Færslur: 2009 Janúar

28.01.2009 15:20

Löt..


Heil og sæl. Það er búin að vera bloggleti í gangi á bænum enda ekki skylda að blogga eins og þið vitið!! En það er búin að vera hasar í stjórnmálunum á Íslandi í dag. Maður veit ekkert hvernig stjórn verður komin þegar maður vaknar að morgni. Það er bara að vona að fólki gangi að koman saman stjórn þar til kosið verður. Ekki gott að vera í lausu lofti í kreppunni. Ég ætla svo ekkert að segja um það hér hvernig mér finnst síðasta stjórn hafa staðið sig. En allavega eitthvað hægfara held ég. En vonum það besta.

Ég var að passa fyrir Lindu í gær. Það var verið að jarða Anton afa Jóns. Og ég fer á fund í VSFK. á eftir. Svo er ég búin að vera að dunda mér hér heima í dag meðan þvottavélin vinnur fyrir mig eða Jóhönnu. Er að hjálpa henni aðeins í þvottamálum sem fylgir stóru heimili. Þvottur og aftur þvottur.

Við erum búin að vera að fara í göngu næstum daglega (settið). Reyndar seinnipartinn á daginn því það er farið að verða bjart lengur fram eftir sem betur fer. En í mestu hálkunni sleppum við göngunni. Ég vona að veturinn verði góður það sem eftir er.

Nú styttist í að Konný komi með þriðja prinsinn og þrettánda barnabarnið okkar. Ekkert smáfjöldi það. Konný er skrifuð 12. febrúar en það er aldrei að vita hvaða dag hann velur sér.   

Þetta hjal var svona rétt til að láta vita að ég er lifandi og ég ætla bara að biðja að heilsa ykkur núna. Fer að verða duglegri, vonandi.
Bestu kveðjur úr Heiðarbæ.
Silla.

20.01.2009 20:47

Heim frá Danmörku.

emoticon
Jæja góðir vinir. Nú erum við settið komið úr heimsókninni til Eiríks,Lilju og barnabarnanna.
Þetta var mjög ánægjuleg ferð og við slöppuðum af og sváfum frameftir hvern dag! Og allt er gott að frétta af þeim og Eiríkur tók góð próf eins og ég sagði ykkur.

Það var kalt í Danmörku þó hitastigið væri hærra en hér. Ca 3-5 gr C. En það er svo mikill raki þar að þegar við komum heim í hita um frostmark fannst okkur bara heitara!! En auðvitað var hér hálka og allt hvítt sem ekki var þar.

Við fórum ekki í lest eins og ég planaði. Feðgarnir Gunni og Eiríkur fundu út að það væri litlu dýrara að fara með flugi! Þetta var svipað og mismunurinn að fara með rútu til Akureyrar eða taka flugið og þið flest þekkið muninn. Flugið tók 40 mínútur..Lestin rúma 4 klukkutíma.

Svo við fengum bara enn meiri tíma í afslöppun bæði hjá Eiríki og í flughöfnunum. Flott og svo eigum við passa í betri stofurnar sem við lærðum ekki að nota fyrr en fyrir tveim árum. Og við sátum í góðu yfirlæti á Kastrup og lásum dönsku blöðin..Fann ekkert um Íslenska skandalinn.

En nú erum við komin heim í íslenskan veruleika. Var að passa fyrir Lindu í dag og gaman að knúsa þær litlu skvísur. Og svo var allt vitlaust við Alþingishúið og ég er ekki hissa. Svo margir sem eiga um sárt að binda. Í Danmörku gengur lífið sinn vanagang nema hjá námsmönnum á námslánum sem eru helmingi minna virði en fyrir ári.

En ég er komin heim og blogga til ykkar fyrr en seinna.
Kveðjur..Ykkar Silla.


16.01.2009 06:30

Í Gammelhave.

emoticon
Hæ allir!
Nú erum við að Gammelhave 20 í Lysabild í Danmörku hjá barnabörnunum og foreldrum þeirra..Eiríki og Lilju. Erum bara í leti og sváfum frameftir...nema Eiríkur..Lysabild er rétt við Sönderborg.
Eiríkur var að koma úr síðasta prófinu á önninni og gekk alveg frábærlega. Fékk 4 tólfur og eitthvað annað sem heitir Gott. Við erum mjög glöð með það. Tólf er hæsta einkunn í háskólanum hér. Hann var hæstur ásamt tveim Dönum og það er góður árangur.. Í háskólanum hér Sönderborg eru um 30 Íslendingar 6 eru í hans deild.

Tinna hundur er orðin stór og er hvolpafull og hvort sem þið trúið því eða ekki þekktu þau okkur ferfætlingarnir hún og Brúnó. Elta mig um allt. Ótrúlegt hvað minni hunda er sterkt.

En hér er ágætt veður nokkurra stiga hiti og svipað og heima dagana eftir áramót.. Kannski ekki alveg 9 stig eins og þá. En við vonum að allir hafi það gott heima og bið að heilsa í bili.
Silla og Gunni, Eíríkur,Lilja, Þorsteinn,Helgi og Sigurbjörg í Gammelhave á Jótlandi.

11.01.2009 14:15

Vínartónleikar.


Heil og sæl.
Á þessum rúmlega sex áratugum sem ég hef lifað hef ég aldrei farið á tónleika hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. En Hulda Kristjánsdóttir vinkona mín (síðan í Reykholti 15 ára) gaf okkur þessa gjöf í tilefni af þessum háa aldri okkar. Gunni náði tölunni í september. Og ég verð að segja að við urðum alveg heilluð. Þetta voru árlegir Vínartónleikar hljómsveitarinnar. Hljómsveitastjóri var Markus Poschner og einsöngvari Dísella Lárusdóttir. Háskólabíó var troðfullt..Ekki sæti laust. Leikin voru verk eftir Johann Strauss yngri og eldri, Lehár og Leonard Bernstein.

Maður var með skilningarvitin á fullu. Yndislegt að fylgjast með hvað samspilið var frábært, söngur Dísellu yndislegur og ekki skemmdi stjórnandinn fyrir. Og þessir Vínarvalsar og hughrifin af þessum þekktu verkum alveg stórkostleg. Og ég sem hélt að svona viðburðir væru ekki fyrir mig. En gaman þegar eitthvað kemur manni svona á óvart. Við töluðum um að það væri gaman að gera þetta að árlegum viðburði. Það væri gaman að gera það að veruleika.

En við misstum af brennunni hérna í Stafneshverfinu. Það hefur oftast verið siður hjá okkur að kveikja í brennu í kring um þrettándann. Þá helst um helgi þegar fólkið úr bænum getur komið. Og það var gert í gær. Verðum vonandi heima næst.

En annars er allt í góðum gír. Horfði á sjónvarpið frameftir í gærkvöld og við vorum svona frekar sein að koma okkur á fætur. En ég held að hlýindin séu á undanhaldi. Það er að kólna á ný. Samt er enn gott veður, allavega í þessum landshluta.

En ég læt þetta duga í bili. Sæl að sinni.
Silla.

08.01.2009 17:51

Skammdegi.


Halló halló. 
Er ekki kominn tími á smáblogg? Er búin að vera í bloggleti. Eða bara LETI. Annars er allt gott að frétta og ekki hægt að kveina yfir óveðri þessa dagana. Ég var í sundi í gærkvöldi og þá var níu stiga hiti. En ég held að spáin hljóði nú upp á að kólni um helgina. Á sama tíma í fyrra var allt á kafi í snjó. Nú er grasið að grænka sem er ekki gott því það á örugglega eftir að koma kuldakast.

En ég var að taka niður jólaskrautið. Lét nú tvö ljós loga út í glugga samt. Það lýsir upp þetta mikla skammdegi. Það verður enn meira myrkur í svona bleytu-þokuveðri. Varla birtir upp. Gatnamótin og kafli við hann á nýja veginum, Ósabotnaveginum sem kom í haust eru skelfilega dimm. Það vantar stikur og vegurinn dökkur. Ég gæti trúað að þeir ætli ekki að ljúka merkingum og fleiru fyrr en í vor. En kaflann þennann ca 300 metra verður að laga fyrr. Við heimamenn erum að venjast þessu en fyrir ókunnuga er þessi afleggjari hættulegur svona.

Gunni fór í eftirlit til hjartalæknisins á mánudag. Hann er búin að vera frekar þreyttur undanfarið með ýmsa kvilla. Blóðþrýstingurinn var jú of hár og læknirinn Jón Högnason bað hann að fara varlega. Ein ástæðan er örugglega kæfisvefninn sem var uppgötgvaður fyrir ári. Þá átti hann að sofa með súrefnisvél sem bara hreint gekk ekki. En nú var hann áframsendur til lungnalæknis með þeim skilaboðum að önnur úræði væru til en þessi bannsetta vél. Þangað fer hann 22.janúar og verður fróðlegt að heyra hvað hann segir um málið.

Jæja nóg af tauti í bili. Hafið það öll sem best á þessu nýbyrjaða ári.
Ykkar Silla í Heiðarbæ.


02.01.2009 17:35

Pedró, Carlos og Carmen.


Góðan dag á nýju ári.
Ég fékk þrjú í gistingu um helgina! Það eru voffarnir hennar Svandísar. Svo hundahótelið í kjallaranum er fullnýtt. Vikký var hin glaðasta með að fá þau en Ladý Týra er í bæjarflakki. Hún er hjá frændum mínum Benna og Ölla. Annsi dugleg að væla sig inn til þeirra blessunin.

En annars er allt svona nokkuð rólegt. Ég skrapp í Keflavík til að ná mér í fisk í matinn. Ekki fær maður í soðið eins og í gamla daga þegar tengdapabbi og fleiri voru á sjó. Nú er allt háð kvóta. En í bæjarferðinni minni rakst ég á heiðurshjónin Sigurð Jóns og Ástu Arnmunds. Það var gaman að rekast á þau. Voru þau komin austan úr sveitum (Árnesi) til að kíkja á börnin sín sem búa hér suðurfrá. Í sömu verslun hitti ég Lindu mína sem var þar með yngstu ömmustelpurnar mínar þær Hrafntinnu og Júlíu Lindu.

Og þeir eru ekki að vinna um helgina Fúsagengið. Búnir að ná ákveðnum áfanga. Svo það er fínt hjá þeim að fá smá helgarfrí. Ég bókaði í dag jólagjöfina okkar! Ferðina til Eiríks, Lilju, Þorsteins, Helga og Sigurbjargar í Sönderborg. Farið verður héðan kl. átta á fimmtudagsmorgni 15.janúar og heim á mánudagskvöldi 19.janúar. Það er ágætistími því við þurfum líka að fara í lest frá Köben til þeirra og til baka. Vona að þetta gangi allt upp.

Eins og ég sagði eru komnar inn myndir frá ferðinni til Flórida í des og eitthvað meira. Kíkið endilega á þær ef þið hafið áhuga.
Bestu kveðjur úr Heiðarbæ.
Silla. 

 
  • 1
Flettingar í dag: 168
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 124
Gestir í gær: 30
Samtals flettingar: 125104
Samtals gestir: 26682
Tölur uppfærðar: 24.7.2024 23:29:25