11.01.2009 14:15

Vínartónleikar.


Heil og sæl.
Á þessum rúmlega sex áratugum sem ég hef lifað hef ég aldrei farið á tónleika hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. En Hulda Kristjánsdóttir vinkona mín (síðan í Reykholti 15 ára) gaf okkur þessa gjöf í tilefni af þessum háa aldri okkar. Gunni náði tölunni í september. Og ég verð að segja að við urðum alveg heilluð. Þetta voru árlegir Vínartónleikar hljómsveitarinnar. Hljómsveitastjóri var Markus Poschner og einsöngvari Dísella Lárusdóttir. Háskólabíó var troðfullt..Ekki sæti laust. Leikin voru verk eftir Johann Strauss yngri og eldri, Lehár og Leonard Bernstein.

Maður var með skilningarvitin á fullu. Yndislegt að fylgjast með hvað samspilið var frábært, söngur Dísellu yndislegur og ekki skemmdi stjórnandinn fyrir. Og þessir Vínarvalsar og hughrifin af þessum þekktu verkum alveg stórkostleg. Og ég sem hélt að svona viðburðir væru ekki fyrir mig. En gaman þegar eitthvað kemur manni svona á óvart. Við töluðum um að það væri gaman að gera þetta að árlegum viðburði. Það væri gaman að gera það að veruleika.

En við misstum af brennunni hérna í Stafneshverfinu. Það hefur oftast verið siður hjá okkur að kveikja í brennu í kring um þrettándann. Þá helst um helgi þegar fólkið úr bænum getur komið. Og það var gert í gær. Verðum vonandi heima næst.

En annars er allt í góðum gír. Horfði á sjónvarpið frameftir í gærkvöld og við vorum svona frekar sein að koma okkur á fætur. En ég held að hlýindin séu á undanhaldi. Það er að kólna á ný. Samt er enn gott veður, allavega í þessum landshluta.

En ég læt þetta duga í bili. Sæl að sinni.
Silla.

Flettingar í dag: 89
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 73
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 97691
Samtals gestir: 19818
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 17:19:54