07.04.2008 17:56
Leitin að Brúnó
En það eru svo margir að hjálpa til við leitina. Hjónin sem reka Sandgerðissíðuna 245.is hvöttu alla til að fara í göngutúr í gær og voru sjálf að fara að leita. Guðbjörg hans Hilmars benti mér á Heilbrigðiseftirlitið í sambandi við að lokka hann inn í búr sem þeir ættu. Ég talaði við Magnús í eftirlitinu og svo hringdi Stefán eftirlitsmaður í mig áðan og ætlar að hitta okkur við flugstöðina með búrið í kvöld. Það þarf að vakta það á um það bil klukkustundarfresti svo við skiptumst þá á við það. Dýr mega ekki vera ein í því lengi sagði Magnús.
En við vonum að við förum að ná honum. Hann virðist hafa orðið rosalega hvekktur og hræddur og hleypur burtu frá öllum sem hafa rekist á hann. Það er vitað um fjóra aðila sem hafa séð hann. Svo það er líklegt að hann haldi lífi svo framarlega sem hann verður ekki fyrir einhverju farartæki.
En bestu þakkir öll sem hafið verið að hjálpa til. Sumir hafa sett á síðurnar sínar t.d. á Barnalandi. Kærar þakkir. Hvernig sem þetta fer erum við búin að finna hvað fólk er gott. Ekki síst fólk sem á sjálft dýr og þekkir tilfinninguna að finna ekki vininn sinn.

Kveðjur úr Heiðarbæ.
Silla.
05.04.2008 13:17
Með sólskinið með sér.

Hæ hæ. Nú eru David og Stacey hjá okkur og þau komu með sól með sér frá Atlanta, held ég! En hitastigið er lægra hér munar svona tuttugu gráðum. Hér er eins stigs hiti í dag. En við vonum að hlýni með vorinu. Og erum alsæl með þetta eins og er.
Það er búið að vera gestkvæmt hjá okkur undanfarna daga. Allir vilja hitta gestina og þetta hefur verið góður tími. Ég held að þau fari í Bláa lónið í dag. Þeim finnst það tilheyra að kíkja þangað. Ég hélt að þau yrðu viku en þau fara á mánudag heim.
En Brúnó er týndur!

En við ætlum að nota veðrið og fara aðeins í útivinnuna. Það þarf bara að fara í úlpu þá er þetta fyrirtaks veður til að gera eitthvað útivið. Við heyrðum aðeins í Maddý og co í gærkvöldi en þau eru í hitanum í Jacksonville. Árni og Dagur Númi kíktu aðeins við áðan. Voru að bíða eftir Benna sem skrapp aðeins frá.
En segi þetta gott í bili. Eigið góða helgi.
Ykkar Silla í Heiðarbæ.
02.04.2008 14:05
Ólík sýn.
Góðan daginn gott fólk. Nú er ég að undirbúa komu David og Stacey sem koma eldsnemma í fyrramálið. Þau fljúga frá Atlanta í gegn um Boston til Sandgerðisflugvallar ..Og það verður gaman að fá þau í heimsókn. Þau stoppa í rúma viku. Þau eru mjög hrifin af öllu hér og dásama brimið og útsýnið. Þau giftu sig líka hér í Hvalsneskirkju og það sýnir hug þeirra til Íslands.
En talandi um útsýni! Ég hitti á síðastliðnum sólarhring m.a tvær konur sem ég þekki. Önnur gaf sig á tal við mig í gær og átti ekki orð til að lýsa húsinu mínu og umhverfinu og ætlar að kíkja við næsta tækifæri. Hina hitti ég í morgun. Hún spurði hvernig mér líkaði ÞARNA suðurfrá. Ég svaraði reyndar eins og er að þetta væri frábært enda valið okkar að setjast hér að eftir hafa langað til þess lengi. Og er eitthvað að sjá spurði hún?! Hún svaraði reyndar að bragði sjálf og sagði.. jú sjórinn!
Þetta er dæmigert fyrir ólík sjónarmið. Enda ekki gott ef allir væru steyptir í sama mót og hugsuðu eins. En svolítið skrítið finnnst mér,eða hvað?? Konan sem ég hitti í morgun er uppalin í hverfinu hérna! Mér finnst stundum að fólk kunni ekki að meta íslenska náttúru nema að þar sé trjágróður eða fjöll niður í fjöru eða þannig. En landið okkar er einmitt líka fallegt af því það er svo fjölbreytt.
Og útsýnið mitt er yndislegt að mínu mati! Og breytilegt eftir veðri. Ég sé Eldey, Hafnir og Reykjanesið til suðurs og yfir að Hvalsneshverfi og inn til Sandgerðis í norður. Og fjöllin frá Snæfellsjökli að Þorbirni við Grindavík. Á þessu svæði hér sé ég fjóra vita, Reykjanesvita, Stafnesvita, Sandgerðisvita og Garðskagavita.
En þetta var svona innskot um umhverfi mitt sem er að sumu leyti urð(sem er að gróa upp) og grjót en þó ekki mikið upp í mót!! Og meira að segja steinarnir eru flottir. Sérstaklega í grjóthleðslunum þar sem þeir eru mosavaxnir. Og líka í heiðinni!
En ekki meira slór í bili. Hafið það sem allra best.
Ykkar Silla.
01.04.2008 11:20
1.apríl

Jæja góðir hálsar..Ég hef ekki komist inn á síðuna mína í nokkra daga fyrr en núna. Og fór bakdyramegin. En þeir hjá 123.is hafa verið að uppfæra síðuna og mér sýnist hún ætla að verða mun betri eins og t.d myndaalbúmin. Svo þá er að fara að setja inn einhverjar myndir. Ég hef látið duga oftast að benda bara á Bjössasíðu.
En hvað ég ætlaði oft að skrifa eitthvað um helgina en ..lok lok og læst. En ég er núna í Fúsa ehf að elda kjötsúpu. Þeir eru tveir að vinna í Reykjavík og tvö heima svo súpan verður líka í kvöld og kannski á morgun..

En við höfum verið dálítið úti við gamla settið og það er flott þó að það sé kalt í lofti. Ég er búin að laga heilmikið í garðahleðslunni en þetta er mikil vinna. Það er gott ef það kemur smátt og smátt. Sumir steinarnir eru svo þungir að ég ræð ekki við þá. Þeir hljóta að hafa verið hraustir fyrir hátt í 200 árum þegar þeir hlóðu þessa kletta.

En Lilja Kristín og krakkarnir fóru heim á fimmtudag til Danmerkur..Jóhönnu strákar voru í heimsókn um helgina og svo eigum við von á vinahjónum okkar frá Atlanta á fimmtudagsmorgun. Nóg að snúast. Maddý ,Gísli, Ölli og Bjarkar flugu til Flórida í gær og fara bráðum að vakna líklega!!!
Og ég ætlaði að blogga um samtakamátt vörubílstjóra. Flott hjá þeim..allt í lagi að hægja aðeins á hraðlestinni. Eina sem er slæmt er ef það hindrar sjúkraflutninga. Þeir hljóta að hafa önnur úrræði í flutningi á sjúkum. En þessar gengdarlausu hækkanir eru hræðilegar og kominn tími til að Íslendingar standi saman!

Sigurður Jónsson tengill hér til hægri er oft að benda á misréttið í þjóðfélaginu. Endilega kíkið inn hjá honum. Hann er góður penni. Og ég ætlaði að segja miklu meira en læt þetta duga í bili.
Eigið góðar stundir.
Silla.
26.03.2008 22:59
Eða hvað?



23.03.2008 20:37
Vor í lofti.
Jæja, sæl öll. Svei mér ef það er ekki vor í lofti. Við (old) settið vorum úti í allan dag að setja upp grindverk við neðra pallinn.. Það hefur góð áhrif á heilsuna að vera úti. Og svo fór ég eins og hreinsandi andi allt í kring um húsið með svartan plastpoka í eftirdragi. Það hefur safnast og fokið heilmikið rusl í þessum vetrarhremmingum sem við upplifðum síðasta hálfa árið eða meira.
Og fyndið hvað margir stoppa og horfa til okkar. Við erum sennilega smáskrítin í augum sumra. Að byggja hér úti í fámenninu! En þeir sem vita og sjá..... skilja að hér er paradís á jörð. .Kyrrðin, friðurinn, ölduniðurinn og fuglarnir sem eru að byrja að láta heyra frá sér.
En í síðasta pistli talaði ég um Útskálakirkju og fleira. Og vinur minn Hilmar Bragi leiðrétti mig LÍTILLEGA..Ég hef örugglega móðgað einhvern Garðmanninn þegar ég óvart kallaði Flösina Röst! En ég biðst forláts á fljótfærninni. Auðvitað Garðskagaflösin--Flösin. Og nú ætla ég að leiðrétta þetta og strika út svona Keflavíkurnafn eins og Röstina. En hvað um það. Þetta var í þriðja sinn sem ég kem í Flösina og þvílikt flott hjá þeim og henni Matthildi Ingvarsdóttir sem sér um veitingarnar. Hún er systir Sigga Ingvars hins eina sanna, rafvirkja og fyrrum sveitarstjórnarmanns..
Og nú tekur við skattaskýrslutími. Ég geri fjórar skýrslur þetta árið. Þetta er nú orðið lítið mál miðað við það sem áður var. Nú kemur mikið forskráð og allar upplýsingar á hreinu í bankauppgjörum. Fyrir svona 15-20 árum var þetta hrikaleg vinna. Skrifa allt niður (lánaafborganir) leggja svo saman og vera klár á öllum liðum sem ætti að draga frá og bæta við. Já þetta er lítið mál núna. Helst eins og hjá okkur hér í Heiðarbæ, byggingarskýrsla og svo ef fólk kaupir og selur fasteignir. Fínt hjá skattayfirvöldum að einfalda hlutina svona.
Í Mogganum í dag komu minningargreinar sem höfðu verið sendar inn um Fúsa tengdó. Bara fínar held ég. Veit ekki hvað ég á að segja ykkur um Jóhönnu K. Held að hún sé kannski að koma til sjálfs síns þessa daga. Þetta verður erfitt fyrir alla hlutaðeigandi. En hún vildi bara vera heima í dag þó við vildum fá hana í mat. En hér voru Jóhanna yngri og börn. Þau voru að fara og það var búin að vera hátíð og fjör á bæ......
En nú er páskadagur að kveldi kominn og ég óska ykkur öllum góðra stunda. Líði ykkur öllum sem best.
Kveðja úr Heiðarbæ.
Silla.
21.03.2008 20:15
Útskálakirkja og fleira...

Við fórum í messu í gær í Útskálakirkju. Það var verið að taka hana í notkun eftir allsherjar lagfæringar. Hún var byggð 1861 af Sigurði Sivertsen sem var þá prestur í Útskálaprestakalli. Þá náði prestakallið yfir miklu stærra svæði til að mynda Keflavík og Njarðvík. Biskupinn Sr. Karl Sigurbjörnsson prédikaði og svo sá Sr. Björn Sveinn auðvitað um athöfnina líka. Kirkjan er mjög fín og allt orðið miklu bjartara og skírara. Jón Hjálmarsson formaður sóknarnefndar og hans fólk hefur unnið gott verk. Einnig hafa Hollvinasamtökin og fleiri aðilar verið mikill styrkur. Eftir messu var kirkjugestum boðið i Flösina í kaffi og þar voru kirkjunni afhentar ýmsar góðar gjafir.
En engin kirkja er samt fallegri í minum augum en Hvalsneskirkja. Henni hefur verið nokkuð vel við haldið en samt þarf nú að fara að huga að ýmsu. Í kirkjunni á Hvalsnesi hafa flestar athafnir okkar fjölskyldu farið fram. Allir krakkarnir okkar eru fermdir þar og fjögur þeirra hafa gift sig þar líka. Ég fermdist þar að sjálfsögðu. Ég man vel eftir þegar miklar lagfæringar voru gerðar á kirkjunni sennilega um 1960. Þá var fallegi turninn tekinn í gegn.
En að öðru..Fúsi ehf bauð í verk upp í Búrfellsvirkjun og fékk það. Okkur létti því alltaf þarf að hafa vinnu fram í tímann. Það voru sex aðilar sem buðu í verkið og þeir feðgar Fúsi og Gunni ásamt Erlu Jónu voru búin að liggja yfir tölum síðustu daga. Og það var frekar taugastrekkjandi törn. Þetta verður 2-3 mánaða vinna hjá þeim. Og ég er ákveðin að fara og skoða aðstæður þarna upp frá þegar þeir byrja. Kannski verður hægt að kíkja við í Árnesi í kaffisopa.
Það er búin að vera blíða í dag. Bjössi var að taka myndir og setja inn á albúmið hjá sér. Hann er svo duglegur við það. Þau komu hér með honum Hlíf og Aron Darri. Kíkið inná hjá honum Bjössa ef ykkur langar að sjá dýra og mannamyndir af ýmsu tagi.
En lifið heil og gleðilega hátíð.
Silla
18.03.2008 20:21
Auglýsingar.

Ekki veit ég hvað eða hver var að stríða mér í gær!! Smá saga..


En hvar sem villan var upprunnin þá er þetta skondið. Því stríðnari mann en Fúsa tengdapabba hef ég ekki þekkt en Gunni kemur fast á hæla honum. Lilja tengdadóttir okkar frá D.K er á bílnum hans Gunna og hann er því bíllaus í augnablikinu. Hringir ekki karlinn minn í mig og spyr hvort ég eigi leið í Sandgerði

Jú ég átti von á Jóhönnu að sækja hluta barnahópsins sem var hér staddur, rétt strax og sagði að hún myndi taka hann upp. Já já hann hefði gott af því að ganga aðeins lengra en venjulega! En Jóhanna kom nýja Ósabotnaveginn úr vinnunni í Bónus og ég sendi hana í ofboði því sá gamli (nú Gunni) væri örugglega orðinn fótafúinn.
En ekki hvað. Hann var enn í vinnunni og var sko að skrökva og gekk því enga heilsubótargöngu í dag

En ég læt þetta duga í dag.
Kveðja úr Heiðarbæ.
15.03.2008 20:38
Að lokinni útför.

Jæja kæru lesendur mínir. Ég er mætt í bloggið aftur. Tengdapabbi var jarðsettur í dag. Og þvílík veðurblíða sem hann fékk og við öll. Við höfðum kaffi handa kirkjugestum hér heima í Heiðarbæ. Það voru hér um níutíu manns. Sennilega hafa verið um hundrað manns í kirkjunni sem tekur hundrað og fimm manns í sæti.
Já, myndi nú einhverjir segja..Var þetta ekki í kyrrþei? Já og nei. Allir voru velkomnir og við fengum því kjarna vina og ættmenna sem gátu komist til þessarar hinstu samkomu hans Fúsa míns. Sigfús nafni hans, sonur minn söng með kórnum yfir afa sínum og þetta var góð stund. Við fengum líka góðan einsöngvara Guðmund Sigurðsson sem söng tvö lög og svo fallega Dýrðarsönginn með kórnum.
Eiríkur, Lilja og börnin komu frá Danmörku til að kveðja afa. Sr. Lilja hafði smá kyrrðarstund fyrir börnin í morgun. Það kemur sér vel að hafa prest í fjölskyldunni. Sum voru að upplifa sorgina í fyrsta sinn. Sáu á eftir afa sínum sem var þeim mjög kær öllum, enda mikill barnakarl..Afi

En ég læt þetta duga í bili. Eigið góðar stundir.
Silla.
09.03.2008 17:40
Bloggfrí.

07.03.2008 11:27
Þorrinn og Góan.

Maddý sendi mér gamla vísu og fleira um Góuna. Og það er dálítið gaman að rifja þetta upp og hugsa um hvernig forfeðrum okkar tókst að komast af yfir langann veturinn.
Velkomin sértu Góa
og gakktu í bæinn.
Vertu ekki úti í vindinum
vorlangan daginn.
Fólk var oft orðið matarlítið á þessum tíma árs og máltækin lifa og segja sögu! Hægt er að þreyja Þorrann og Góuna sagði einhver. En kerling ein kvað það óséð.. Því ekki er öll Góa úti enn, sagði hún. Við þekkjum þetta máltæki! Og svo vælum við yfir óveðri í hlýjum húsakynnum og flest með all nokkuð af fóðri í ísskápnum.
Annars er allt gott að frétta úr sveitinni. Strákarnir Garðar og Vilmundur gistu í nótt. Fóru þeir svo í skólann um leið og afi þeirra í vinnu. Mamma þeirra þurfti að fara svo snemma að opna búðina. Þau byrja snemma á föstudögum að fylla upp í Bónus. En hún er nýlega orðin aðstoðarverslunarstjóri þar. Hún er hörkudugleg

Nóg var nú vinnan hjá henni áður og ekki minnkar álagið með þessu starfi. En hún þarf að sjá fyrir þrem börnum og það er heilmikið. Og það snýst nú ekki bara um föt eins og sumir halda, heldur fæði... húsnæði sem þarf að borga af og allt sem viðkemur heimili þar sem þarfirnar eru óteljandi. En allt gengur þetta upp með smá aðstoð.
Jæja læt þetta duga í bili.
Hafið það sem best.
Silla.

04.03.2008 20:46
Bleyta.. gönguferðir..og Færeyjar!

Jæja. Ekki er nú fyrr talað um fannfergi en komin er bleyta..Blaut bleyta. Við hjúin höfum gengið af okkur allt veður í tíu daga... EN nú fórum við ekki fet. Við eigum ekki góða regngalla og hefðum orðið eins og hundar á sundi og meira en það.
Í staðinn fór Gunni hamförum í vinnunni og ég fékk skúringaræði og tók allt í gegn svo svitinn lak..hm

En við fengum póst um helgina frá Gunnari Þór í Færeyjum. Hann er fluttur til Suðureyjar með spúsu sína...Skemmtilegt að hann er einmitt á Suðurey þar sem vinabær okkar Sandgerðinga er. Það er að segja Vogur (á íslensku). En Gunni Þór og Stína búa í næsta bæ sem heitir (á íslensku) Þvereyri!
Það býr gott fólk og skemmtilegt í Færeyjum. Allavega kynntist ég bara slíku fólki í ferðum okkar þangað. Við höfum komið þrisvar til Færeyja fyrir utan stopp með Norrænu á leið til Eiríks 2006. Fyrst fórum við á Ólafsvöku 1999 með Óskari og Sólrúnu og þá bara til Þórshafnar og nágrennis. Vorum þá í tíu daga.
Síðan fórum við vikuferð með Norrænu, bílinn var meðferðis og komum þeim sömu vinum okkar Sólrúnu og Óskari að óvörum í Vogi. Við vissum af þeim og létum vaða. Frábær heimsókn.. Það var árið 2001. Síðast heimsóttum við svo Vog í vinabæjarheimsókn með Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar árið 2005. Þá átti Boltafélagið þar stórafmæli. Hundrað ára afmæli. Það var velheppnuð heimsókn og gaman að það skuli vera komið á áframhaldandi samband.
Það væri svo margt hægt að segja um vini okkar í Færeyjum. Þeir eru rólegri en við (samt kátari). Það er kannski ekki alveg eins mikið lífsgæðakapphlaup þar og þeir eru áberandi gestrisnir..Kannski eins og Íslendingar voru hér áður. Og náttúran er svo nálægt þeim. Þegar við gistum fyrst í Þórshöfn 1999 voru hænur í garðinum og litla dóttirin í húsinu færði okkur egg í körfu..Ógleymanlegt.
En læt þennann Færeyjapistil duga í bili.
Kveðja úr Heiðarbæ.
Silla.

02.03.2008 19:45
FJÓRIR FLOTTIR.

Þessir strákar eru synir þriggja systkina. Jóhönnu, Fúsa og Konný. Ágúst var nú hressastur við útiveruna og byrjaði á stóru snjóhúsi í dag. En þá versnaði veðrið og fór að skafa á húsið hans. Þeir tveir elstu Ágúst og Garðar sváfu uppi í nótt og spjölluðu sig í svefn á loftinu. Þeim fannst það notalegt og vilja svo gjarnan koma fljótt aftur. Afi grillaði fyrir okkur hópinn í gærkvöldi. Þá var veðrið gott en þegar við vöknuðum í morgun sáum við ekki út um gluggana fyrir snjó!
En það var horft á sjónvarpið og farið í tölvuleiki, telft og fleira gott. Meira að segja amma gamla komst varla að í tölvunni. En Gísli kom í hádeginu á gröfunni og mokaði frá snjóinn í innkeyrslunni. Ég sá að hann fór líka á hina bæina. Flottur!! Þau Maddý voru með krúttmagakvöld í gær og nokkurn hóp af fólki.
Svo fóru drengirnir til síns heima í eftirmiðdaginn og við erum orðin ein í koti. Ég er að fara að horfa á uppáhaldsþáttinn minn í sjónvarpinu. Glæpinn! Það er tuttugasti og þar með síðasti þáttur og ég bíð spennt..

Segi þetta gott í bili. Hafið það sem best.
Kveðja Silla.

29.02.2008 14:46
Hlaupársdagur.

Í dag er 29. febrúar sem heimsækir okkur bara fjórða hvert ár. Þeir sem eiga afmæli þennann dag eru náttúrulega bráðungir allir! En ég gæti trúað að sumum krökkum finnist ekkert gaman að eiga afmæli á þeim degi. Ég sá á blogginu hjá Vísi.is að einn borgarfulltrúi (kvenkyns) var að biðja sér eiginmanns....Og segir þjóðtrúin að á hlaupársdegi megi menn ekki hafna bónorði..

Ég var í æfingum í Átak áðan. Þjálfarinn pínir mig meira og meira sem er bara gott..(eftirá). Svo skrapp ég í kaffisopa í Glaumbæ þar sem þau eru mætt í setrið sitt Maddý og Gísli. Þau eru með kúttmagakvöld fyrir vini og kunningja annað kvöld. Svo það er nóg að gera á þeim bænum. Það er eitthvað sem við kunnum ekki.(að verka kúttmaga).
Þeir raða sér hér fyrir utan bátarnir núna. Vonandi er gott fiskirí hjá þeim. Það er frost og frekar hægur vindur. Örugglega gott í sjóinn. Og svo er loðnan komin sem betur fer fyrir alla og þjóðarbúið. Vonandi að þeir finni fullt af henni og fái að fiska nóg. Manni stóð ekki á sama þegar ráðherra stoppaði allar veiðar á loðnu. Þvílíkt hrun fyrir margar sjávarútvegsbyggðir eins og t.d Vestmannaeyjar og Neskaupsstað. En þeir brosa nú breitt í bili..

Það er saumaklúbbur í kvöld hjá Sigrúnu í Keflavík. Svo þá verður malað smá hjá okkur!! Ein góð setning eftir Oscar Wilde írskan rithöfund...Það eru tvær gerðir af konum í heiminum..þær sem tala stöðugt og þær sem þagna aldrei !! ææ..

Kveðja úr sveitinni.
Silla.