Færslur: 2009 Júlí

25.07.2009 20:34

Ættarmótið!


Sæl öll.
Ég ætlaði svo sannarlega ekki að sleppa því að segja ykkur frá mótinu okkar um síðustu helgi. Það var ættarmót með frjálslegu sniði. Og yndislegt var það. Og veðrið lék við okkur.

Þannig var að í vetur komum við saman með hluta af börnum og tengdabörnum og vorum ákveðin í að hittast í útilegu eða tjaldsamkomu á sumri komenda. Stefnan var sett á Hellishóla í Fljótshlíð þar sem Sigfús og Erla Jóna hafa verið með hjólhýsið sitt undanfarið. Ég sendi póst á Hellishólana og fékk það svar að aðeins væri eitt lítið hús 16 fm til leigu. Ég vildi fá stærra hús þar sem margir voru tjald og húslausir. En ekki fékkst það..Leið nú tíminn og að lokum kom frábær lausn hjá stelpunum um að koma saman hjá okkur gamla settinu í Heiðarbæ. Eða í Nýlendu þar sem nóg tjaldsvæði voru fyrir hendi.

Það varð ofaná og það sem meira gerðist var að það kom fram mikill vilji til að endurreisa FKF eða félag kátra frændsystkyna í tengslum við þetta mót. Svör komu frá mörgum okkar kátu en svo var ákveðið að þetta mót okkar væri eitt allsherjar fjölskyldu-frænku og frændamót fyrir báðar ættir okkar Gunna.

Það varð niðurstaðan og fjölskyldumót Heiðarbæjarfjölskyldunnar var haldið með miklum ágætum. Hannes smíðaði fótboltamörk og mikið var um að vera. Unga fólkið fór með börnin í Melabergsfjöruna sem er hvítur og flottur sandur. Þar voru gerðir kastalar eins og gerast bestir í sandfjörum Spánar. Boggi frændi Gunna, Marta dóttir hans og Gunni Þór komu frá FKF sérstaklega. Og frænkur mínar Helga, Sibba og Kolla komu frá mínum ættboga. Elín hans Bjössa, Ása Ingibjörg og þeirra fólk komu og kíktu bæði föstu og laugardagskvöld. Maddý og Gísli og börn voru auðvitað sjálfboðin enda frænd og vinafólk og hverfisbúendur:) Bjössi sjálfur var auðvitað með í hópnum :)

Það er bara að segja frá þessum mannfagnaði að hann fór mjög vel fram og var í alla staði vel heppnaður. Það var mikið sungið, sagðir brandarar og hlegið. Og við flögguðum fána FKF og allir voru ákveðnir í að hittast að sama tíma að ári.

Það geri ég að mínum orðum og hvet allt frændfólk til að skoða hvað hverfið okkar hefur mikið upp á að bjóða. Við þurfum alls ekki að leita langt yfir skammt.

Góðar stundir.

22.07.2009 21:03

Landsveitin.


Sæl mínir kæru vinir nær og fjær.
Ég hef verið skelfilega löt við bloggið undanfarið. Enda sumarið yndislegt og nóg annað að gera. Reyndar hef ég verið svolítið inni á facebook og það kannski tekið eitthvað frá þessu aðalbloggi mínu.

En mig langar til að segja ykkur góða ferðasögu :)
Við fórum í ferðalag í dag. Ég, mamma og Maddý mín besta vinkona og frænka. Við fórum með mömmu í sveitina hennar Landsveit. Það fór ekki á milli mála að mamma hafði gaman af ferðinni en ég held ég segi ekki ósatt að við frænkurnar nutum hennar út í æsar.

Við lögðum af stað héðan úr Stafneshverfi klukkan tíu í morgun. Sóttum mömmu og tókum olíu á bílinn og vorum svo klárar í slaginn kellurnar þrjár.

Við byrjuðum á því að fá okkur bita á Selfossi í hádeginu. Næsta stopp var í afleggjaranum að Hjallanesi í Landsveit þar sem Sigga vinkona mömmu er alin upp og útsýnið var flott.  Við fórum að Heysholti og þar er bæjum vel við haldið. Þar voru mamma og pabbi vön að koma í heimsókn.

Síðan komum að æskuslóðum mömmu að Minni-Völlum. Þar kíktum við á gömlu þústirnar. Nýr bær er þar á jörðinni mömmu til mikillar gleði. Og unga húsmóðirin Dóra (Dórothea) bauð okkur inn í kaffi og góðgæti að ekta íslenskum sið. Hún var að útskrifast úr kennaraskólanum og er að fara að kenna á Hellu næsta vetur. Yndisleg framkoma við bláókunnar manneskjur og henni til sóma. Hún býr þar ásamt manni og þrem börnum.

Þaðan var haldið að Hvammi. Þar bjuggu ömmusystur mínar Sigurbjörg og Steinunn í mörg ár. Þær voru giftar bræðrunum Ásgeiri og Guðmundi. Þær bjuggu í Norðurbænum sem er horfinn en Frambærinn stendur. Í Hvammi var mamma líka á sumrin eftir að hún flutti til Reykjavíkur vegna veikinda afa sem fékk berkla þegar mamma var fimmtán ára. Þarna hittum við barnabarn Óskars sem mamma hafði þekkt.

Næst var það Skarð hið forna höfuðból í Landssveit. Við fórum að kirkjunni og inn í hana skoðuðum leiði okkar ástkæru vina og tókum myndir!  Þar hittum við Jónu sem mamma kannaðist við og var barnabarn Jóns á Minni-Völlum. Manns sem mömmu þótti vænt um alla tíð. Hann var þar þegar hún kom þangað fjögurra ára. Í Skarði hittum við líka Dóru eldri ömmu Dóru á Minnivöllum og ekkju Guðna í Skarði. Bara gaman! Reynar hafði ég hitt hana við jarðarför Gauju vinkonu mömmu í vor.

Svo lá leiðin að Leirubakka þar sem mamma bauð upp á kaffi og ís. Flott hvernig búið er að byggja upp Heklusetur. Útlendingarnir hafa mikinn áhuga sýnist mér.

Næst var brunað að Galtalæk öðru höfuðbóli í sveitinni. Þar var afi minn Arnbjörn alinn upp frá þriggja ára aldri. Lítið fundum við þar af gömlum minjum en mikið er fallegt þar!

Ég ákvað að fara aðra leið heim svo við fórum fyrir Búrfellið og fram hjá virkjunnini sem Fúsamenn unnu við í fyrra og niður að Þjóðveldisbænum þar sem við Maddý örkuðum upp brekkuna og tókum myndir.Síðan ókum við niður hinn fallega Þjórsárdal áleiðis heim..

Við stoppuðum því næst í Bónus í Hveragerði þar sem keyptar voru nauðsynjavörur til heimilinna. Heim komum við um klukkan hálf átta og frábær ferð á enda.
Langaði bara að setja þetta á blað og leyfa ykkur að njóta :o)

Hafið það sem allra best..
Ykkar Silla.


 

05.07.2009 21:10

Sumar..


Sæl öll kæru vinir og fjölskylda.

Nú er sumar og ég mjög löt við bloggið. Það er frekar að ég droppi inn og fari á facebook.
En sumarið hingað til er búið að vera gott..En mér fannst kominn tími á að láta vita af mér. 

Hér hefur verið mannmargt síðustu daga og það er flott. Hér hafa verið Eiríkur og Lilja, Konný og Hannes börn og vinir þeirra, Vilmundur Árni var hér líka og í kvöld kom Jóhanna frá Akureyri.

Bara til að láta ykkur vita þá verður hér fjölskyldumót helgina 17-19 júlí og við vonumst til að allir frændur og allar frænkur nái þessu! Við höfum hverfið fyrir okkur og getum svo farið í sund í Sandgerði. Nánari upplýsingar eru á Facebook hjá Konný. Hún er búin að skipuleggja þetta vel og það væri frábært að fá ykkur kæru frændur og vinir til að samgleðjast okkur hér í Stafneshverfinu.

Þið þurfið ekki að vera náskyld en upphaflega var þetta hugsað um okkur og afkomendur. En svo kom það inn að fá frændfólkið i FKF sem eru svo miklar og góðar minningar bundnar við.

Endilega komið þið sem getið og verið velkomin í Stafneshverfi og í Heiðarbæ. Og ef ekki alla helgina þá bara dagpart! Bara að hittast og knúsast.

En að öðru og ekki síðra: Fermdir verða tveir strákar í Hvalsneskirju um næstu helgi. Það eru þeir Þorsteinn Grétar og Helgi Snær.

Svo nóg að hugsa um hér á bæ..
Bestu kveðjur til ykkar. 
  • 1
Flettingar í dag: 193
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 74
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 124588
Samtals gestir: 26580
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 06:44:21