05.04.2009 18:35

Skírn Róberts Óla.


Sæl öll. 

Það var bjartur og góður skírnardagurinn í dag. Vor í lofti og lóusöngur. Yngsti meðlimur fjölskyldunnar var skírður í Hvalsneskirkju. Róbert Óli var ausinn vatni og var hinn værasti. Þetta var mjög góð stund. Fjölskylduvæn í öllum skilningi. Litlu krakkarnir mátuðu gráturnar, hoppuðu og kíktu meira að segja upp í prédikunarstólinn..Þau voru nú reyndar snarlega tekin niður. Allt var þetta fyrir athöfn sem sr. Lilja Kristín fór fallega með. Leyfið börnunum að koma til mín og bannið þeim það eigi því þeirra er Guðsríkið. Svo skemmdi það ekki fyrir að presturinn er tengdadóttir mín..Sigfús elsta barnið vanur úr kórnum enda sungum við hvert með okkar röddu með þeirra stuðningi..

Svo var brunað í Sandgerði í kaffi og tertur og ég gæti trúað að við höfum verið milli 40 og 50 samankomin í Lækjarmótum 9. Meðal gesta voru þrjár langömmur skírnarbarnssins. Mamma það er Jóna Arnbjörns og ömmur Hannesar Anna Sveinbjörns ljósmóðir og Sigga móðuramma hans. Jóhanna mamma Gunna er fjórða langamman en hún treysti sér ekki í veisluna. Þannig að hann á margar ömmur og lengri ömmur litli snáðinn!

Við kíktum aðeins upp á Ásabraut 35 en þar er verið að klára íbúð sem Fúsi ehf á og Jóhanna mun kaupa. Hennar íbúð á Vallargötunni verður tekin upp í. Þetta verður mikill munur fyrir fjölskylduna og allir fá sitt eigið herbergi. Ég gæti trúað að hún gæti flutt eftir 2-3 vikur ef ekkert kemur upp á. Þetta má segja að séu öðruvísi kreppufréttir en hafa verið undanfarið. Við verðum víst að halda áfram þó á móti blási. Jóhanna er vel sett atvinnulega séð og dugleg að bjarga sér. Það finnst mér reyndar krakkarnir mínir vera öll með tölu. En þetta er ekki hlutlaust mat, að sjálfsögðu.

Mummi kom í gær en þá var Gunni að fara í boð hjá Degi og tók hann með sér. Dagur er með þeim í Fúsa ehf og hann var að smíða sér ný fjárhús. Jú það er búskapur ennþá í þessu bæjarfélagi. Við kíktum á búfénaðinn hjá honum í dag á leiðinni heim. Gaman að þessu..Meeee.. 

En ætli sé ekki best að hætta í bili. Það eru komnar fréttir á Rúv og þó ég sé að reyna að hlusta minna, lesa og horfa þá sleppir maður ekki öllu. Held reyndar að ég sé fréttafíkill..Og það er ekkert gott í þessu árferði. Svo meðvitað fer maður út í vorið og minnkar fréttaneysluna.
Bestu kveðjur öll nær og fjær.
Ykkar Silla.


Flettingar í dag: 60
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 58
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 97213
Samtals gestir: 19705
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 09:41:12