22.07.2009 21:03

Landsveitin.


Sæl mínir kæru vinir nær og fjær.
Ég hef verið skelfilega löt við bloggið undanfarið. Enda sumarið yndislegt og nóg annað að gera. Reyndar hef ég verið svolítið inni á facebook og það kannski tekið eitthvað frá þessu aðalbloggi mínu.

En mig langar til að segja ykkur góða ferðasögu :)
Við fórum í ferðalag í dag. Ég, mamma og Maddý mín besta vinkona og frænka. Við fórum með mömmu í sveitina hennar Landsveit. Það fór ekki á milli mála að mamma hafði gaman af ferðinni en ég held ég segi ekki ósatt að við frænkurnar nutum hennar út í æsar.

Við lögðum af stað héðan úr Stafneshverfi klukkan tíu í morgun. Sóttum mömmu og tókum olíu á bílinn og vorum svo klárar í slaginn kellurnar þrjár.

Við byrjuðum á því að fá okkur bita á Selfossi í hádeginu. Næsta stopp var í afleggjaranum að Hjallanesi í Landsveit þar sem Sigga vinkona mömmu er alin upp og útsýnið var flott.  Við fórum að Heysholti og þar er bæjum vel við haldið. Þar voru mamma og pabbi vön að koma í heimsókn.

Síðan komum að æskuslóðum mömmu að Minni-Völlum. Þar kíktum við á gömlu þústirnar. Nýr bær er þar á jörðinni mömmu til mikillar gleði. Og unga húsmóðirin Dóra (Dórothea) bauð okkur inn í kaffi og góðgæti að ekta íslenskum sið. Hún var að útskrifast úr kennaraskólanum og er að fara að kenna á Hellu næsta vetur. Yndisleg framkoma við bláókunnar manneskjur og henni til sóma. Hún býr þar ásamt manni og þrem börnum.

Þaðan var haldið að Hvammi. Þar bjuggu ömmusystur mínar Sigurbjörg og Steinunn í mörg ár. Þær voru giftar bræðrunum Ásgeiri og Guðmundi. Þær bjuggu í Norðurbænum sem er horfinn en Frambærinn stendur. Í Hvammi var mamma líka á sumrin eftir að hún flutti til Reykjavíkur vegna veikinda afa sem fékk berkla þegar mamma var fimmtán ára. Þarna hittum við barnabarn Óskars sem mamma hafði þekkt.

Næst var það Skarð hið forna höfuðból í Landssveit. Við fórum að kirkjunni og inn í hana skoðuðum leiði okkar ástkæru vina og tókum myndir!  Þar hittum við Jónu sem mamma kannaðist við og var barnabarn Jóns á Minni-Völlum. Manns sem mömmu þótti vænt um alla tíð. Hann var þar þegar hún kom þangað fjögurra ára. Í Skarði hittum við líka Dóru eldri ömmu Dóru á Minnivöllum og ekkju Guðna í Skarði. Bara gaman! Reynar hafði ég hitt hana við jarðarför Gauju vinkonu mömmu í vor.

Svo lá leiðin að Leirubakka þar sem mamma bauð upp á kaffi og ís. Flott hvernig búið er að byggja upp Heklusetur. Útlendingarnir hafa mikinn áhuga sýnist mér.

Næst var brunað að Galtalæk öðru höfuðbóli í sveitinni. Þar var afi minn Arnbjörn alinn upp frá þriggja ára aldri. Lítið fundum við þar af gömlum minjum en mikið er fallegt þar!

Ég ákvað að fara aðra leið heim svo við fórum fyrir Búrfellið og fram hjá virkjunnini sem Fúsamenn unnu við í fyrra og niður að Þjóðveldisbænum þar sem við Maddý örkuðum upp brekkuna og tókum myndir.Síðan ókum við niður hinn fallega Þjórsárdal áleiðis heim..

Við stoppuðum því næst í Bónus í Hveragerði þar sem keyptar voru nauðsynjavörur til heimilinna. Heim komum við um klukkan hálf átta og frábær ferð á enda.
Langaði bara að setja þetta á blað og leyfa ykkur að njóta :o)

Hafið það sem allra best..
Ykkar Silla.


 
Flettingar í dag: 134
Gestir í dag: 45
Flettingar í gær: 109
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 101575
Samtals gestir: 20566
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 17:52:43