20.02.2009 08:43

Eftirvænting.


Jæja nú sit ég hér í tölvunni og var að fá mér morgunkaffið. Konný er á leiðinni upp á fæðingardeild og litli prinsinn líklega væntanlegur á næstu klukkutímum. Svo það er bara spennandi tímar núna. Myndavélin hennar er hér og ég er að fara með hana til þeirra hennar og Hannesar.

Í gærkvöldi fengum við heimsókn. Mummi bekkjarbróðir minn frá í barnaskóla kom en hann býr í Seattle í Bandaríkjunum. Við sátum rúma fjóra tíma að spjalli og tíminn flaug eins og hann gerir stundum. Frábært að rifja upp gamla tíma og ræða nýja.


Ég á að fara í sjúkraþjálfun klukkan tólf en ef litli maður verður ekki mættur ætla ég að sleppa því. Ég ætla að fá að sjá hann alveg nýjan. Það er bara að vona að allt gangi nú vel.

Ég hef undanfarið verið að elda handa Fúsagenginu stundum þrem og stundum fimm. Fáir núna og skipta sér stundum á verkin. Það er bara gott meðan eitthvað fæst að gera.

En ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili.
Góðar stundir.
Ykkar Silla.emoticon  
                                  NÝTT..

Klukkan er 17.30 og við erum búin að eignast þrettánda barnabarnið. Hann fæddist 12.55 og var fimmtán og hálf mörk og fimmtíu og fjórir sentimetrar. Þá eru strákarnir níu og stelpurnar fjórar í barnabarnahópnum. Við erum rík. Auðvitað eru amma og afi búin að kíkja á prinsinn sem er dökkhærður,slettur og fínn. 
Silla og Gunni.

 

13.02.2009 21:21

Þorrinn og Góan.


Hæ hæ. Nú eruð þið örugglega farin að halda að ég sé hætt að blogga. En það er nú ekki. En ég er svo pólitísk í mér að ég hef verið á Moggablogginu mínu síðustu daga. Ég er að fylgjast með þjóðmálum á þeim vettvangi en hef haldið því að mestu burtu frá minni heimasíðu.

Ég sagði ykkur síðast að Lilja Kristín tengdadóttir mín væri komin til landsins til að leysa Sr. Björn Svein af í hans leyfi. Og nú er hún búin að vera að störfum í tíu daga og allt gengur vel að ég held. Reyndar fór hún í höfuðborgina yfir helgina en þar á hún ættingja og vini. 

Og reyndar er þetta fyrsta pásan sem hún hefur fengið. Starf prests er erilsamt og ef einhverjir halda að það snúist bara um messur þá er það mikill misskilningur. Allavega stoppar ekki síminn hennar. Og við erum á því að hún haldi bara til hjá okkur og hafi loftið fyrir sig. Þar er herbergi og stofa.Ekki nein þörf á að finna annað húsnæði. Ég veit að það var sjálfsagt af Bjössa hálfu að hún færi í Skúrinn sem við köllum. Við bjuggum þar í tæp tvö ár við góða líðan.

En nú er tímabil þorrablóta og síðan kemur bollu og sprengidagur. Um síðustu helgi buðu Maddý og Gísli hverfinu í þorramat og alles. Þvílíkt flott hjá þeim eins og alltaf. Bjössi, Benni. Ölli, við og fjölskylda Glaumbæjarhjónna komu í matinn.

En nú er Mummi bekkjarbróðir minn líklega kominn til landsins með soninn Skyler. Ég vona að þeir komi við í næstu viku áður en þeir fara heim. Ég ætlaði líka að sýna þeim gamla heimilið hans Mumma. Þar búa Jóhanna og hennar börn núna.

En talandi um Jóhönnu þá eru að komast á samningar milli hennar og Fúsa ehf um að skipta út íbúðinni á Vallargötu 14 fyrir Ásabraut 35. Það leysir vanda hennar og krakkanna.Vonandi heldur Bónus áfram og hún vinnunni!! En það er búið að kaupa flísar og baðherbergisdót...

En nú held ég að ég hætti þessu blaðri. Lifið heil elskurnar mínar. Hvort sem þið eruð í Jax, Atlanta, Milwalkee í Danmörku eða hér heima á Íslandi sem er í kröggum! 

Kveðja úr Heiðarbæ.
Ykkar Silla.


06.02.2009 12:02

Lilja komin.


Komið þið sæl.
Það er ekki langt síðan við komum frá Danmörku. Og ekki datt mér í hug að tengdadóttirin yrði komin innan nokkurra daga á eftir mér. En presturinn okkar hann Björn Sveinn þurfti að fara í leyfi til USA frekar snögglega. Hann verður í þrjá mánuði og tekur svo sumarfríið sitt strax eftir það. Svo þetta gæti orðið afleysing fram í júní. 

Svo það voru fljótir hugar sem fundu út að kannski gæti Lilja Kristín leyst hann af. Og það gekk eftir og hún er á fullu að fara yfir verkefnin sem bíða. Tvær messur um helgina og skírn. Og svo allur hópur fermingarbarnanna sem þarf áframhaldandi fræðslu og umönnun.

Svo Eiríkur er í Lysabild með krakkana og þau eru auðvitað öll í skólum. Og vonandi verða allir frískir þá gengur þetta allt upp. Sem sagt fjarbúð! En Lilja er hér í augnablikinu í Heiðarbæ. Við erum búin að biðja Bjössa um að hún fái að vera í skúrnum. Það er ágætt fyrir hana að hafa smá stað sjálf þegar hún þarf næði. Förum kannski í það um helgina að koma þangað rúmi og fleiru. Svo eru það bílamálin. Ekki getur hún verið án bíls. Í augnablikinu er hún á mínum en annað hvort kaupum við eða leigjum ódýran bíl hjá Sissa..(Hann er í sóknarnefnd með mér). Það kemur í ljós. Hann lánaði mér reyndar bíl til bráðabrigða. Frábær þjónusta hjá Bílahorninu..

En í dag er verið að jarða Pétur Björnsson. En það er sr. Önundur sem jarðar. Þeir eru bræður hann og sr. Björn Sveinn og hann var búin að ganga frá þeim málum.

Annars er allt ágætt að frétta og styttist í næsta barnabarn. Það er eftirvænting í lofti og við látum ekki kreppuna hafa of mikil áhrif á okkur. Lífið heldur áfram og við verðum að gera gott úr því!

Þar til næst..Góðar stundir.

28.01.2009 15:20

Löt..


Heil og sæl. Það er búin að vera bloggleti í gangi á bænum enda ekki skylda að blogga eins og þið vitið!! En það er búin að vera hasar í stjórnmálunum á Íslandi í dag. Maður veit ekkert hvernig stjórn verður komin þegar maður vaknar að morgni. Það er bara að vona að fólki gangi að koman saman stjórn þar til kosið verður. Ekki gott að vera í lausu lofti í kreppunni. Ég ætla svo ekkert að segja um það hér hvernig mér finnst síðasta stjórn hafa staðið sig. En allavega eitthvað hægfara held ég. En vonum það besta.

Ég var að passa fyrir Lindu í gær. Það var verið að jarða Anton afa Jóns. Og ég fer á fund í VSFK. á eftir. Svo er ég búin að vera að dunda mér hér heima í dag meðan þvottavélin vinnur fyrir mig eða Jóhönnu. Er að hjálpa henni aðeins í þvottamálum sem fylgir stóru heimili. Þvottur og aftur þvottur.

Við erum búin að vera að fara í göngu næstum daglega (settið). Reyndar seinnipartinn á daginn því það er farið að verða bjart lengur fram eftir sem betur fer. En í mestu hálkunni sleppum við göngunni. Ég vona að veturinn verði góður það sem eftir er.

Nú styttist í að Konný komi með þriðja prinsinn og þrettánda barnabarnið okkar. Ekkert smáfjöldi það. Konný er skrifuð 12. febrúar en það er aldrei að vita hvaða dag hann velur sér.   

Þetta hjal var svona rétt til að láta vita að ég er lifandi og ég ætla bara að biðja að heilsa ykkur núna. Fer að verða duglegri, vonandi.
Bestu kveðjur úr Heiðarbæ.
Silla.

20.01.2009 20:47

Heim frá Danmörku.

emoticon
Jæja góðir vinir. Nú erum við settið komið úr heimsókninni til Eiríks,Lilju og barnabarnanna.
Þetta var mjög ánægjuleg ferð og við slöppuðum af og sváfum frameftir hvern dag! Og allt er gott að frétta af þeim og Eiríkur tók góð próf eins og ég sagði ykkur.

Það var kalt í Danmörku þó hitastigið væri hærra en hér. Ca 3-5 gr C. En það er svo mikill raki þar að þegar við komum heim í hita um frostmark fannst okkur bara heitara!! En auðvitað var hér hálka og allt hvítt sem ekki var þar.

Við fórum ekki í lest eins og ég planaði. Feðgarnir Gunni og Eiríkur fundu út að það væri litlu dýrara að fara með flugi! Þetta var svipað og mismunurinn að fara með rútu til Akureyrar eða taka flugið og þið flest þekkið muninn. Flugið tók 40 mínútur..Lestin rúma 4 klukkutíma.

Svo við fengum bara enn meiri tíma í afslöppun bæði hjá Eiríki og í flughöfnunum. Flott og svo eigum við passa í betri stofurnar sem við lærðum ekki að nota fyrr en fyrir tveim árum. Og við sátum í góðu yfirlæti á Kastrup og lásum dönsku blöðin..Fann ekkert um Íslenska skandalinn.

En nú erum við komin heim í íslenskan veruleika. Var að passa fyrir Lindu í dag og gaman að knúsa þær litlu skvísur. Og svo var allt vitlaust við Alþingishúið og ég er ekki hissa. Svo margir sem eiga um sárt að binda. Í Danmörku gengur lífið sinn vanagang nema hjá námsmönnum á námslánum sem eru helmingi minna virði en fyrir ári.

En ég er komin heim og blogga til ykkar fyrr en seinna.
Kveðjur..Ykkar Silla.


16.01.2009 06:30

Í Gammelhave.

emoticon
Hæ allir!
Nú erum við að Gammelhave 20 í Lysabild í Danmörku hjá barnabörnunum og foreldrum þeirra..Eiríki og Lilju. Erum bara í leti og sváfum frameftir...nema Eiríkur..Lysabild er rétt við Sönderborg.
Eiríkur var að koma úr síðasta prófinu á önninni og gekk alveg frábærlega. Fékk 4 tólfur og eitthvað annað sem heitir Gott. Við erum mjög glöð með það. Tólf er hæsta einkunn í háskólanum hér. Hann var hæstur ásamt tveim Dönum og það er góður árangur.. Í háskólanum hér Sönderborg eru um 30 Íslendingar 6 eru í hans deild.

Tinna hundur er orðin stór og er hvolpafull og hvort sem þið trúið því eða ekki þekktu þau okkur ferfætlingarnir hún og Brúnó. Elta mig um allt. Ótrúlegt hvað minni hunda er sterkt.

En hér er ágætt veður nokkurra stiga hiti og svipað og heima dagana eftir áramót.. Kannski ekki alveg 9 stig eins og þá. En við vonum að allir hafi það gott heima og bið að heilsa í bili.
Silla og Gunni, Eíríkur,Lilja, Þorsteinn,Helgi og Sigurbjörg í Gammelhave á Jótlandi.

11.01.2009 14:15

Vínartónleikar.


Heil og sæl.
Á þessum rúmlega sex áratugum sem ég hef lifað hef ég aldrei farið á tónleika hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. En Hulda Kristjánsdóttir vinkona mín (síðan í Reykholti 15 ára) gaf okkur þessa gjöf í tilefni af þessum háa aldri okkar. Gunni náði tölunni í september. Og ég verð að segja að við urðum alveg heilluð. Þetta voru árlegir Vínartónleikar hljómsveitarinnar. Hljómsveitastjóri var Markus Poschner og einsöngvari Dísella Lárusdóttir. Háskólabíó var troðfullt..Ekki sæti laust. Leikin voru verk eftir Johann Strauss yngri og eldri, Lehár og Leonard Bernstein.

Maður var með skilningarvitin á fullu. Yndislegt að fylgjast með hvað samspilið var frábært, söngur Dísellu yndislegur og ekki skemmdi stjórnandinn fyrir. Og þessir Vínarvalsar og hughrifin af þessum þekktu verkum alveg stórkostleg. Og ég sem hélt að svona viðburðir væru ekki fyrir mig. En gaman þegar eitthvað kemur manni svona á óvart. Við töluðum um að það væri gaman að gera þetta að árlegum viðburði. Það væri gaman að gera það að veruleika.

En við misstum af brennunni hérna í Stafneshverfinu. Það hefur oftast verið siður hjá okkur að kveikja í brennu í kring um þrettándann. Þá helst um helgi þegar fólkið úr bænum getur komið. Og það var gert í gær. Verðum vonandi heima næst.

En annars er allt í góðum gír. Horfði á sjónvarpið frameftir í gærkvöld og við vorum svona frekar sein að koma okkur á fætur. En ég held að hlýindin séu á undanhaldi. Það er að kólna á ný. Samt er enn gott veður, allavega í þessum landshluta.

En ég læt þetta duga í bili. Sæl að sinni.
Silla.

08.01.2009 17:51

Skammdegi.


Halló halló. 
Er ekki kominn tími á smáblogg? Er búin að vera í bloggleti. Eða bara LETI. Annars er allt gott að frétta og ekki hægt að kveina yfir óveðri þessa dagana. Ég var í sundi í gærkvöldi og þá var níu stiga hiti. En ég held að spáin hljóði nú upp á að kólni um helgina. Á sama tíma í fyrra var allt á kafi í snjó. Nú er grasið að grænka sem er ekki gott því það á örugglega eftir að koma kuldakast.

En ég var að taka niður jólaskrautið. Lét nú tvö ljós loga út í glugga samt. Það lýsir upp þetta mikla skammdegi. Það verður enn meira myrkur í svona bleytu-þokuveðri. Varla birtir upp. Gatnamótin og kafli við hann á nýja veginum, Ósabotnaveginum sem kom í haust eru skelfilega dimm. Það vantar stikur og vegurinn dökkur. Ég gæti trúað að þeir ætli ekki að ljúka merkingum og fleiru fyrr en í vor. En kaflann þennann ca 300 metra verður að laga fyrr. Við heimamenn erum að venjast þessu en fyrir ókunnuga er þessi afleggjari hættulegur svona.

Gunni fór í eftirlit til hjartalæknisins á mánudag. Hann er búin að vera frekar þreyttur undanfarið með ýmsa kvilla. Blóðþrýstingurinn var jú of hár og læknirinn Jón Högnason bað hann að fara varlega. Ein ástæðan er örugglega kæfisvefninn sem var uppgötgvaður fyrir ári. Þá átti hann að sofa með súrefnisvél sem bara hreint gekk ekki. En nú var hann áframsendur til lungnalæknis með þeim skilaboðum að önnur úræði væru til en þessi bannsetta vél. Þangað fer hann 22.janúar og verður fróðlegt að heyra hvað hann segir um málið.

Jæja nóg af tauti í bili. Hafið það öll sem best á þessu nýbyrjaða ári.
Ykkar Silla í Heiðarbæ.


02.01.2009 17:35

Pedró, Carlos og Carmen.


Góðan dag á nýju ári.
Ég fékk þrjú í gistingu um helgina! Það eru voffarnir hennar Svandísar. Svo hundahótelið í kjallaranum er fullnýtt. Vikký var hin glaðasta með að fá þau en Ladý Týra er í bæjarflakki. Hún er hjá frændum mínum Benna og Ölla. Annsi dugleg að væla sig inn til þeirra blessunin.

En annars er allt svona nokkuð rólegt. Ég skrapp í Keflavík til að ná mér í fisk í matinn. Ekki fær maður í soðið eins og í gamla daga þegar tengdapabbi og fleiri voru á sjó. Nú er allt háð kvóta. En í bæjarferðinni minni rakst ég á heiðurshjónin Sigurð Jóns og Ástu Arnmunds. Það var gaman að rekast á þau. Voru þau komin austan úr sveitum (Árnesi) til að kíkja á börnin sín sem búa hér suðurfrá. Í sömu verslun hitti ég Lindu mína sem var þar með yngstu ömmustelpurnar mínar þær Hrafntinnu og Júlíu Lindu.

Og þeir eru ekki að vinna um helgina Fúsagengið. Búnir að ná ákveðnum áfanga. Svo það er fínt hjá þeim að fá smá helgarfrí. Ég bókaði í dag jólagjöfina okkar! Ferðina til Eiríks, Lilju, Þorsteins, Helga og Sigurbjargar í Sönderborg. Farið verður héðan kl. átta á fimmtudagsmorgni 15.janúar og heim á mánudagskvöldi 19.janúar. Það er ágætistími því við þurfum líka að fara í lest frá Köben til þeirra og til baka. Vona að þetta gangi allt upp.

Eins og ég sagði eru komnar inn myndir frá ferðinni til Flórida í des og eitthvað meira. Kíkið endilega á þær ef þið hafið áhuga.
Bestu kveðjur úr Heiðarbæ.
Silla. 

 

29.12.2008 21:29

Senn árið er liðið.

emoticon
Heil og sæl

Nú er árið 2008 senn á enda. Tveir sólarhringar eftir. Auðvitað hefur margt gott gerst. Við fengum til dæmis tólfta barnabarnið í maí! Það var hún Júlía Linda. Allir hafa verið nokkuð hraustir. En við misstum tengdaföður minn hann Sigfús í mars og það má segja að árið hafi verið svona bæði gott og ekki gott. En þannig er líklega lífið. 
Myndin hér fyrir neðan er tekin í Hvalsneskirkjugarði fyrir jól.


Krossinn fyrir miðju er á leiði Fúsa. Leiði pabba er ofar en þar er líka ljós sem Bjössi bróðir hefur hugsað um!

Við fórum í lok janúar á sýningu í L.A og ég átti aldrei von á að komast svona langt að heiman.emoticonOg Gunni varð sextugur í september og ég náði að koma honum til Akureyrar í fimm daga! Börnin ættingjar og vinir gáfu honum fyrir ferð til Flórida og þangað fórum við í byrjun desember. Yndislegt að komast úr kreppustressinu og þar vorum við mest með Maddý og Gísla, bæði í ferð til Miami og Key West og í húsinu þeirra í Epplagötunni. Og auðvitað hittum við Dísu og börn nær daglega og fórum svo til David og Stacey. Ég var nú búin að segja ykkur þetta..En aldrei leiðinlegt að segja oftar en einu sinni frá því sem er skemmtilegt.

Svo er búið að vera mikið að gera hjá Fúsa..Sem betur fer og er á meðan er. En þeir klára líklega þetta verkefni sem þeir eru með núna fyrir miðjan janúar. Svo er bara að vona að þeim takist að fá fleiri verk. Eitthvað eru þeir með í bakpokanum..Örfirisey og fleira.

En við ætlum að skreppa til Eiríks og fjölskyldu og ég vona að það verði um miðjan janúar. Ég fékk miða á fínu jólapakkaverði og verð reyndar að bóka fyrir vissann tíma. En þar úti í Danmörku glíma námsmenn við vanda sem er ekki síðri en hér heima. Og eru jú einir á báti. Hafa fæstir stórfjölskylduna nálægt. En vandamálið okkar Íslendinga er hrikalegt. Lánin hafa hækkað sem og matvara upp úr öllu og margir hafa misst vinnuna. Og enn versnar ástandið.

En eigum við ekki að vona að nýja árið verði upp á við. Spekingarnir segja að ..uppávið sé ekki fyrr en á þar næsta ári en ég ætla að vera bjartsýn og vona það besta. Ég ætla að láta þetta verða síðasta blogg ársins 2008 og óska ykkur öllum nær og fjær árs og friðar.

                                        GLEÐILEGT NÝTT ÁR  2009.
Ykkar Silla.            (Tvö ný albúm komin inn.)

23.12.2008 22:17

Gleðileg jól

emoticon                        GLEÐILEG JÓL.

Kæru ættingjar vinir og aðrir lesendur Heiðarbæjarbloggs.
Ég óska ykkur öllum nær og fjær innan lands og utan Gleðilegra jóla árs og friðar.
Kærar þakkir fyrir árið sem senn kveður og er búið að vera okkur gott fyrir utan kreppuskepnu. 
En fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Við lærum heilmikið af þessum ósköpum öllum.
Og þurfa ekki allar skepnur að eiga sitt líf. Ég vona að líftími þessarar verði stutt.
En nú var ég að ljúka við að klappa síðustu pökkunum.
Sumir eins og Ástrós fékk bara fínu skóna sína til að brúka strax. Engan pappír takk.
Og í augnablikinu er ég að hlusta á jólakveðjurnar og nú spilar RUV gefðu mér gott í skóinn.

Og í annað sinn sendu Heiðarbæjarhjónin kveðjur í útvarpið. Byrjaði á því í fyrra og ætla bara að halda þessum sið. Hann tengist barnæskunni og tvisvar verður gamall maður barn.
Yndislegt að hlusta á allar þessar góðu óskir..Mér er slétt sama þó ég þekki ekki nema brot af þeim er kveðjurnar fá. En ég var líka að sjóða hangikjötið og umm lyktin. Svo þá geta jólin komið annaðkvöld með allri sinni dýrð.
Í fyrra fórum við í kirkju kl. sex. En nú er sá tími í Garðinum og ég fer bara í mína kirkju..
Kannski maður skreppi á jóladag. Tímasetning er til skiptist enda er þetta eitt prestakall.

Og við gáfum okkur flotta jólagjöf í kreppunni.
Ég keypti jólapakka hjá Icelandair.
Það er til að geta farið í tvo til þrjá daga til fjölskyldunnar okkar í Danmörku. Einhverntíma í haust sagði Gunni við Helga Snæ tólf ára að hann ætlaði að koma um jólin í heimsókn.
Ég sá nú strax annmarka á því. Nýkomin úr afmælisferðinni sem þá hafði þegar verið valin.

En einhverntíman í janúar þegar best er fyrir báða aðila verður gaman að kíkja til Sönderborg. Ekki veitir af að hressa upp á námsfólkið okkar nú um stundir.
Ekki að maður geti mikið gert annað en svona knúsað.
Kreppuskepnan kemur ekki síður til þeirra. Námslánin helmingi minna virði og allt það.

Enn og aftur kæru vinir.. GLEÐILEG JÓL. 


22.12.2008 11:53

Klikkað veður!

emoticon
Það blæs heldur betur núna. Veðurstofan var búin að vara við suðaustan roki og rigningu seinnipartinn í dag. Pabbi sagði alltaf að suðaustanáttin kæmi fyrr en veðurfræðingar segðu. Allavega oft. Það er þá bara fínt og þá gengur fyrr yfir vatnsveðrið. Ég var búin að áætla að fara í búðir með mömmu og tengdamömmu. En ég fer ekki fet eins og er. Þori hreinlega ekki fyrr en rignt hefur niður mesta krapann á Stafnesveginum.

Annars er allt í góðu. Ég á eftir að ná í nokkrar smágjafir. Það hefur áður verið farið á Þorlák að klára dæmin og svo koma blessuð jólin án þess að fara yfir um í gjafastressi. Við eigum reyndar tólf barnabörn svo það eru nokkrir pakkar. Við eru löngu hætt að gefa stóru (okkar fimm) börnunum og einbeitum okkur að því að þau litlu fái frekar pakka. Jólin eru jú hátíð barnanna aðallega. Þó okkur finnist jú vænt um jólin erum við ekki að spekulera í gjöfum..

Og svo hefur ástandið í þjóðmálunum í dag orðið til þess að kreppir að. En eins og ég segi..Jólin eru ekki gjafir. Jólin eru samvera og samkennd miklu frekar. Kertaljós og klæðin rauð var sagt í gamla daga og ég held að fólk sé komið á svipað stig. Föt í jólapakkana og friðarljós á jólum. Sem sagt kerti og spil!!

Eitt er það sem ég hef breytt um í jólasiðunum. Ég hætti að mestu í fyrra að senda jólakort og sendi kveðju í útvarpinu. Ég veit vel að það heyra kannski ekki allir en alveg frá barnæsku hef ég hlustað á jólakveðjur í útvarpinu á Þorláksmessu. Reyndar gloppótt þegar ég vann vaktavinnuna í Flugstöðinni. Að sjóða hangikjöt og hlusta á jólakveðjur... þá finnst mér jólin vera að koma. Svo er líka hægt að senda kveðjur á netinu og með tölvupósti. Reyndar er kominn einhver vírus í tölvupóstinn en það verður að hafa það þó það komist ekki í lag strax. En mér finnst nú samt vænt um að fá jólakort.emoticon

En ég ætla fara að hlusta á fréttirnar..Klukkan orðin yfir tólf á hádegi. Eigið góðar stundir.
Kveðja úr Heiðarbæ.
Silla. 

20.12.2008 20:40

Jólin nálgast.

emoticon
Gott kvöld. 
Nú nálgast jólahátíðin óðfluga. Hún mun örugglega lýsa upp hjá okkur eins og vanalega. Og nú er þörf á samheldni, góðvild og umhyggju ekki síður en áður.

Það hefur verið nóg að snúast hjá Heiðarbæjarkerlu. Í morgun vaknaði ég eldsnemma ...JÁ trúið mér klukkan sex. Þá byrjaði Vikký að gelta eins og óður hundur í kjallaranum! Ég vissi að ektamakinn vaknaði við þetta líka og við sögðum hvort við annað...Ætli að það sé komin mýsla í kjallarann!emoticon

En ekki gátum við séð nein merki um það. En í snjónum er viss hætta á að þessar elskur smygli sér inn ef hurð er opin smá stund. En allavega ég fór á fætur hálf sjö í morgun og tel að ég sé þar með búin að snúa upp á tímamuninn sem er hér og í Epplagötu (FL).

Ég fór að fara yfir restina af ferðaplöggunum og læddist svo í tölvuna til að kíkja á fréttir og bloggvini. Ég er nefnilega líka með síðu á mbl.is. Það er svona aukasíða en ekki heimasíða. Mér finnst gaman að fylgjast með ef tími gefst og skoða til dæmis hvað bloggvinir mínir eru að fjalla um. Og þeirra skoðanir eru sennilega eins margar og þeir eru margir. Það er gott og með vilja valið hjá mér. Ekki væri gott ef allir hugsuðu eins.

En svo hringdi Gunni og það þurfti að elda mat í Fúsagengi. Svo heilinn fór á fullt að finna út hvað ég ætti að gefa níu svöngum vinnumönnum. En það gekk nú allt upp og þeir fengu orku til að halda áfram ofan í tönkunum í Helguvík.

Svo skellti ég mér í Reykjavík til Maddý og Gísla með smá hluti sem ég ferjaði heim frá FL. Og ekki var verra að fara heim með vestfirska skötu sem þau gáfu mér til að elda hér í Heiðarbænum á Þorláksmessu. Á leiðinni heim kom ég við í Bónus og keypti mest af því sem vantaði fyrir jólin. Á jólunum verða mömmur okkar hjá okkur og Jóhanna þar sem pabbajól eru á þeim bæ.

Svo tók ég Garðar með mér heim og Jóhanna sótti hann eftir að hún var búin í vinnunni. Ástrós var heima að passa Vilmund og Jóhann.

En svo í lokin..Góðar stundir.emoticon
Ykkar Silla.


17.12.2008 19:40

Ævintýralegt flug.


Komið þið sæl nær og fjær.
Við erum komin heim í Heiðarbæinn á ný eftir gott sumarfrí. Þetta var sko sannarlega sumarfríið hans Gunna því í íslenska sumrinu síðastliðna var svo mikið að gera að það var unnið flestar helgar. En hitinn úti í Flórida var eins og best gerist hér að sumri.

Ég hef nú sagt ykkur undan og ofan af fríinu og allt tekur enda. Nú komum við heim í Jólasnjóinn sem ég hef heyrt að gæti verið farinn fyrir jól. En alltaf er nú fallegt að fá hvít jól.

En heimferðin í nótt gekk nú svona allavega. Við brunuðum í loftið í Sanford Orlando í Bryndísi þeirra hjá Icelandair klukkan sex að staðartíma. En þegar við vorum komin svona hálfa leið í fyrirfram ákveðna hæð þá hægði mín bara á sér. Flugstjórinn tilkynnti erfiðleika við hjólabúnað sem virtist ekki fara alla leið upp. Hann sagði því að við myndum snúa við og lenda í Sanford þar sem farið yrði yfir málið! En til þess kom ekki og þeir komu þessu í lag en við höfðum þá tafist um meira en hálftíma. Flugstjórinn tilkynnti okkur að við værum birg af eldsneyti svo við værum því bara til í flugið heim.

En eftir tæplega þriggja tíma flug kom hann aftur í kallkerfið og sagði að vegna veðurskilyrða í Keflavík yrðum við að taka aukaeldsneyti og lenda í Boston til að taka það. Þar var rúmlega klukkutíma stopp. Mikið er ég fegin að við Íslendingar höfum svona agað og gott flugfólk. (Vona að kreppan breyti því ekki.) Því reyndin varð sú að þegar við komum hér yfir heima þurftum við að hringsóla þó nokkra stund áður en vélin gat lent. Moksturstækin höfðu ekki undan að hreinsa brautirnar. En við lentum hér heil á húfi um tveim klukkutímum á eftir áætlun.

Svo við vorum nokkuð lúin og stungum okkur í rúmið klukkan níu og lúrðum til rúmlega hálf tvö. Alltaf gott að koma heim. Búin að sækja Týru til Benna og Ölla og Vikký er komin heim líka. En Gunni er sko farinn að vinna við að laga eitthvað í Fúsa ehf sem þurfti að logsjóða.

Og ég sendi ykkur öllum mínar bestu kveðjur. Ekki síst til Dísu og co í Epplagötunni.
Silla í Heiðarbæ.

13.12.2008 21:34

Komin frá Atlanta.

emoticon 
Hæ allir heima og heiman.
Við komum til Jacksonville í dag um hálf fjögur (8.30 heima) frá Atlanta. Þar vorum við í góðu yfirlæti í tvær nætur. Það var heitt þar um 80gr þar til í morgun að það hafði kólnað og var bara svona 10 stig á Íslenskan mælikvarða. En það er aðeins heitara hér í Jax og bjart og fínt. En nú styttist í heimferðina. Reyndar þrjár nætur eftir og flugnóttin!

Við erum búin að hafa það fínt. Nú eru Maddý og Gísli komin heim í jólasnjóinn og við sendum okkar bestu kveðjur. Við erum þakklát fyrir að fá að vera í litla kósý húsinu þeirra og Ölla. Við eigum eftir að finna okkur bílaleigubíl til að keyra út á flugvöll í Sanford og erinda svona sitt lítið af hvoru. Núna erum við að fá okkur kaffi og pústa eftir fimm tíma ferðina í dag. En vegirnir hér eru nú ekki slæmir. Fáar brekkur og beygjur. Beinar brautir. Engin hálka.emoticon

En ég vildi bara láta ykkur heyra í mér. Búin að frétta að Linda hafi fengið bráðaofnæmi sem ekki er alveg búið. Hún fékk sprautu í gærkvöldi. Hún var nánast aldrei veik sem krakki en þó var það eitt sinn þegar hún var rúmlega ársgömul að hún fékk einhver sýklalyf og fékk svo hræðilegt ofnæmi. Þá var sagt að hún mætti alls ekki fá það aftur. En við vorum svo heppin að hún var mjög hraust og þurfti lítið á lyfjum að halda. En þarna þegar hún fékk þessi ósköp forðum var einmitt verið að ferma Eirik og Lilja Karls bjargaði mér alveg. Hún og Bóbó gengu um gólf með hana heima hjá sér allan daginn. En hún fékk svo mótefni og við höfum ekki vitað af þessu meir. Líklega er þetta einhver sérstök tegund af sýklalyfi sem hún þolir ekki.

Ætli ég láti þetta ekki duga í dag..Bestu kveðjur úr Epplagötu.emoticon

Flettingar í dag: 168
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 124
Gestir í gær: 30
Samtals flettingar: 125104
Samtals gestir: 26682
Tölur uppfærðar: 24.7.2024 23:29:25