31.03.2007 09:53

Laugardagur.


Jæja nú er laugardagur og ég er að fara á eftir inn í Sandgerði í Fúsa ehf. Það þarf að gefa vinnudýrunum að borða eitthvað. Þetta er nú fullmikið af vinnu ekki síst fyrir þá sem nálgast sextugt, ha. En svona er þetta nú bara nú um stundir.
Vona bara að það fari að koma tími í Heiðarbæinn. Súld úti núna en ég held að það sé vor í lofti.  Nú nálgast ferming Ástrósar hratt og þar verð ég með puttana í matseldinni..Jæja það gengur vonandi vel. Á morgun fermist Þórunn Anna yngsta barn Bjössa bróður. Hún er reyndar eins og ári á undan sér fædd í lok desember 93 og þá fyrir tímann.  En hún hefur nú aldeilis spjarað sig og er mjög fín stelpa.

Já það er gaman að sjá póst frá David í gestabókinni og svo kom póstur frá Sigurði Jóns frá Tenerife. Gaman! Sýnir okkur líka hvað heimurinn er orðinn smærri þannig.  Fólk í öðrum heimshlutum eins og Mummi í Seattle hafa færst nær einhvernvegin. Næsti stóratburður hjá okkur eftir fermingu Ástrósar verður svo 26.maí þegar David og Stacey gifta sig í Hvalsneskirkju. Og síðan ætla Linda og Jón að gifta sig 8. september.  Daginn eftir eigum við gömlu 40ára brúðkaupsafmæli. Það verður nóg að gera hjá Gunna að leiða brúðir inn kirkjugólfið í sumar. Hann leiðir Stacey líka..

Nú er fjör í firðinum.. Hafnarfirði. Í dag kjósa þeir um stækkun Álversins í Straumsvík með eða á móti. Það sagði einn að það ríkti borgarastyrjöld þar með erlendri íhlutun! Jæja vonandi verða dýrin í skóginum vinir á eftir hvernig sem fer.
Það verður gaman að fylgjast með í kvöld.  Þetta er ekki algengt að fólk fái yfirhöfuð að kjósa svona.  Það vakna upp ýmsar spurningar. Skilar fólk sér á kjörstað eða verður lítil þátttaka og þá lítið að marka niðurstöður.

Jæja læt þetta duga í bili. Góða helgi.
Flettingar í dag: 681
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 885
Gestir í gær: 37
Samtals flettingar: 194339
Samtals gestir: 37296
Tölur uppfærðar: 9.4.2025 06:53:20