.Vona að þið nennið að lesa rausið mitt.
Bestu kveðjur. 
Silla.


Flettingar í dag: 1130
Gestir í dag: 78
Flettingar í gær: 156
Gestir í gær: 16
Samtals flettingar: 98888
Samtals gestir: 19900
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 07:26:19