Blog records: 2008 N/A Blog|Month_6

30.06.2008 21:44

Að detta!!!


Halló vinir!


Ég er alltaf svo ágætlega heppin.. Ég er að passa hunda Svandísar vinkonu eins og ég sagði ykkur. En ekki hvað? Ég var að setja þau minnstu inn eftir að hafa viðrað þau og það er grind hjá þeim í kjallaranum..svona hundagrind! Ég ætlaði samkvæmt venju að klifra yfir hana en datt svona þvílíkt kylliflöt! ..Og ææ..beint á hnén í steypt gólfið og ég sem er að drepast í öðru hnénu!

En að öðru skemmtilegra.. Ég heyrði í Júlíu Lindu Ómarsdóttur vinkonu minni í gærkvöldi. Ég var að segja henni að hún hefði eignast nöfnu. Og ég held að hún hafi verið barasta mjög ánægð með það. Hún var og er ein af mínum bestu vinkonum. Við vorum saman í því að ala upp dætur okkar og hjálpuðum hvor annari í byrjun níunda áratugs síðustu aldar! (Eftir 80) Vá erum við svona gamlar? Nei nei ekki hún allavega sem er 13 árum yngri en ég.

En talandi um vináttu..Ef einu sinni vinir..þá alltaf vinir. Og eins og með Mumma í Seeattle.. Hann var vinur minn í barnaskóla og er það síðan. Ég var reyndar skotin í honum í den. Ekki segja!

En ég ætla að æfa núna hnén og reyna allt sem ég get til að liðka þau..Já þetta er smá vorkunnsemi .......En ég næ þessu!
Silla í Heiðarbæ.

28.06.2008 18:46

Er von á regni?


Sæl  öll sömul. Það hefur ekki verið bloggveður undanfarið. Það hefur verið sól stanslaust í þrjár vikur eða síðan við settum torfið á blettinn. En það gæti verið að breytast eitthvað. Spáin hljóðar upp á smávegis rigningu á morgun. En það hvessti allverulega í dag og er hávaðarok núna.

Hulda vinkona mín og skólasystir síðan í Reykholti kom í gær í heimsókn og ég fór með hana í bæinn í dag. Þar hefur hún búið eftir nám en er frá Bakkafirði. Árni Snær sonur Maddý og Gísla fékk far með okkur. Hann var að fara í vinnu og er nýkomin frá Flórida þar sem hann var í húsinu sem foreldrar hans eiga í Jackssonville. 

Við Hulda höfum alltaf haldið góðu sambandi í þessi 45 ár sem liðin eru síðan við vorum saman í herbergi í Reykholti. Ég í landsprófi og hún tók gagnfræðaprófið. Hvortveggja eru nú börn síns tíma (þau námsform)..En Hulda hefur alla tíð unnið í Búnaðarbankanum nú Kaupþingi. Stundum líða nokkur ár á milli þess að við hittumst  en þeim mun styttra á milli þess að við heyrumst.

En ég er enn að passa Svandísarvoffa. Þau hjónakornin framlengdu fríinu til mánudags eða um fjóra daga. Fínt hjá þeim. Það gengur bara vel með ferfætlingana og þeir eru orðnir næstum eins og heima hjá  sér. Ég hef orðið góð tök á uppeldinu. Tek Týru afsíðis þegar þau eru úti. Þá gegna þau mér en þegar Týra er með tekur hún strauið á hina bæina. Ég er nú ekki alltof hrifin af því að hinir elti.

En ekki fleira í bili. Læt heyra í mér ef að fer að rigna. Eigið góða helgi gæskurnar.
Kveðja Silla.

20.06.2008 20:18

Blíðan og sumarsólstöður.


Gott kvöld... Eða ætli það sé nokkuð komið kvöld. Það er allavega svo bjart og ekki eins og sé að koma nótt. Enda lengstur sólargangur framundan. Á miðnætti held ég að sé tíminn. Og dagurinn í dag var hlýr og varla að maður kvarti yfir því.

Ástrós og Garðar Ingi voru hér í dag og vinur Garðars. Ég var að skutla þeim í bíó strákunum og mamma Davíðs vinar hans sækir þá á eftir. En ég hef verið ein með blessuðum hundunum að öðru leiti. Og búin að vera að bleyta í blettinum. Í gær fór ég með mömmu í flug. Hún var að fljúga til Akureyrar. Hún er í sinni árlegu sumarferð til sinna norðlensku dætra og afkomendanna allra. Gaman að því hvað hún er hress og nýtur þess að fara norður.

Gunni er að koma úr sinni annarri ferð í dag upp í Búrfellsvirkjun. Hann þurfti að fara með varahluti og ég á ekki von á honum fyrr enn klukkan tíu. Þá ætla ég að grilla handa þreyttum bóndanum.. Sko ég kann alveg að grilla en mér hefur fundist ágætt að segja að hann kunni það svo miklu ,miklu betur!

En veðrið er þannig að ég ætla út aftur og ekki eyða of miklum tíma í blogg. Það koma örugglega bloggdagar seinna ef maður þekkir veðráttuna rétt hér á landi.

Kveðjur til ykkar allra úr Heiðarbæ.
Silla. 

17.06.2008 12:58

17.júní!


 Hæ hó jibbý jei og jibbý jei, það er kominn Sautjándi júní. Og merkilega gott veður. Sól og blíða en dálítill vindur. Í fyrra var ég fengin á síðustu stundu til að halda þjóðhátíðarræðuna. En nú er allt vel undirbúið og ég vona að Sandgerðingar fjölmenni á hátíðahöldin. Það var sett sérstök sautjánda júní nefnd eins og þarf raunar að vera ef vel á að takast til. Ég var í slíkri nefnd í hittifyrra og Erla Jóna tengdadóttir er í henni núna og nóg að snúast hjá henni.

En ég held að ég hafi varla sleppt því að fara á hátíðahöldin síðan 1994 en þá var ég nýkosin í bæjarstjórn og hélt mína fyrstu ræðu..skjálfandi á beinum. En það tókst bara vel. Og auðvitað vorum við fjölskyldan vön að fara á hátíðahöld dagsins frá því við fluttum til Sandgerðis. Ég á myndir af fjölskyldumeðlimum sem ekki voru háir í loftinu 1974 og þá voru hátíðahöldin alltaf haldin á Bjarmalandstúninu.

En seinna voru þau oftast við skólann og íþróttahúsið. En núna verða þau við Vörðuna nýja stjórnsýsluhús bæjarins. Þar er orðin mjög góð aðstaða bæði úti og inni. Málverkasýning er inni í kaffisalnum og þar á mamma myndir ásamt Bjössa sem einnig býr í Miðhúsum. En sýningin mun standa í nokkra daga.

Ég veit ekki hvort ég nenni núna sjálf. Gunni og Fúsi eru í Örfirisey að ganga frá eftir blástur og málningu. Svo ég er ein heima ásamt fimm hundum sem þurfa smá athygli. Svandísar voffar eru í pössun! En ég ætla að sjá til hvort ég skelli mér ...

En stóra fréttin er skírn Júlíu Lindu Jónsdóttur sem fór fram á laugardaginn síðasta. Hún var auðvitað eins og engill og Gunni hélt henni undir skírn. Stoltur!  Mér finnst nafnið flott og gaman að því að hún ber sama nafn og vinkona mín. Sú er reyndar Ómarsdóttir. Og hún var í ljósmæðranámi þegar Linda fæddist og kom í rútu úr bænum til að taka á móti henni eða þannig.. Æfing...undir handleiðslu Sólveigar sem var jú ljósan. En síðan eru liðin rúm 25 ár. Fljótur að líða þessi tími!


Læt þetta duga að sinni. Ég er ekki of dugleg að blogga svona í sumrinu. Mikið útivið með græna fingur. Líði ykkur öllum sem best.
Silla í Heiðarbæ.

12.06.2008 20:12

Búrfell.


 
Góða kvöldið. Ég var að koma frá Búrfelli. Fór á Gunna bíl og hann á vörubílnum. Hann var með verkfæri, sand og fleira handa strákunum. Við lögðum af stað héðan fyrir hádegi og svo þurfti að ná í hitt og þetta. Sigfús og Árni eru byrjaðir upp frá og þurfa að nota lyftuna á vörubílnum. Ég var nú búin að hugsa mér að koma við í Árnesi en það verður að vera bara í næstu ferð. Það er nú hálflýjandi að keyra svona í lotu báðar leiðir. En það er þó malbik alla leið. Veðrið frábært og of gott til að sitja og keyra.

En svo er allt orðið svo þurrt að ég reyni að vökva nýja blettinn annað slagið. Það mætti alveg koma demba núna. En þetta er bara eins og fínasta græn kápa. Og það með kraga. Hringurinn sem ég gerði kemur út eins og kragi! 

Sigrún vinkona kom í fyrradag. Ég held að hún hafi verið búin að gera þrjár tilraunir til að kíkja á mig í Heiðarbæ síðan ég flutti. En það tókst að samræma okkur loksins ... Held að hún hafi bara verið farin að halda að ég vildi ekki fá hana í heimsókn.. Maddý kom með plöntur og setti í sárið við blettinn. Svo þegar þetta grær allt upp þá verður það orðið eins og við hefðum ekki hróflað við neinu. Eins og mikið umrót varð við byggingaframkvæmdirnar.

En svo eru komnir þrír hundar í pössun hjá mér. Svandís fór út í dag og þeir komu í gær. Þeir eru að sætta sig við breytinguna greyin og eru niðri í kjallara yfir nóttina eins og hinar. Nóg að gera. Ég læt þá í grind úti. Er svo hrædd um að þeir strjúki. Og af því ég var svo lengi að heiman í dag fékk ég Jóhönnu til að kíkja á þá. Hún átti frí aldrei þessu vant! Hún vinnur mikið.

En ætli ég hætti ekki þessu blaðri í bili.
Bestu kveðjur.
Silla.



08.06.2008 19:54

Grasið grænt!

 
Sæl..

Já grasið er grænt og grænna hjá mér en hinum megin við veginn! Bara grín... Það er nú grænna hjá Bjössa held ég. En það sem ég ætlaði að segja ykkur er að við settið vorum að tyrfa hjá okkur. Og við höfum eitt síðustu tveim dögum í djobbið og erum alsæl. Byrjuðum þegar torfið kom klukkan tíu í gærmorgun og vorum að til fimm. Og svo vaknaði maður með græn augu í morgun klukkan níu og ÚT..Búin klukkan fjögur!

Í upphafi þegar við horfðum yfir blettinn sem átti eftir að fá gras vorum við sammála um að þetta væru svona 100-200 fermetrar. Svo fór Gunni að mæla og útkoman var 400 fermetrar. Æ æ nóg að gera og svo var spurningin hvort við ættum að sá eða tyrfa. En í jarðveginum var smágrjót sem ekki hefði passað við sáningu svo útkoman var að tyrfa.

En nú er þetta komið og bökin eru lúin. En það jafnar sig og bara fínt að geta gert þetta sjálf án aðstoðar og fengið útivistina í æð um leið. Í gær var reyndar hellirigning og fötin fóru beint í þvottavélina. En dagurinn í dag var flottur, sól og blíða.

Á föstudagskvöldið komu vinir okkar Sólrún og Óskar í heimsókn. Alltaf gaman að fá þau. Á föstudaginn fórum við Gunni í Helguvík og vorum viðstödd skóflustungur að nýju álveri. Þar var margt um manninn og við fórum í Duushús og ætluðum að hlusta á ræðu Kristjáns Gunnarssonar en gáfumst upp vegna fjölmennis og hita. En ég fæ örugglega að lesa hana seinna!

En ég var þarna sem stjórnarmaður í VFSK. Og við erum sammála þar um ágæti þess að álver verði byggt í Helguvík. Ef einhverjir finna að skórinn kreppir að eru það verkalýðsfélögin. Og það finnst í dag..Það er pottþétt. Ég vona að umhverfissinnar séu sáttir því mengun verður innan ítrustu marka.

En að sinni ..Góðar stundir.......
Silla.
 

06.06.2008 11:45

Misjafnt.


Sæl öll. Eins og ég sagði síðast er ég hálflöt í blogginu um þessar mundir. Ekki að veðrið sé yfirþyrmandi gott...Nei sjaldan sólgleraugu þessa dagana. En það er gróðraveður eins og ég heyrði oft sagt í gamla daga svo það er bara að vona að sólskinið komi síðar. Eigum við ekki að segja að í júlí verði sumarið!

Ég þeyttist í Reykjavík kl. 8 í morgun til að sækja Gunna sem fór með bílinn sinn í venjubundna skoðun. Hann fór kl. 7 af stað og ég beið heima og sagði að ég tryði ekki að þeir lánuðu honum ekki bíl á meðan á þessu stæði. En ..nei takk það er ekki sama hvar maður kaupir bílana sína..greinilega! Það er ekki hægt að bera saman þjónustuna hjá mínu umboði sem er Bílabúð Benna og þessu sem er Ingvar Helgason.

Ekki nóg með það. Hann var án bílsins í þrjá mánuði í fyrra vegna galla. (Reyndar fékk hann annann á meðan það var) Þeir hefðu átt að kanna öll þau óþægindi og koma til móts við hann núna..En það var nú aldeilis ekki. Þetta er eitthvað annað en um daginn þegar ég þurfti að láta laga bílinn minn vegna þess að Gunni keyrði á steininn. Þar var lipurðin og þjónustulundin í fyrirrúmi hjá Bílabúð Benna. Og samt var þetta okkar sök.

Svo nú er Gunni á Captívunni minni í vinnunni. Tveir starfsmenn Fúsa eru í Örfirisey og tveir uppi í Búrfelli að koma sér fyrir. Þar er að hefjast um það bil þriggja mánaða vinna. Svo reddarinn Gunni er á þeytingi í hinu og þessu.

En í fyrradag fór ég í bæjarferð með Lindu og litlu dúllu sem var að fara sína fyrstu búðarferð. Reyndar sat amman með þá stuttu úti í bíl á bílastæðinu í Smáralind meðan mamman verslaði...Og í gær var elsta barnabarnið að útskrifast úr Grunnskólanum í Sandgerði. Það var Gunnar Borgþór yngri. Flott skólaslit í Safnaðarheimilinu og foreldrarnir buðu upp á kaffi og kökur. Friðrik Gunnar sonur Sirrý var líka að ljúka skólanum og það var mjög gaman að vera viðstödd. Þau voru 37 sem útskrifuðust og hafa aldrei verið fleiri í bekk. Það voru þessir krakkar sem ég var að sitja yfir í samræmdu prófunum. Öll alveg frábær..

En ég læt staðar numið í bili og hafið það sem best.
Silla í Heiðarbæ.

02.06.2008 21:43

Bloggleti!

 
 Gott kvöld gæskurnar.

Stundum, ekki oft, kemur fyrir að ég kíki ekki á netheima. Ég er nefnilega býsna háð þeim nú orðið. Ég byrja morguninn á því að hella á könnuna og kíkja í moggann. Sko einu sinni hafði ég blaðið við hendina en nú er það í tölvunni minni. Því þegar maður er orðin dreifbýliskella þá er ekkert blað eldsnemma í lúgunni. Tvo aðra netmiðla kíki ég alltaf á. Það eru Lífið í Sandgerði og Víkurfréttir.

Reyndar fyrir nokkrum árum í fjögur ár var ég umboðsmaður moggans og sá hann klukkan fimm að morgni. Já og mér gengur illa að ná umboðsmannsnafninu úr símaskránni og í síðustu skrá er þessi blessði umboðsmaður búsettur hér í Heiðarbæ!! Hún er nú bara svona skriffinnskan. En það venst ágætlega að setjast við skjáinn og skoða. Og þá er heldur ekki eins mikið af pappír sem þarf að henda. Alltaf gott að sjá jákvæðu hliðar lífsins... Er það ekki?

Reyndar er notalegt að setjast inn í stofu með kaffibollann og horfa út og yfir og spá í hvort einhverjir bátar séu í fiskeríi. Eða lambið hans Bjössa og kálfarnir að bíta gras og ærslast. Svo hlaupa hundarnir yfir til þeirra og hvað veit ég hvað þau eru að ræða sín á milli..(Ha ha ég er ekkert orðin elliær..bara í þykjustunni). Já og svo eru tvö yndisleg nýfædd folöld hér í nágrenninu. Þau eru í Bala.

Undanfarið hef ég ekki verið í eldabuskumálum í Sandgerði. Þeir hafa verið mest í burtu strákarnir í Fúsa. En alltaf getur maður haft nóg að gera samt. 14.júní á að skíra litlu skvísuna þeirra Lindu og Jóns. Ég fer nú að verða forvitin um hvaða nafn snótin fær. Í dag á Eiríkur 38 ára afmæli og í desember verður Sigfús 40 ára...Segir einhverja sögu um aldur foreldranna..hm.

Svandís kom í dag með hundana sína í heimsókn. Venja þá við. Ég ætla að passa þá fyrir hana meðan hún skreppur til útlanda í sólina. Þá verður örugglega mikið hundalíf í Heiðarbæ!! Þá breytist kjallarinn í flottasta hundahótel..

En að lokum ..Sofið rótt og hafið það sem best.

Ykkar Silla.


  • 1
Today's page views: 508
Today's unique visitors: 211
Yesterday's page views: 58
Yesterday's unique visitors: 29
Total page views: 107146
Total unique visitors: 22992
Updated numbers: 16.5.2024 19:33:13