Færslur: 2007 Mars

31.03.2007 09:53

Laugardagur.


Jæja nú er laugardagur og ég er að fara á eftir inn í Sandgerði í Fúsa ehf. Það þarf að gefa vinnudýrunum að borða eitthvað. Þetta er nú fullmikið af vinnu ekki síst fyrir þá sem nálgast sextugt, ha. En svona er þetta nú bara nú um stundir.
Vona bara að það fari að koma tími í Heiðarbæinn. Súld úti núna en ég held að það sé vor í lofti.  Nú nálgast ferming Ástrósar hratt og þar verð ég með puttana í matseldinni..Jæja það gengur vonandi vel. Á morgun fermist Þórunn Anna yngsta barn Bjössa bróður. Hún er reyndar eins og ári á undan sér fædd í lok desember 93 og þá fyrir tímann.  En hún hefur nú aldeilis spjarað sig og er mjög fín stelpa.

Já það er gaman að sjá póst frá David í gestabókinni og svo kom póstur frá Sigurði Jóns frá Tenerife. Gaman! Sýnir okkur líka hvað heimurinn er orðinn smærri þannig.  Fólk í öðrum heimshlutum eins og Mummi í Seattle hafa færst nær einhvernvegin. Næsti stóratburður hjá okkur eftir fermingu Ástrósar verður svo 26.maí þegar David og Stacey gifta sig í Hvalsneskirkju. Og síðan ætla Linda og Jón að gifta sig 8. september.  Daginn eftir eigum við gömlu 40ára brúðkaupsafmæli. Það verður nóg að gera hjá Gunna að leiða brúðir inn kirkjugólfið í sumar. Hann leiðir Stacey líka..

Nú er fjör í firðinum.. Hafnarfirði. Í dag kjósa þeir um stækkun Álversins í Straumsvík með eða á móti. Það sagði einn að það ríkti borgarastyrjöld þar með erlendri íhlutun! Jæja vonandi verða dýrin í skóginum vinir á eftir hvernig sem fer.
Það verður gaman að fylgjast með í kvöld.  Þetta er ekki algengt að fólk fái yfirhöfuð að kjósa svona.  Það vakna upp ýmsar spurningar. Skilar fólk sér á kjörstað eða verður lítil þátttaka og þá lítið að marka niðurstöður.

Jæja læt þetta duga í bili. Góða helgi.

28.03.2007 21:49

Wilson Muuga og fleira.


Jæja. Nú er umhverfisráðherra Jónína Bjartmarz búin að tilkynna okkur að Villi eigi að sigla í mai. Gott mál ef það gengur eftir.  En ég segi nú eins og bæjarstjórinn okkar hann Sigurður Valur..við skulum spyrja að leikslokum.  En óskandi er að þetta takist nú allt saman. Vonandi verða allar myndirnar sem við höfum tekið af Wilson bara til minja.  Reyndar fer líklega eftir veðri hvort þetta tekst í maí en því verður nú varla trúað annað en þá verði reynt þar til það tekst, þó seinna verði.  Þá verður búið að leggja kostnað í að þétta skipið og gera klárt svo það hlýtur bara að gerast.. Nema það neiti að fara sjóleiðina..Svo eru uppi vangaveltur um að hann fari kannski að sigla aftur..Kannski það! Jæja nóg af Wilson vesini í bili.

Ég tók mig til í dag og tók myndir af húsunum hans Gunna eins og ég kalla það.  Hann er búin að byggja fjögur einbýlishús eitt parhús, eitt fjórbýlishús og er með eitt þríbýlishús í smíðum í Sandgerði. Það þýðir að það er búið í níu íbúðum sem hann hefur byggt og væntanlega kemst þríbýlið í notkun í haust. Og svo er það Heiðarbærinn. Það er íbúð númer þrettán (happatala). Elsta húsið er Hlíðargata 37 sem við fluttum inn í 1975.  Þar vorum við í 23 ár og ólum upp krakkana og hvort annað!  Við bjuggum í Miðtúni 10 og þaðan fórum við hingað í skúrinn hans Bjössa í nóvember 2005. Og nú er bara að bíða eftir lokasprettinum svo við getum flutt í Slotið..ha ha.  Jæja ég ætla að setja þessar myndir inn á síðuna en Konný ætlar að skanna mynd af Hlíðargötunni, ég ætla að bíða eftir því. Húsið er svolítið breytt núna og erfitt að taka myndir af því fyrir bílum og fleiru.  Betra að hafa mynd af því eins og það var.

Jæja ég var að passa guttana hennar Konný í dag. Svo tók Ástrós við þeim þar til mamman kom heim. Hún og Jóhanna fóru í R.víkina. Alltaf nóg að gera og undirbúa hjá Jóhönnu í sambandi við ferminguna. Það er best að hætta þessu blaðri.
Farið nú vel með ykkur góurnar mínar.

26.03.2007 22:16

Ferming og heimsókn að norðan.


Já við fórum í fermingarveislu í gær . Þá fyrstu á þessu ári.  Bárður Gísli yngri fermdist og við Gunni, Bjössi og Þórunn Anna fórum saman.  Hún fermist um næstu helgi. Og þegar við komum heim var Dúna litla systir, Laufey Björg dóttir hennar með soninn og mamma mættar í Nýlendu. Gaman, það er langt síðan ég sá Dúdú..Þær voru að kíkja á Heiðarbæinn í leiðinni. Svona til að sjá hann með eigin augum þarna í Nýlendugörðunum..
Í dag var ég svo að hjálpa mömmu að sinna ýmsu í Keflavík.  Fermingargjöfum og slíku stússi.  Annars lítið að frétta allt of mikið að gera í vinnunni hjá Gunna.  Hann er ekki lengur 20 þó hann haldi það stundum.. Það var bara blíða í dag, FRÉTT.
Jæja segjum þetta gott í bili. Góðar stundir.

24.03.2007 18:01

Mánuður.


Ja hérna. Í dag er mánuður frá fyrsta blogginu. Fljótt að líða. Ég hef reynt að hafa það á frekar léttum nótum og um daginn og veginn. Og vonandi eitthvað af viti innan um. Það eru komnar nokkrar myndir í viðbót inn en ég þarf að gera betur í þeim málum. Það kemur allt með kalda vatninu. Í dag var ég að passa Vilmund smávegis, elda fyrir vinnudýrin mín því það er unnið á laugardögum sem aðra daga um þessar mundir. Sigfús og Gummi upp í Steingrímsstöð að blása og mála.
Vilmundur spyr mikið um þá, af því þeir séu undir vatninu. Er það furða, fimm ár guttinn.
Ekki er lát á umhleypingunum en við búum jú á Íslandi og maður ætti ekki að vera að þessu væli.
Jæja nóg að sinni. Hafið það gott um helgina.

24.03.2007 00:11

Sauma-tal-klúbbur...


Gott kvöld...Ég var að koma úr saumaklúbb. Komið fram yfir miðnætti svo ég ætla að vera stuttorð. Enda búin að tala og hlægja frá mér allt vit. En svona eru saumaklúbbarnir okkar. Það er reyndar ein sem vinnur handavinnu með...
Sigrún á Melabergi eins og hún var kölluð í den. Og stundum Lilla Árna sem er frá Landakoti. Aðrar í kvennaklúbbnum eru  Helga Eyjólfs, Eydís Guðbjarnadóttir og Lilla í Kef. Svona er þetta sundurliðað. Og núna vorum við hjá Lillu í Kef. (Einu sinni Lillu hans Kidda.)
Það var fjör hjá okkur og það er alltaf. Hittumst reyndar bara einu sinni í mánuði og bara yfir veturinn......

Annað ,Jón Hrafn hennar Lindu dóttur minnar var í viðtali á Íslandi í dag á stöð tvö. Hann tók þátt í iðnnemakeppni í Kringlunni. Hann er að læra múrverk og er ansi flinkur og enda stúdent  með einn vetur í Háskólanum í verkfræði. Góð undirstaða fyrir námið. Hann er að æfa sig fyrir Heiðarbæinn.. að ég held!!  Hann ætlar, kannski með öðrum að leggja flísar fyrir okkur. Hann vann í dag og fékk verðlaun og svo er þetta bara gaman. Linda kíkti á staðinn með dóttluna og lenti í útsendingu. Ef þið viljið skoða þá farið bara á vísir.is og á Ísland í dag 23.mars. Jæja best að fara að halla sér. Sofið rótt í alla nótt...

21.03.2007 13:25

Netið og netframtöl.


Í dag er síðasti dagur framteljenda á netinu. En það er hægt að fá smá frest. Það er einn af kostum netvæðingarinnar að hægt skuli að telja fram á netinu. Og það hvað skattayfirvöld hafa gert allt auðveldara í kring um þau mál.
Ég sendi inn fyrir elstu kynslóðina og allt kemur forskráð og það þarf bara að samþykkja og senda. Þvílíkar framfarir. Ég finn það vel því í mörg ár hef ég gert skýrslur fyrir vini og ættingja. Og maður var að leggja saman og reikna vexti og afborganir, tína allt saman ofl. Nú sjá bankarnir um það fyrir fólk sem stendur í slíkum málum. Meirihluta þjóðarinnar líklega. Eina sem ég þarf að vinna svolítið hjá okkur persónulega er húsbyggingarskýrslan. Já netið er bylting. Eins og t.d. blogg og slíkt. Gott tæki til skoðanaskipta eða bara eins og mitt hérna í léttum dúr með ívafi. En eitt er það sem gæti skemmt fyrir bloggfólki eins og mér og fleirum.  Það ef fólk skrifar ekki undir nafni. Það finnst mér lélegt. Fólk hefur sem betur fer ólíkar skoðanir á ýmsu en lágmark er að skrifa undir nafni. Reyndar hefur enginn nafnlaus komið inn hjá mér en ég hef séð þetta sumstaðar og þá oft þegar fólk er með hálfkveðnar vísur.

Já best að koma sér að verki, segi þetta gott í bili. Farið gætilega með ykkur.
Það er úti veður vont einu sinni enn. Kveðja.

19.03.2007 16:27

Ferðalangar og fleira fólk.


Ég fékk SMS frá Sólrúnu frá Kario. Hún sagði að þau væru í skýjunum yfir öllum aðbúnaði. Hafði aldrei séð annað eins. Þetta væri eins og fyrir forseta. Ég fékk hláturskast og sendi henni á móti og spurði hvort hún væri ekki með FORSETA ha ha. En annars, þetta er víst þvílíkur lúxus. Gaman fyrir þau. Annars var í fréttunum að það hefði komið upp fuglaflensutilfelli í Egyptalandi einhversstaðar. Vonandi einangrað tilfelli.

Í dag byrjaði ég eftir nokkurt hlé í sjúkraþjálfun í Átak og var svo heppin að fá sama þjálfarann. Hún heitir Dagbjört og er einstaklega elskuleg stúlka. Svo þurftum við Ástrós að erinda ýmislegt og í leiðinni var farið í sendiferðir fyrir elstu kynslóðina, ömmurnar í Miðhúsum. Nú virðist aftur vor í lofti, hvað sem það helst lengi.

 Í gær fengum við Gunni blaðamann frá Víkurfréttum í heimsókn í Heiðarbæinn. Það var Ellert Grétarsson sem einnig er með bestu ljósmyndurum. Ekki veit ég nú hvort hann getur galdrað einhverjar fínar myndir af okkur gamla settinu. Varla ha ha. Mér skilst að þetta viðtal eigi að koma í Tímariti Víkurfrétta. Reyndar veit ég lítið um þetta, sjáum bara til. Ég held allavega að Heiðarbærinn sjálfur sé í aðalhlutverki. Hann er flottur þó ég segi sjálf frá. Og þegar okkur tekst að klára dæmið og allt umhverfið eins og ætlunin er kemur það betur í ljós. Þá set ég nýjar myndir á síðuna.

Nú líður að fermingum. Bárður Gísli Guðjónsson fermist 25.mars, Þórunn Anna dóttir Bjössa á að fermast 1.april. Ástrós Anna dóttir Jóhönnu 5. apríl. Jónína fósturdóttir Dúnu 7.apríl og Thelma dóttir Dabbý 19.apríl . Já það verður nóg að gera þennan mánuð...Og mér finnst svo stutt síðan þessir krakkar voru með bleyju. Segir til um aldur annarra ekki satt?  Nú fer ég að hætta þessu pári..Lifið heil.

17.03.2007 20:41

Matur fyrir þrjá.


Hæ aftur. Við buðum Benna frænda í mat og erum búin að hafa það kósý í kotinu. Vorum í Heiðarbæ seinnipartinn en það varð nú ekki mikið um framkvæmdir. Meira spáð og spekulerað sem þarf líka. Við keyptum okkur borðstofusett í dag í Bústoð og borðið er frábært með mikla stækkunarmöguleika. Ætli sé ekki þörf á því þegar margir koma í einu? Og þá verða kannski fleiri í mat en núna ,allavega stundum.

Nú eru allir að fá boðskort frá David og Stacy og mamma fékk það sama dag og hún gifti sig fyrir 60 árum 15. mars .Hún var mjög ánægð með það. Gæti verið lukkumerki fyrir væntanlegt brúðarpar!  En ég er farin að halda að við náum ekki að flytja fyrir brúðkaup æ æ. Allavega ekki í fullgert hús. Enda allt í lagi okkar vegna en þá verðum við að leita að fleiri gistiplássum. Væntanlega verða það 15-20 manns sem koma frá USA 19.maí n.k. Við erum að plana ferð með hópinn um Suðurland og vonandi gengur það eftir áætlun.

Jæja best að fara fram í STOFU og spjalla við Gunna og Benna.
Hafið það sem allra allra best.

17.03.2007 14:13

Slydda.


Maður fer nú að verða svolítið þreyttur á veðráttunni. Enn á ný snjókoma eða slydda og ekki hundi út sigandi. Týra greyið rétt skreppur og kemur svo inn skjálfandi. Hún er sko hundur. Reyndar sagði Bjössi bróðir fyrst þegar hann sá hana fyrir nærri þremur árum: Þetta er ekki hundur, þetta er undur!  En hún er smá og Bjössi og Ölli eru bestu vinir hennar. Nú er 30 stiga hiti í Flórida þar sem þau eru núna Maddý Gísli og Ölli. En þau missa ekki af neinu í veðurfarslegu tilliti. Ónei..En annars spáir björtu á morgun. Nóg af veðri.
Var í morgun á K-listafundi. Þar komu saman vel flestir sem skipuðu listann í kosningunum á sl.ári, ásamt öðrum sem starfa fyrir K-listann. Þessir fundir á nokkurra mánaða fresti eru mjög gagnlegir og upplýsandi. Margir á listanum eru formenn nefnda og fróðlegt að heyra hvernig gengur. Það er ótrúlegt hvað þessi baktería endist þó maður sé hættur! Jæja best að fara að gera eitthvað í Heiðarbænum. Gunni er meira að segja heima aldrei þessu vant. Sólrún og Óskar eru að fara til Egyptalands á morgun. Það hlýtur að vera áhugavert og kannski á maður eftir að fara á þær slóðir seinna. Jæja þetta var dagbókin fyrrihluta dags laugardaginn 17.mars!!!!
Góða helgi öll sömul.

15.03.2007 14:42

Flensa og fleira.Jæja ekki gat þessi bannsett flensa sleppt mér alveg. En þetta er allt í áttina núna. Slapp örugglega betur en margir. Ég er búin að vera eins og skælandi alla vikuna , augun á floti. Hvað er það miðað við svo margt. Alltaf jafn mikið að gera hjá Fúsa ehf. Núna eru þeir uppi í Steingrímsstöð við sandblástur ofl. Þeir segjast vera 20 metrum undir Þingvallavatni. Úff best að hugsa ekki um það.
Hilmar tengdapabbi hans Sigfúsar dó í nótt. Það urðu bara rúmlega tvö ár á milli hans og konunnar , Ólu. Jæja svona er lífið.
Ég kom aðeins til Erlu tengdadóttur minnar áðan og hún er nú bara hress.

Að öðru.  Mér fannst gaman að fá gamlan bekkjarbróður í heimsókn á síðuna ,hann Hafstein. Mér finnst maður vera búin að tína of mörgum úr þessum fámenna hóp sem var saman í skólanum hér í Sandgerði. En þetta er bara svona. Gunni man eftir mjög fáum úr skólanum í Hafnarfirði.
Svo þetta er líklega bara gott hjá okkur...En ég hef haft mest samband við Hrefnu og hitti stundum þá sem eiga heima hér um slóðir. Það eru Jóhann, Stína, Elsa, Gunnar Páls og Birna. Svo höfum við Mummi verið í tölvusambandi í nokkur ár. Jæja það er bara nýtt líf að keyra Stafnesveginn núna miðað við í síðustu viku ..Hm.. En það þarf auðvitað að gera hann betur upp í vor. 
Best að hætta þessu rugli í bili. Rugla meira seinna það megið þið bóka.
   Lifið heil. 

13.03.2007 16:44

Bekkjarsystkinin.

   Jæja við sem erum fædd árið ,haldið ykkur, 1947 eigum náttúrulega svolítið stórt afmæli á þessu ári. Við erum ekki með bleyju eins og þessi á myndinni, það er nú kostur. En auðvitað snúast augun í okkur vegna þess að við trúum þessu ekki. En nú ætla ég að upplýsa leyndarmál..ha ha. Mummi verður sextugur á morgun. Hann býr úti í Seattle og getur því falið sig fyrir okkur. EN á morgun 60 ára takk fyrir, þann 14. mars. Og fyrst ég er byrjuð að skandalera þá ætla ég að upplýsa um þá sem ég man eftir. Birna Margeirs á afmæli 20. mai. Hrefna vinkona á afmæli 2. nóvember ,Skúli Sigurðs er fæddur 2. desember. Ég á afmæli 29.maí, verð að heiman ,pottþétt.  En það þyrfti að upplýsa um fleiri sem eru að verða svona ungir eða þannig. Bjössi bróðir er alltaf að stríða mér á hvað ég sé gömul en alltaf lallar hann í humátt á eftir mér. Munar þrem árum, hvað er nú það? Jæja hvað um það. Maður er ekki degi eldri en manni finnst maður vera.

Góðar stundir.

11.03.2007 22:43

Það er af sem áður var...


Það er af sem áður var
æskan nam og lék sér þar.
Nú er þar orðið einskonar
afdrep fyrir kvennafar.

Þessa vísu kenndi pabbi mér ásamt fleirum góðum.
Pabbi var fæddur 1914 og var næstyngstur sinna systkina. Hann var Miðnesingur í húð og hár og hreykinn af því.
Hann lést 1.april 1997. Og nú eru að verða tíu ár frá því hann lést.

Vísan hér að ofan er um barnaskólann sem var staðsettur í Hvalsneshverfinu og varð seinna samkomuhús hreppsins.
Núna er þetta hús eign Hákonar Magnússonar ,heiðursmanns sem á níræðisaldri rær til sjávar og ræktar sínar kartöflur..sem sagt ræktar sinn garð öðrum til eftirbreytni..
Meira seinna.
Kveðja Silla.

08.03.2007 20:13

Ömmurar og fermingarstúlkan.


Já við, Anna amma , Ástrós Anna og ég fórum í Reykjavíkina í dag í verslunarleiðangur.  Aðalástæðan var að finna fermingarskó á Ástrósu.
Það gekk bara nokkuð vel og var ferðin hin ánægjulegasta. Við fengum okkur kaffi og kók í Kringlunni og við Anna spjölluðum svo mikið  að Ástrósu þótti nóg um. En er það nú ekki gott að ömmur hafi um eitthvað að tala? Skórnir fundust og fermingarkjóllinn er klár. Þessi flotta stelpa verður örugglega fín í veislunni sinni þann 5. apríl n.k. 
En að öðru. Ísar er að vinna í aukavinnu í Heiðarbæ.  Leggja lagnir fyrir vatn og fl. Hann er farinn að vinna hjá ITS á Keflavíkurflugvelli og það er vaktavinna svo hann hefur einhvern tíma auka. Annars eru allir svo uppteknir allstaðar að það hálfa væri nóg.
Annað,. það var svolítið skondið að sjá bíl yfirmanna vegargerðarinnar fara hér um í morgun. Skyldi eitthvað hafa ýtt við þeim í því að skoða Stafnesveginn eða?
Ekki meira af hálfkveðnum vísum í dag...
Hafið það sem best.

07.03.2007 20:17

Víkurfréttir.


Við Konný höfum verið í sambandi við Hilmar Braga á Víkurfréttum í sambandi við Stafnesveginn. Og hann brást vel við enda hafa þeir sjálfir kynnst veginum í sambandi við fréttaflutning af Wilson Muuga. En það er mikið atriði fyrir íbúana að geta leitað eitthvað með svokölluð umkvörtunarefni. Og hann Hilmar lét ekki duga að skrifa eina frétt heldur hafði samband við Jónas hjá Vegagerðinni. Þar á bæ var honum sagt að alltaf hefði staðið til að laga veginn eitthvað.. í vor.  En ég hef nú heyrt þannig fréttir áður sem ekki hafa orðið að veruleika. En svona fréttir eins og hjá Víkurfréttum halda málinu að stjórnvöldum og við erum miklu vonbetri um lagfæringar eftir þessi fréttaskrif.
 Vonandi komumst við þessa 8 km til Sandgerðis á fínum vegi í blíðunni sem verður í sumar...
Með vor í sinni.
Silla.

05.03.2007 22:44

Íþróttamaður ársins 2006.


Já nú er komið að því: Íþróttamaður ársins 2006 í Sandgerði er Hafsteinn Helgason.
Góður drengur og flottur merkisberi okkar Sandgerðinga.
Flettingar í dag: 193
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 74
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 124588
Samtals gestir: 26580
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 06:44:21