29.12.2008 21:29

Senn árið er liðið.

emoticon
Heil og sæl

Nú er árið 2008 senn á enda. Tveir sólarhringar eftir. Auðvitað hefur margt gott gerst. Við fengum til dæmis tólfta barnabarnið í maí! Það var hún Júlía Linda. Allir hafa verið nokkuð hraustir. En við misstum tengdaföður minn hann Sigfús í mars og það má segja að árið hafi verið svona bæði gott og ekki gott. En þannig er líklega lífið. 
Myndin hér fyrir neðan er tekin í Hvalsneskirkjugarði fyrir jól.


Krossinn fyrir miðju er á leiði Fúsa. Leiði pabba er ofar en þar er líka ljós sem Bjössi bróðir hefur hugsað um!

Við fórum í lok janúar á sýningu í L.A og ég átti aldrei von á að komast svona langt að heiman.emoticonOg Gunni varð sextugur í september og ég náði að koma honum til Akureyrar í fimm daga! Börnin ættingjar og vinir gáfu honum fyrir ferð til Flórida og þangað fórum við í byrjun desember. Yndislegt að komast úr kreppustressinu og þar vorum við mest með Maddý og Gísla, bæði í ferð til Miami og Key West og í húsinu þeirra í Epplagötunni. Og auðvitað hittum við Dísu og börn nær daglega og fórum svo til David og Stacey. Ég var nú búin að segja ykkur þetta..En aldrei leiðinlegt að segja oftar en einu sinni frá því sem er skemmtilegt.

Svo er búið að vera mikið að gera hjá Fúsa..Sem betur fer og er á meðan er. En þeir klára líklega þetta verkefni sem þeir eru með núna fyrir miðjan janúar. Svo er bara að vona að þeim takist að fá fleiri verk. Eitthvað eru þeir með í bakpokanum..Örfirisey og fleira.

En við ætlum að skreppa til Eiríks og fjölskyldu og ég vona að það verði um miðjan janúar. Ég fékk miða á fínu jólapakkaverði og verð reyndar að bóka fyrir vissann tíma. En þar úti í Danmörku glíma námsmenn við vanda sem er ekki síðri en hér heima. Og eru jú einir á báti. Hafa fæstir stórfjölskylduna nálægt. En vandamálið okkar Íslendinga er hrikalegt. Lánin hafa hækkað sem og matvara upp úr öllu og margir hafa misst vinnuna. Og enn versnar ástandið.

En eigum við ekki að vona að nýja árið verði upp á við. Spekingarnir segja að ..uppávið sé ekki fyrr en á þar næsta ári en ég ætla að vera bjartsýn og vona það besta. Ég ætla að láta þetta verða síðasta blogg ársins 2008 og óska ykkur öllum nær og fjær árs og friðar.

                                        GLEÐILEGT NÝTT ÁR  2009.
Ykkar Silla.            (Tvö ný albúm komin inn.)
Flettingar í dag: 2
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 189
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 101632
Samtals gestir: 20578
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 00:31:35