09.05.2009 12:06

Vorið.


Góðan dag.
Nú er komið vor samkvæmt tímatali. En undanfarna daga hefur verið frekar kalt og vindasamt. Enda svo mikið að það snjóar og skefur víða um land. Við höfum sloppið við snjóinn en norðangarrinn er ekki beint heppilegur til að vera eða gera eitthvað úti.

Í þessari viku fór ég í tvær útfarir!  Frænka mín og vinkona mömmu Guðríður var jörðuð á fimmtudag. Hún var nú orðin háöldruð blessunin. Og í gær var Helgi Jökulsson jarðaður. Hann var stjúpfaðir Lilju Kristínar tengdadóttur okkar og kom inn í hennar líf þegar hún var tíu ára. Hann lést á Líknardeildinni tæplega 65 ára. Hann var mikill afi barna Lilju og Eiríks og þar er mikill söknuður. Eiríkur kom heim frá DK og Lilja frestaði brottför. Hún átti pantað far morguninn sem hann dó þann 30.apríl sl. En þau fóru svo í morgun eldsnemma og eru komin heim til Danmerkur. Eru núna á leiðinni í bílnum til Lysabild. Eiríkur kom á honum til Köben á fimmtudaginn.

Lilja Kristín er búin að vera hér á landi síðan í byrjun febrúar þegar hún kom til að leysa prestinn okkar sr. Björn Svein af í fríi hans. Þessi tími sýnist mér hafi verið annasamur hjá henni. Fermingar og skírnir. Mikið um jarðarfarir og erfið minningarathöfn. Svo eru þannig tímar núna að starf prests verður enn viðameira á margan hátt. Svo inn á milli var hún við sjúkrabeð Helga og móður sinni til halds og trausts. En nú bíða krakkarnir spenntir eftir þeim. Voru í umsjón nágrannakonu þessa tvo sólarhringa sem Eiríkur var í hér.

En annars gengur allt sinn vanagang. Nóg að gera í Fúsa ehf og það er ekki hægt að biðja um meira en það að hafa vinnu. Þeir eru meðal annars með þriggja mánaða verk hjá Olíudreifingu í Helguvík. Erla hefur séð um matinn undanfarið en við þurfum örugglega að skiptast á því það er unnið flesta daga. Núna eru átta manns að vinna hjá þeim. 

Svo er afmæliskaffi hjá litlu Júlíu Lindu í dag. Hún verður eins árs á morgun.
Læt þetta duga í bili.
Góðar stundir.
Ykkar Silla.



Flettingar í dag: 72
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 77
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 101081
Samtals gestir: 20430
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 22:23:01