23.08.2007 23:41

Góð vinna..

 
Æ ,jæja nóg að gera hjá ömmu Sillu núna. Reyndar er ég ekki bara að tala um ömmubörnin mín elskuleg sem eru að byrja skólagöngu eins og Vilmundur Árni..Honum gekk svo vel að fara inn í fyrsta bekk eftir nokkuð þref... og á skólaselinu..já .Góður strákur Villi.

En það er hundastandið.. Nóg að gera í því þó þeir séu svooooo góðir. En ég þarf að spá í hvort þeir fái nóg ..Og fylgjast með þeim fram og til baka. Þetta er örugglega bara ÉG..

En í dag sótti ég Vilmund í skólaselið og giskið..það var bara fjör og gott. Þarna hitti hann gamla vinkonu hana Guðný sem hann þekkti frá leikskólanum og það gerði pottþétt gæfumuninn!!

Hann var hjá okkur seinnipartinn í dag og var þvílíkt til fyrirmyndar þessi elska. Hann fékk að halda á hundinum sinum honum Strump og vildi halda á þeim öllum en amma sagði..nei. Þeir þurfa friðinn sinn þessar elskur.

Og nú er kominn friður á í Heiðarbæ. Ekki hljóð frá hvolpunum. Sofnaðir þessar elskur..
Og Týra líka, fegin að engin kallar á hana...

Góða nótt..sofið rótt..

Kv. Silla.

23.08.2007 09:34

Sandgerðisdagar.


        
Já nú er hægt að segja að Sandgerðisdagar séu í SJÓNMÁLI... Við skruppum í gærkvöld inn í bæinn og vá. Þvílík ljósadýrð. Við keyrðum um nokkrar götur og víða hittum við fólk í hópum eða nokkra saman að skreyta. Rauð hverfi með máluðum myndum af flottum konum
og eldrauðum lömpum í öllum gluggum!!! 

Blá hverfi þar sem einn íbúi sagði mér að það væru rauðar snúrur á milli bláu fánanna fyrir MIG..ha ha. Gul hverfi og græn hverfi. Frábær hugmynd sem færir líf og samstöðu milli íbúanna. Hverfafundir hafa verið út um allt.  Ég leyfi mér að efast um að íbúarnir hafi farið svona mikið í heimsókn til hvors annars ef þetta hefði ekki komið til.
 
Algjörlega til fyrirmyndar hjá skipuleggjendum Sandgerðisdaga. Svo var gleðin svo mikil að við spurðum hvort hátíðin væri byrjuð..já með grand og alles..nei en umtal um rigningu sem kannski yrði..Lítið mál..Við búum á Íslandi og höfum haft besta sumar í áraraðir..Er hægt að biðja um meira. En jú víst væri gott að það væri þurrt. Og þegar við komum heim til dýranna okkar þá drógum við fram tvo rauða lampa og settum út í glugga. Við tilheyrum rauða hverfinu hér í Suðursveit!!

En hér í Heiðarbæ hefur verið gestkvæmt og vinir og kunningjar eru að ná því hvar við búum. Þóra Braga og Hafsteinn úr Vogunum komu í fyrrakvöld og fjöldi hefur komið vegna voffanna. Sumir að skoða þá sem þeir eiga og aðrir bara til að sjá þá. Hrafnhildur er búin að koma vikulega átta sinnum úr Keflavík og vigta þá með mér. Þeir verða jú sprækari með hverjum deginum sem líður. Algjörar dúllur. Svo á ég að fara með þau í sprautur og örmerkingu á morgun...

Læt þetta duga þennann fimmtudagsmorgunn 23.ágúst og eigið góðann dag öllsömul.
Kv.Silla.

P.s..klukkan er núna 10.30. Og síðasta klukkutímann er ég búin að vera að leita að Týru út um allt. Hringja í Ölla, fara í Nýlendu og gá í skúrinn til Elínar ef hún hefði lokast þar inni áður en hún fór. Og búin að vera að kalla á hana í allann morgunn. Þau voru nefnilega uppi í nótt í grindinni..og hún fór út um leið og Gunni en hefur svo lætt sér inn áður en hann fór .Hvað haldið þið ..hún faldi sig fyrir mér og hvolpunum einhversstaðar í dóti í kjallaranum og ansaði ekki. Líklega er hún að verða ansi þreytt á þeim greyið..


.

21.08.2007 14:46

Styttist í brúðkaupið.


Það styttist í brúðkaup Lindu og Jóns. Alltaf flýgur tíminn áfram. Það verður 8. september og ekki nema tvær og hálf vika þangað til. Ég var með henni í Kef áðan. Það þarf aðeins að þrengja kjólinn. Einhverntíma hefði ég nú gert það sjálf en..Saumaði alltaf alla kjólana eða flesta á stelpurnar. Enda eina skiptið sem ég hef farið í Fjölbraut var þegar ég var einhverjar þrjár annir í fatasaum. Ekki held ég að ég hafi saumað meira eftir það en áður. Þá tók við vinna utan heimilis og blessuð pólitíkin sem er tímafrekja!

En ekki meir um það. Nú hlakkar okkur til brúðkaupsins og ég þarf ekki að vera með puttana í matseldinni..bara mæta.vá. Og svo daginn eftir er stefnan tekin í vesturátt til Minneapolis...á 40 ára afmælinu!!


Þá verða ungarnir mínir (hvolparnir) farnir að heiman. Reyndar Vikký bara í pössun til Jóhönnu þar sem hún verður með bróðir sínum Strump. Og Týra fer til Ölla og Benna og ef mig grunar rétt fer vel um hana þar. Hún er mjög hrifin af þeim bræðrum og tekur oft rúnt niður í skúr til Ölla.

Ég þarf orðið að eyða meiri tíma með þeim litlu núna. Þeir eru svo margir og í gærkvöld fékk ég þá flugu í höfuðið að Agnarögn fengi ekki nóg. Svo ég fór að láta þær minnstu tvær vera einar um spenana fyrst. Það var frábært að sjá upplitið á hinum á meðan í grindinni!!! Fáum við ekkert æ æ..
 
En það er tilfellið að fjórir af sex eru duglegri að bjarga sér sjálfir enn sem komið er.
En þetta er örugglega ekkert til að hafa áhyggjur af. Allavega eru þær fjörugar og slást við bræður sína.

Nú rignir eins og hellt úr fötu. Vona að það verði orðið betra um helgina.

Kveðja úr Heiðarbænum og hafið það sem best.

 

19.08.2007 20:21

Síðbúið afmæli ... Vilmundur Árni varð sex ára 6.ágúst og Ástrós Anna fjórtán ára 3.ágúst og það hafði ekki fundist neinn tími fyrir afmælishald. Reyndar var aðallega verið að hugsa um Vilmund því stóru krakkarnir vilja helst fara á pizzustað eða þannig.
 
En við héldum bara veislu í Heiðarbæ. Og það mættu 25 manns í þetta fyrsta afmæli sem haldið er upp á í nýja húsinu. Mikið fjör og flott veður. Sumir voru að koma hingað í fyrsta skipti eins og Óli og Jórunn, Didda, Ingunn, Alexsandra, Axel, Fannar ,Dísa og Berglaug litla. 

Og nú er komin ró yfir okkur og hin dýrin. Ég lokaði þau nú niðri í kjallara í dag svo þau hefðu næði. Það er sko svoooo ansi mikil eftirspurn í að fá að skoða. En nú eru allir latir í Heiðarbæ og ég nenni ekki einu sinni í göngu..eða kannski ég taki fram gönguskóna. Það er svo æðislegt veður...Hm.

Það spáir víst rigningu um næstu helgi. Vona að það rætist ekki því þá eru Sandgerðisdagar.
En við sjáum til ,allt getur breyst á styttri tíma en þessum í veðurspádómum. En að öðru leiti er ekki neitt nýtt í fréttum frá Stafnesinu. Bara tóm blíða í bili. Búin að lofa að fara í sund á morgun með Lillu vinkonu. Við tökum skorpur í því...

Hafið það sem best.
Silla.

 P.s. Bjössi bróðir setti myndir inn í kvöld. Hann er svo duglegur við það..Kíkið..

17.08.2007 22:24

Snati fær gott heimili.Já hún Jóna á Sauðárkróki sem ætlaði að fá Snata (sem eflaust verður skírður upp á nýtt ) hringdi í morgun og aðstæður hennar leyfðu ekki að hún tæki hann. Svo þá var fyrsta fólkið á biðlista kallað til.

Þau komu í kvöld og okkur leist ljómandi á þau. Greinilega vön dýrum svo honum mun líða vel. Reyndar þekkjum við til allavega heimilisföðurins. Þetta eru þau Hilmar Bragi og Guðbjörg konan hans. Og börnin bíða spennt.

Og svo ég sé áfram í hundaumræðunni þá ætla ég með þau í sprautur eftir viku. Þá verða þau líka örmerkt og fá heilsufarsdagbækur. Þetta er allt eins og með börnin. Allavega þegar farið er eftir reglunum.

Og litla Vikký er alltaf að verða duglegri og duglegri. Ég ætlaði að fara inn á dýrasíðu sem Guðbjörg sagði mér frá. Fann hana en ekki hvernig á að komast inn á einstakar síður..Ok. Læri það seinna.

Svo Strumpur fer á Vallargötuna til Jóhönnu og barna, Gríma á Þórsvelli í Reykjanesbæ til Hrafnhildar og Kalla, Agnarögn til fólks pabba síns í Reykjavík, Tinna til Danmerkur til Eiríks og fjölskyldu. Vikký sem er örlítið fötluð býr í framtíðinni í heimahúsum í Heiðarbæ og Snati fer að Tjarnabraut í Njarðvík til Guðbjargar og Hilmars. Er þetta bara ekki eins og við séum að tala börn !!! Núna eru þeir svoooo þreyttir að það er bara fyndið. Of mikið fjör í einum skammti.

Jæja ætli að ég láti þetta ekki duga í bili. Lifið heil.16.08.2007 20:42

Fótbolti..Ég er nú ekkert í fótbolta en hef verið styrktarmeðlimur hjá Reynir í mörg ár. Eingöngu vegna þess að ég er svo viss um að þetta styrkir unga fólkið okkar. Og tap og sigrar..það er lífið sjálft. Svo þetta er verðugur skóli til að styrkja. En í hádeginu í dag var allt í háalofti hjá fjölskyldunni á Vallargötunni..mamman í vinnunni og Garðar Ingi misskildi eitthvað og var of seinn á leiki í Grindavík.

Æ..æ..góð ráð dýr. Allt í lagi, amma var á lausu og það var brunað í Grindavíkina. Ekkert mál og Garðar sagði við mig í dag að hann hefði stuðlað að marki..Flott!! Hann var fyrirfram búin að ákveða að þetta væri til einskis og vildi jafnvel bara vera heima. Svo nú sá hann að það er betra að gera gott úr hlutunum frekar en sitja heima í fýlu....Þetta er bara lífið í hnotskurn og lexía fyrir okkur, ekki bara krakkana.

En ég ætla að segja ykkur sögu.....Fyrir kannski sex-átta árum vorum við á ferðalagi á austurlandi. Svenni bróðir Gunna býr á Neskaupstað. Það fór fram leikur milli Sandgerðinganna og heimamanna. Við vorum á staðnum og ég lifði mig svo í leikinn að ég var komin hálf út um framrúðuna..hrópandi áfram REYNIR. Ég frétti seinna af einhverri kerlingu sem hefði öskrað sig hása og hangið út um bílrúðu!!!!! Jæja..It was me.

Mamma var hjá mér í dag og segir að það sé flott að skrifa niður bænirnar. Svo nú bæti ég einni við. Ég fór alltaf með að minnsta kosti fimm bænir þegar ég var lítil.

Ó Jesú bróðir besti
og barnavinur mesti.
Æ breið þú bessun þína 
á barnæskuna mína.

Góðar stundir kæru vinir. 


14.08.2007 22:15

Litla systir í heimsókn.

 
Já ég á sko litla systir hvort sem þið trúið þvi eða ekki. Það er Dabbý (Dagbjört Hulda) Hún er 18 árum yngri en ég svo hún telst auðvitað bráðung!! Hún kom í heimsókn og ektamakinn var auðvitað með í för. Þau eru að enda fríið sitt og gista hjá mömmu. Núna eru þau yfir hjá Bjössa í kaffi. Þau fengu nefnilega ekkert kaffi í Heiðarbæ en það verður næst. Pottþétt!!!

Ég var að enda við göngutúrinn minn þegar þau komu. Gaman að fá Norðanfólkið eins og ég kalla þau í heimsókn. Þær systur mínar þrjár búa allar fyrir norðan. Tvær á Akureyri og ein á Kópaskeri. Magga systir bjó líka meirihluta þess tíma sem hún lifði fyrir norðan. Og þar búa allar dætur hennar, það er á Húsavík.
Anna Margrét og fjölskylda komu um daginn og hún á eina rauðhærða snúllu sem ég kalla Möggu litlu. Og eldra barnið hennar er Gunnar Sveinn (j.r)

Það er búið að vera svo hvasst í dag að ég gerði ekkert utanhúss. Bókaði hótel fyrir okkur fjögur fyrsta daginn í Minneapolis. Það er rétt við Mall of Amerika. Þurfum bara að fara yfir eina götu. Ætlunin er samt ekki að fara í Mollið heldur það sem þeir kalla Undirsjávar ævintýri. Það er staðsett undir Mollinu. Gunni er búin að skoða það og segir það fínt. Kannski í svipuðum dúr og Sandgerðisbær er að fara að byggja. Gengið um göng og horft á allavega sjávardýr.

Já það er mikið að gerast þennan mánuð. Linda og Jón gifta sig 8 sept.á afmælisdegi Gunna og við förum út 9.sept á brúðkaupsafmælinu..örugglega alltaf að segja ykkur þetta. Og svo eru það hvolparnir sætu sem fleiri manns eru að biðja um núna. En það er kannski einn sem er ekki kominn með fast heimilisfang. Og það kemur í ljós í vikunni. Og þeir eru algjörar dúllur. Þegar ég kem heim rísa þeir allir sem einn upp og bíða ...hvað nú? Mér dettur stundum í hug ungar í hreiðri....

Jóhanna og börnin komu í dag og auðvitað handagangur í öskjunni. Það þurfti nefnilega að velja á milli þess að skoða voffana eða fara í tölvuna og náttúrubörnin voru vinsælli..Jæja fer nú að enda þetta og langar að enda eins og síðast því það fer að koma háttatími.

Láttu nú ljósið þitt
loga við rúmið mitt.
Hafðu þar sess og sæti
signaður Jesús mæti.         Góða nótt öllsömul.

12.08.2007 00:17

Fallin spýta!


Ég var að raða spýtum á neðri pallinn í gær. Auðvitað algjör óvitaskapur því þær voru ónegldar. Ætlaði að hafa þær til að tipla svona á..ææ. Gunni var að festa á pallinn og steig á eina, fékk hana beint í magann úps og steyptist um koll.

Hann fékk hnikk á hálsinn og ég dreif hann með mér í pottinn til Fúsa áðan og heitt vatnið er allra meina bót eða þannig. Hann er mun betri núna.. Jæja þetta hef ég á samviskunni. Við vorum að koma heim og ég ætla að skrifa smá...

Það hefur verið gestkvæmt í Heiðarbænum og hvolparnir hafa auðvitað mikið aðdráttarafl fyrir ungviðið. Eins og ég var að tala um síðast gistu Konný-Hannesarsynir í nótt og leyfðu okkur að sofa til hálf tíu þessir englar.
Og í gærkvöld fengum við gesti frá Árnesi í Skeiða og Gnúpverjahreppi. Sigurð Jóns og Ástu.

Það var mjög ánægjulegt að þau skyldu koma og við áttum saman notalega kvöldstund. Það er svo margt sem við eigum sameiginlegt og það kemur meira og meira í ljós. T.d gusum við saman upp frá Eyjum 1973 ! Við vissum það auðvitað en höfum ekki gefið okkur svona góðan tíma í að ræða það dæmi og margt fleira.

Árni Snær, Dagur Númi sonur hans, Þórunn Anna, Bjössi og Aron Darri komu í dag og Dagur Númi ætlaði sko ekki að fara. Pabbi hans er með dýraofnæmi og hann sagði bara..pabbi af hverju ferð þú ekki upp á loft..Ekki deyja ráðalaus. Það þarf að gefa sér tíma í að skoða voffa!!!

Læt þetta vera nóg í bili. Eitt vers af nokkrum sem ég fór alltaf með fyrir svefninn þegar ég var lítil og lengur.

Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni.
Sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.

Ég held að öllum sé hollt að fara með bænir áður en farið er að sofa..Góða nótt.

09.08.2007 22:06

Hvað er í gangi?Það er eitthvað að gerast í veðurfarinu.. Í tvo mánuði var sól og blíða hér og hellirigning í norður Evrópu. Eiríkur sem býr í Söndeborg segir að sumarið sé loks komið hjá honum. Hann hafði reyndar hita en mikla rigningu í sumar og eins og við hefðum skipt um veður við de danske.

Nú er komin sól þar og hún endist sennilega fram í september. Við vorum hjá honum í fyrra mánaðarmótin sept-okt. og það var frábært veður. Vildi gjarnan vera hjá þeim núna.

Nú nálgast afmælisdagur Konnýar..la la .27 ára þann 10. ágúst. Og frændi hennar Ágúst Þór er ellefu ára líka sama dag. Nú er hann í Englandi með mömmu sinni ,vini sínum og mömmu hans.

Nú er nákvæmlega mánuður í ferðina stóru og sá mánuður flýgur örugglega. En svo margt er áætlað að gera hér heima fyrir þann tíma. Það kemur í ljós hvað næst af því.

Já á morgun ætla ég að passa fyrir Konný. Annað kvöld og fram á næsta dag, guttana. Það verður bara gaman..Ömmustuð!!

Jæja góðurnar, hafið það gott og dreymi ykkur vel!


08.08.2007 20:36

Ferðalangar frá Belgíu....Jæja ég var að fikta og eyddi síðasta bloggi!!! En þar var ég að segja ykkur frá strákunum frá nágrenni Brussel í Belgíu sem tjölduðu við húsið hjá okkur. Sem sagt í Nýlendugörðunum. Auðvitað með leyfi þar um.

Þetta voru stúdentar á aldrinum 20-24 ára og voru glaðir með okkur. Annað tjaldið þeirra var laskað og þeir voru hræddir um að það fyki. Svo fékk ég þá inn í hlýjuna i kaffi og te í morgun áður en þeir fóru og spjallaði helling við þá.

Og svo fór ég til dýralæknisins með voffana og henni leist sko vel á þá. Á samt að fara að létta undir með Týru og gefa þeim með...Ha ha þetta er eins og með börnin. og svo ætlar hún að athuga hvað þurfi áður en Eiríkur tekur sína Tinnu (búið að nefna hana) með út.

Og Ameríku -Kanada ferðalangar settust niður til að reyna að skipuleggja ferðina sem hefst 9.september á fjörutíu ára afmælinu.(brúðkaupsafmælinu okkar).Miklar bollaleggingar!! Áhersla lögð á að vera ekki Jónas..

Jæja þetta var það helsta og pikka eitthvað fljótlega.
Hafið það gott..

06.08.2007 21:58

V-helgin búin.Já nú er þessi ferðahelgi liðin. Og það hefur örugglega verið fjör hjá flestum. En við hér í sveitasælunni hlustum bara á fréttir frá samkomunum. Sigfús kom og var í mat. Kom frá Flúðum og þurfti að bíða í einhvern tíma vegna þess að hjólhýsið var lokað af..

En Erla Jóna og Ágúst flugu til London í morgun. Gunni kom þeim á flugvöllinn. Þau fóru með húsmóðurinni í Norðurkoti og syni hennar. Vonandin gengur það vel allt saman.

Og nú er ég búin að fá sjónvarpið aftur eftir langt hlé. Flott, því ég er fréttafíkill...Hefði örugglega sagt sussss við matarborðið í den..Eins og afi minn. Og nú er netið tekið við að hluta og ekki eins áríðandi að hlusta eða horfa á mínútunni.

Aftur var dagurinn tekinn í tiltekt úti við. Flott, því það er yndislegt að vera úti við í þessu veðri.
En núna kl. 22.00. þegar ég lít út um gluggann..Viti menn það eru dropar á honum..

Og enn og aftur kveð ég ykkur sem nennið að lesa ruglið hjá mér. Góða nótt og sofið rótt.
Silla.

05.08.2007 21:07

Sólríkur dagur..Já það var góður dagur í dag. Lægði vindinn eftir að ég fór úr tölvunni síðast og bara blíða. Ég var að raða timbri og fleira. Það eru bara forréttindi að fá svona veður og maður kann sko að meta það.

Jóhanna og Vilmundur komu í mat og Ástrós og Garðar Ingi eru hjá fólkinu sínu í Vaðnesi. Reyndar er Ástrós skáættingi en þau eru þvílíkt öðlingsfólk Óli, Jórunn og börn að það er bara einstakt. Ég held að þau uppskeri líka eins og þau sái...

Svo eiga þau afmæli um þessar mundir. Ástrós Anna 14 ára og Vilmundur Árni 6 ára. Ég var að bjóða Jóhönnu að hafa afmælin hér hjá okkur. Held að það sé bara góð hugmynd. Þá yrði það á laugardegi eftir hálfan mánuð. Þá á Ísar afmæli verður þrítugur...ja hérna. Hann ætlar að hafa tjaldsamkomu á túninu í Nýlendu.


En nú slæ ég botninn í þetta í bili og hafið það sem best.
Silla.

05.08.2007 14:27

Flugleið.


Já það má segja að ég búi við flugleið og það í fleiri en einum skilningi. Ég sat úti áðan og horfði á fleiri hundruð kríur fljúga framhjá. Flestar með síli í gogginum handa ungunum. Þær komu sunnan að, líklega frá Básendum eða lengra að. Sennilegra frá Sandvík eða Ósabotnum.

 Og ég er viss um að meirihlutinn fer alla leið í Norðurkot þar eru þær flestar þó sumar séu hér um kring. Já lífsbaráttan hörð hjá þeim og vonandi drepa hvorki mávar eða menn á bílum afkvæmin!

Svo er það hin flugleiðin. Flugvélarnar okkar mannanna. Austur-vestur flugbrautin er í stefnunni hérna rétt norðan við okkur. Þegar Dúna kom heim um daginn sat hún við gluggan og veifaði eða þannig  Svo undir morgun vaknaði Þröstur við Ameríkuvélarnar þegar þær voru að lenda.


 Ég er löngu hætt að heyra þetta. Fann aðeins fyrir þessu þegar við vorum í skúrnum og bara fyrst. Þær eru komnar neðarlega þegar þær eru hér enda aðeins 2-3 km að flugbraut ef það nær því.


Jæja hér er allt rólegt og gott. Við höfum verið að dunda úti við. Það er fínt veður en dálítið hvasst. Vorum í mat í Glaumbæ í gærkvöldi. Sátum svo og skipulögðum ferðina í september. Við ætlum langt en verðum örugglega að geyma Vesturströndina..Það er of mikið af því góða.


Við fljúgum til Minneapolis og keyrum upp til Winnipeg og Gimli og svo fleira...Heyrðum í David og bíllinn verður sennilega komin á flugvöllinn. Þau eru alveg frábær í að hjálpa okkur með þetta.


En fyrst er nú brúðkaupið hjá Jóni og Lindu..Jennifer og David koma í það en Stacey kemst ekki. Jæja best að fara út aftur og reyna að gera eitthvað af viti. Vona að allir hafi það gott hvort sem þeir eru á faraldsfæti eða bara heima eins og við.
Silla.

01.08.2007 21:17

Verslunarmannahelgin.Já nú er verslunarmannahelgin framundan. Aðalferðahelgin hjá sumum.Við hjúin kynntumst t.d. um verslunarmannahelgi. Það var á bindindismóti í Húsafelli.

Svo voru þau mót flutt í Galtalæk tveim árum seinna og ég heyrði að þau væru alveg hætt núna. Mér finnst það miður. Held að margir eigi notalegar minningar af þessum mótum. En önnur fjölskyldu-unglingamót taka þá við.

Reyndar hefur verið talað um flestar helgar í sumar sem ferðahelgar svo kannski verði ekki eins margt fólk á faraldsfæti um næstu helgi. Það spáir nefnilega íslensku roki og rigningu á föstudag! Vonandi verður minna úr veðrinu.

Í gærkvöld kom Hrafnhildur og við vigtuðuðum voffana. Sá þyngsti 670 gr. Þegar þeir fæddust voru þeir til samans 660 gr. Og nú vigta þeir saman tæp 3.500 gr. Allir í góðum gír greyin og fínir. En kannski rétt að fara að gefa þeim að lepja svo það létti á Týrunni.

Garðar Ingi og Vilmundur ætla að gista í nótt. Þeim finnst spennandi að vera í sveitinni. Í dag var loksins tengdur diskurinn svo nú er hægt að fara að horfa á sjónvarpið. Hef undanfarið kíkt í gegn um netið.

Reyndar eru diskarnir tveir og það náðist ekki að tengja nema Sky. Rafeindavirkinn kemur aftur á morgun. En það nást ,, bara,, nokkur hundruð stöðvar á Sky. En ég hef nú meiri áhuga á því Íslenska!

Lolli í Bala er búin að rífa skúrinn sem ég var að tala um í einhverju blogginu. Hann er smekkmaður. Það sést líka á öllu þarna í Bala. Þau systkyn eru þannig. Þessi skúr var líka gamall og eins og út úr kú miðað við annað á þeim bænum.

Jæja læt þetta duga að sinni. Góðar stundir.


Já og bræðurnir eru eins og englar. Tefla..Garðar er að kenna bróður sínum og það heyrist varla í þeim. Prúðir hjá ömmu.


                                             
 Svo fer Garðar með pabba sínum í bústað um verslunarmannahelgina..

 

 

                                               Hææææææææææææ

 Já og nú er ég komin með ríkissjónvarpið í gegn um gerfihnattadisk og það er tært og fínt.

 


 

30.07.2007 09:46

Týra og fleira.Já Týra er upptekinn hundur þessa dagana. Og alltaf mjólkar þetta skinn fyrir hvolpana..ennþá. Nú eru þeir orðnir svo stórir að þeir komast varla að allir í einu. Ég tek stundum einn og einn þeirra stærstu og held á þeim meðan hinir fá sér sopa. Það eru þeir stóru sem eru alltaf fyrstir á staðinn! Í gærkvöld tók ég einn og prufaði að setja volga mjólk í undirskál. Bíðið við það var eins og hann hefði ekki gert annað en lepja. Eðlislægt.. Svo prufaði ég annan, hann var skíthræddur við þetta. Sá þriðji var alveg klár líka svo þetta kemur fljótt núna hjá þeim.

Týra hefur stundum elt mig út að labba en það var fyndið í gærkvöldi. Hún snéri fljótlega við..æ ég nenni þessu ekki.. Fór heim og gelti þar til Gunni opnaði fyrir henni og hann hélt að eitthvað hefði hent mig, nei bara löt Týra. En það er nú komin rigning. Byrjaði í gær með smáskúrum en nú er komið alvöru rok og rigning! Það spáir aftur norðanátt svo kannski verður þetta stutt. Maður er orðin svo góðu vanur, sól og blíðu dag eftir dag svo maður ætti að halda sig á mottunni.

Mamma er hjá Lillý fyrir norðan. Hélt kannski að hún kæmi heim í vikunni en er ekki viss. Það er gott fyrir hana að stoppa hæfilega lengi því hún er alltaf öruggust heima. Hún er komin með öryggislykil sem er mjög gott. En nú er sól hjá þeim nyðra. Þær hafa verið í heimsóknum og haft nóg að gera skilst mér. Svo kíkir hún á netið hjá Lillý!


Jæja læt þetta duga þennann morguninn. Hafið það sem best..

 

Flettingar í dag: 73
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 74
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 124468
Samtals gestir: 26578
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 05:19:37