01.10.2008 15:14

Slæmt ástand.


emoticon
Sæl öll nær og fjær.
Það eru ekki góðir tímar í efnahagsmálum þessa dagana. Þau mál hafa reyndar verið á niðurleið allt árið. Maður heldur hvern dag að nú sé botninum náð en svo versnar bara ástandið. En auðvitað verðum við að vera bjartsýn og ekki bætir það fyrir okkur að vera með bölsýni.

Síðasta stórfréttin var yfirtaka ríkisins á 75% hlut í Glitni (á undirverði að ég held). Hef reyndar ekki mikið vit á þessu en mér hefur heyrst í fréttum að erlendis komi seðlabankar til aðstoðar en yfirtaki ekki banka nema þeir séu eigna og allslausir. Það virðist ekki eiga við um bankann minn, Glitni!

En svona er staðan og um allt þjóðfélagið skynjar maður hálfgerðan ótta. En eins og ég sagði þá má ekki láta þetta draga sig niður í einhverja lægð. Við þingsetningu áðan ræddi forsetinn um að við Íslendingar hefðum staðið frammi fyrir mun verri málum í sjálfstæðissögunni.

Jæja ekki meir um þetta. Í fyrrakvöld fór ég út í kirkju og hitti þar félaga mína úr sóknarnefnd og meðhjálparana nýju Sólrúnu og Díu. Við vorum þar í dágóða stund að pússa koparljósakrónur og kertastjaka.Við vorum bara nokkuð sátt við árangurinn. En við söfnuður Hvalsneskirkju þurfum að fara að huga að viðgerðum í kirkjunni og það hefur verið rætt á fundum okkar.

Gulla frá Hvalsnesi er látin og hún hefur alla tíð sýnt kirkjunni mikla rækt og það var vel við hæfi að pússa dálítið áður en hún verður jarðsungin á laugardag.

Ég segi þetta gott í bili..Horfum með birtu fram á veginn.
Ykkar Silla.emoticon
Flettingar í dag: 54
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 73
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 97656
Samtals gestir: 19815
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 09:53:49