21.11.2008 18:21

Vélarvana bátur.


Sæl verið þið öll. Nei ég er ekki að tala um þjóðarskútuna. En ég horfði í gær á rétt fyrir myrkur 180 tonna bát veltast um vélarvana hér fyrir sunnan okkur. Reyndar var sagt að hann væri út af Sandvík á Reykjanesi og það getur alveg passað því þetta var suður af Stafnesi..(veit ekki hvað langt)..Svo kom skari af bátum á svæðið og inn í myrkrið var allt uppljómað. Svo þetta fór allt vel. En svo skrítið sem það var átti þessi bátur í vandræðum með vélina annan daginn í röð. Segir kannski að einhverjir séu að verða blankir eða hvað..

En að öðru. Þessa daga eru Fúsamenn að vinna í Hvalfirði og munu gera það sleitulaust allavega fram á þriðjudag. Þeir eru þar að vinna við tanka hjá Skeljungi. Í gær kom Gunni ekki heim fyrr en klukkan tíu.. Auðvitað dauðþreyttur og lurkum laminn. Ég er alltaf að reyna að segja honum að hann sé ekki lengur tvítugur heldur sextugur!! En þeir eru aðeins þrír og þurfa allar hendur. Ég slepp við þessvegna að elda fyrir þá þessa daga. Held að þeir séu á einhverju sjoppufæði þarna uppfrá. En það styttist í afmælisferðina og gott að geta hvílt sig þá í öðru umhverfi (og helst ekki með síma)

Í dag fór ég í búðarferð með mömmu og tengdó. Það gekk bara ágætlega. En þegar ég kom hér heim sá ég að buddan hennar tengdamömmu lá í framsætinu með lyklunum að íbúðinni og ýmsu. Ég hringdi í mömmu og hún komst að því að sú gamla sæti í næstu íbúð leitandi að lyklunum.. Jæja ég fór í hvelli og hún komst til síns heima. Sagðist aldrei ætla að læsa meir!

En nú fer að líða að fréttum og ég ætla að láta þetta duga í bili.
Góðar kveðjur úr Heiðarbæ. 
Flettingar í dag: 85
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 109
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 101526
Samtals gestir: 20551
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 06:40:01