Blog records: 2008 N/A Blog|Month_8

28.08.2008 13:24

Sandgerðisdagar



Góðan og blessaðan daginn! Nú eru að hefjast hinir árlegu Sandgerðisdagar. Þeir eru að verða sá viðburður sem stendur upp úr í bænum. Alltaf að verða betri og viðameiri. Bænum er skipt upp í gul, rauð, græn og blá hverfi. Við sunnan Sandgerðis tilheyrum því rauða og ég hef þegar sett rautt ljós í gluggann ....

Það er frábært hvað þetta nær að þjappa fólki saman og fólkið sem býr í Miðtúninu er áberandi duglegt að poppa upp stemninguna. Þau héldu pylsupartý eitt kvöldið ..svona fyrirfram.. og í gærkvöld buðu þau upp á vöfflur og súkkulaði. Mér skilst að mætingin hafi verið ótrúleg. Allt að fimm hundruð manns!!... Sumir voru komnir frá nágrannasveitarfélögunum að taka þátt í gleðinni. Já og þetta er bara rétt að byrja!!

Svo í kvöld er sauma-(bla bla)klúbbur hjá Sigrúnu í Pósthússtrætinu í Reykjanesbæ. Reyndar ekki atriði í Sandgerðisdögum !! 

Og annað kvöld ætla ég að taka mömmu með mér á setningu Sandgerðisdaganna í Safnaðarheimilinu. Þar verður ýmislegt sem gaman verður að sjá og heyra. Þá verður heiðursborgari bæjarins valinn í fyrsta sinn og upplýst hver það verður. Sandgerðislagið sem hefur verið í netkosningu verður kunngjört. Netkosningin vegur 30% og dómnefnd 70%. Svo verða fjölmörg skemmtiatriði. Veðurkortin sýna smá vætu en ef hún verður ekki lárétt þá er það í lagi!

En ég læt hér staðar numið að sinni.
Hafið það sem best.
Silla.

24.08.2008 21:47

Eins og hellt úr fötu.


Jæja þar kom að því! 
Nú rignir eins og hellt sé úr fötu. Og Bjössi valdi rétta tímann til að fara norður því þar er örugglega blíðan. Þannig er það á okkar ástkæra landi að ef við erum í sunnanáttum og rigningu þá er oftast sól og blíða norðan heiða.

En annars er allt gott að frétta. Mikil vinna hjá vinnudýrunum hjá Fúsa ehf. Ég hef ekkert verið þar til aðstoðar en Erla Jóna er krafturinn í aðalstöðvunum á Strandgötunni. Hún sér um launaútreikninga og er endalaust dugleg að hafa allt í röð og reglu..

Og silfur-STRÁKARNIR okkar eru auðvitað í huganum núna. Frábærir þó auðvitað sæist tár á kvarmi við að ná ekki gullinu. En þeir eru sannarlega sigurvegarar þessir strákar. Ég hef alltaf haft gaman að handbolta en hef aldrei séð svona marga jafnfæra og núna. Þvílík liðsheild! Til hamingju Íslendingar ..

Hundalífið er í algleymingi. Ég er að passa hunda Svandísar. Hún kemur á morgun. En þeir hafa verið mjög góðir og ég er farin að heypa þeim út nokkrum sinnum á dag. Og þeir svara alltaf þegar ég kalla svo þeir greinilega eru farnir að finna sig hér í Heiðarbænum. En að öllu jöfnu er nóg að hafa Týru og dótturina Vikký!


En nú er að koma háttatími hjá okkur gamla settinu svo ég kveð ykkur og segi góða nótt.
Ykkar Silla.

22.08.2008 15:39

David farinn heim á leið.

Jæja þá er vinur okkar farinn heim til Atlanta. Reyndar flýgur hann til Minneapolis og verður að gista þar í nótt og svo heim í fyrramálið. Við vorum að koma frá því að keyra hann upp í Flugstöð. Í gærkvöld héldum við smá kveðjupartý fyrir hann og við vorum hér þrettán samankomin í mat og alles. Maddý Gísli Stefanía Ölli Benni Hemmi Guðrún Jóhanna Garðar og Vilmundur. Bjössi er á Norðurlandinu núna í heimsókn hjá vinum og vandamönnum.

En áður en við fórum áðan vorum við að horfa á handboltastrákana okkar. Þvílíkir strákar! Að vinna með sex marka mun!!! Svo þá eru þeir annað hvort komnir með gull eða silfur..Váá. Flottir.

En í gær hringdi bæklunarlæknirinn minn með niðurstöðurnar úr segulómmyndatökunni. Og þær niðurstöður voru þær að ég þyrfti að fara í aðgerð á hnénu. Allt í klessu þar. Enda er ég sko búin að finna verulega fyrir því í sumar og það hefur farið versnandi.

Ég hef samt verið að hjóla og það gerir örugglega gott en ef ég þarf að stoppa hjólið og stíga af því verð ég að passa að stíga í vinstri fót annars dett ég bara!!! Það gerðist nú síðast þegar ég var að kíkja eftir kálfunum hjá Bjössa í júlí. Tók skarpa beygju til hægri og búmm á malbikið kylliflöt. Krakkarnir voru hjá mér og þeim brá meira en mér þessum elskum og komu hlaupandi. En þann15.september á ég að fara í þessa aðgerð..

Ætli ég láti þetta ekki duga í dag. Eigið góða helgi gæskurnar.
Silla...

19.08.2008 10:57

Gestkvæmt.

Góðan dag. 
Það hefur verið gestkvæmt undanfarið. Í fyrradag komu Jóna Bergþóra og Laufey Björg með börnin auk mömmu. Svo á nokkrum dögum hafa fjórar af fimm dætrum Dúnu kíkt í Heiðarbæinn. Í gærkvöld komu svo Sigfús, Erla Jóna og Ágúst í kvöldmat. 

Það var svo stillt veður að ég prufaði að hjóla eftir kvöldmatinn að Gálgum sem er við nýja Ósabotnaveginn. Það gekk vel en auðvitað er þægilegra að hjóla á malbiki en svona malarvegi. Og ekkert bólar á olíumölinni á þessum vegi.

Reynir og Día komu hér eitt kvöldið. Svo alltaf fjölgar þeim sem vita hvar Heiðarbærinn er..

Og ég er búin að fá lánað hús hjá Verkalýðsfélaginu mínu. Það er á Akureyri. Svo þá verður rólegheit þegar sumir komast á sjötugsaldurinn. Og mig hlakkar til að heimsækja frændfólkið fyrir norðan ekki síst þau nýfæddu

En nú er ég að fara að tygja mig í æfingar. Í gærmorgun fór ég í segulómskoðun í Rvík sem ég veit ekki hvort nokkuð kemur út úr. Ég heyri í lækninum á fimmtudag um það.

En ég læt þetta duga í bili..Stutt og laggott ekki satt.
Kveðja til ykkar allra.
Silla

15.08.2008 11:01

Ný myndaalbúm!


 Hæ öll.
Ég ætla að setja inn nokkur orð.
Það er komið eitthvað af nýjum myndum inn í myndaalbúmin og fleiri á leiðinni. Konný er að setja inn fyrir mig og Linda tók nokkrar myndir í byrjun ágúst af umhverfinu hérna. Nú erum við nýbúin að slá og grasið orðið eins og flauelsteppi! 

En annars er lítið að frétta. Allt gengur sinn vanagang og mikil vinna hjá genginu í Búrfelli. David fer heim eftir viku en hann hefur verið að vinna með Gunna. Held að það verði fagnaðarfundir í Atlanta þegar hann kemur út til Stacey sinnar. ..Jú annars ein stór og góð frétt! Barnabarn númer þrettán á leiðinni..Konný að koma með sitt þriðja.

Ég hef verið í æfingum í Átak (sjúkraþjálfun) í Keflavík undanfarið. Tók mér smáfrí yfir sumartímann. En Gunnar Brynjólfur Gunnars bæklunarlæknir vill endilega að ég haldi mér við Átaksfólkið allavega næstu mánuðina. Eins og hjá svo mörgum sem lenda í einhverskonar slysum þá eru eftirköstin oft fyrir hendi. Það virðist vera í mínu tilfelli . Svo er ég þó nokkuð dugleg að hjóla og ekki hefur veðrið verið til trafala undanfarið. Svo frábært flesta daga.

En ég læt þetta nægja að sinni. Kíkið endilega í albúmin.
Kveðja úr Heiðarbænum.
Silla.

12.08.2008 17:38

Norðanfólk í heimsókn.



Halló halló..


Ég ætla svona rétt að kíkja á bloggið og láta vita af mér. Það er sama blíðan. Og þannig er það bara í svona veðri að allt verður svo miklu skemmtilegra. Og sumarið er langt komið og hefur verið bara ljúft. Að vísu hefur kellan ekki farið miklið að heiman en þeim mun fleiri hafa verið hér hjá mér í Heiðarbænum...

Og í dag fékk ég fullt af góðum gestum. Norðanfólkið mitt eins og ég segi gjarnan um skyldmennin sem búa á norðurlandinu. Sigga Magga elsta dóttir Dúnu systir með alla fjölskylduna sem er auðvitað Styp hinn Hollenski og börnin fjögur. Þau voru nýkomin úr ferð til Danmerkur og Hollands. Þar (í Dk) voru þau að halda upp á tíu ára útskriftarafmæli úr kennaraháskóla (sem þau kynntust í)..



Og með henni var Solla systir hennar með Arndísi Dúnu og Lárus son Laufeyjar .. Auðvitað á öðrum bíl ..annars hefði þurft rútu ..Mamma var með þeim og svo var Linda stödd hér með dætur sínar og hundinn Flugu. Og svo býr Solla í höfuðborginni þó ég vilji helst setja samasemmerki við börn systra minna fjögurra sem allar fluttu til norðurlands og búa þar flest. Svo kom Elín líka og Bjössi kíkti á þær áður en hann fór í árlegann veiðitúr þeirra vinnufélaga í Nesfisk upp við Djúpavatn.


En þegar Sigga ætlaði að leggja af stað var bíllinn rafmagnslaus svo nærtækasta og besta ráðið var að fá Ölla frænda með startkaplana. Og auðvitað var gaman fyrir þau að hittast. En rúsínan í pylsuendanum (heimsókninni) hjá krökkunum var að fara í berjamó! Og þau þurftu ekki að fara langt því berin eru í meters fjarlægð frá húsinu! Og þvílíkt hvað það var gaman hjá þeim. Linda tók nokkrar myndir og ég ætla að biðja
hana að senda mér þær ..



Svo í dag voru hér í blíðunni á annann tug gesta.. En Gunni og David og allir í Fúsa ehf eru á fullu að vinna. Ég á ekki von á að þeir komi fyrr enn seint í kvöld eins og vanalega. En þetta er veðrið sem þarf að vera í þeirra atvinnu! En ég vona að mér takist að fá hann til að taka smáfrí í byrjun september!

En nóg að sinni.
Kveðja úr Heiðarbæ.
Silla.   

06.08.2008 10:05

Afmælisbörn.

Góðan daginn.

Þau eru nokkur barnabörnin mín sem eiga afmæli í ágúst. Þar ber fyrst að nefna Ástrós Önnu Vilhjálmsdóttur sem er fædd 3. ágúst, bróðir hennar Vilmund Árna Vilhjálmsson sem á daginn í dag 6. ágúst. Ágúst Þór Sigfússon er fæddur 10. ágúst og Sigurbjörg Eiríksdóttir nafna mín á afmæli 17. ágúst. Svo þriðjungur þeirra tólf barnabarna sem ég á eru fædd í mánuðinum. Og svo er september stór mánuður hjá fjölskyldunni!!

Þetta eru því tilhlökkunardagar hjá mörgum af þeim yngri. Og eflaust er það alveg fram til tvítugs sem við bíðum eftir að eldast en svo held ég að hægi nú á þeim væntingum..En ég ætla á eftir að skreppa til höfuðborgarinnar. Þar verður jarðsungin gömul vinkona, Ragnhildur Kristín Sandholt og ég ætla að fylgja henni síðasta spölinn.

Það er enn sama blíðan hér um slóðir þó eitthvað hafi hitinn lækkað. Enda var hann óvenju hár um daginn. Fór upp í 23 stig í forsælu hér. Í dag er hann 14. stig og það er svona meira það sem við þekkjum.

En ég ætla ekki að hafa þetta lengra..Aðeins að láta vita af mér.
Kveðjur til ykkar úr Heiðarbænum.
Silla.

02.08.2008 21:51

Ferðahelgin mikla.


Góða kvöldið...

Jæja nú í blíðunni er hið besta ferðaveður.. 
Enda hin sívinsæla verslunarmannahelgi!
Og hún skipti máli í den en er bara löng fríhelgi hjá okkur gamla settinu núna.... Samt fórum við á rúntinn í dag og heimsóttum Sigfús, Erlu Jónu og Ágúst sem eru í hjólhúsinu sínu að Hellishólum í Fljótshlíð. Ég vona að Sigfús nái að hvíla sig því vinnuharkan hefur verið mikil hjá þeim í Búrfelli undanfarið.

Upphafleg áætlun fyrir þessa helgi var að kíkja á málverkasýningu á Minni Borg í Grímsnesi sem Ragga, gömul vinkona mín hafði boðið okkur á. Sú sýning átti að standa frá 12.júlí til 3.ágúst. Svo eina helgin sem ég vissi að við Gunni værum laus var þessi. En áfallið var mikið þegar ég frétti að Ragnhildur Kristín Sandholt væri dáin.

Svona er lífið stundum. Ég hefði bara átt að fara ein við opnunina..... Og hún Ragnhildur mín verður jarðsett á miðvikudaginn næsta. Ég heimsótti hana síðast 2006 ásamt Maddý og þá hafði hún gengið í gegn um fyrstu þrekraunir krabbameinsins. En helstu samskipti okkar Röggu hin síðari ár hafa verið jólakortin sem hafa oftast verið sem löng sendibréf.

Eins og ég hef áður sagt verða vinkonur ávallt vinkonur. Alveg sama þótt líði langur tími milli samfunda. Þannig var það með okkur Röggu. Vissum alltaf hvor af annarri. Héldum þræðinum þótt oft væri hann svolítið smágerður. En hann slitnaði aldrei.

En reynum að snúa okkur að öðru. Ég hef fengið snúrustaura í Heiðarbæ. Gunni og David settu þá upp fyrir mig í gær. Og ég er svo gamaldags að mér finnst það heimilislegt að geta hengt út þvottinn minn...Er þegar búin að þurrka þvott af rúminu okkar!

En kæru vinir ..hafið það sem best í góðviðrinu.
Ykkar Silla.
  • 1
Today's page views: 508
Today's unique visitors: 211
Yesterday's page views: 58
Yesterday's unique visitors: 29
Total page views: 107146
Total unique visitors: 22992
Updated numbers: 16.5.2024 19:33:13