Færslur: 2008 Febrúar

29.02.2008 14:46

Hlaupársdagur.


Í dag er 29. febrúar sem heimsækir okkur bara fjórða hvert ár. Þeir sem eiga afmæli þennann dag eru náttúrulega bráðungir allir! En ég gæti trúað að sumum krökkum finnist ekkert gaman að eiga afmæli á þeim degi. Ég sá á blogginu hjá Vísi.is að einn borgarfulltrúi (kvenkyns) var að biðja sér eiginmanns....Og segir þjóðtrúin að á hlaupársdegi megi menn ekki hafna bónorði.. ..

Ég var í æfingum í Átak áðan. Þjálfarinn pínir mig meira og meira sem er bara gott..(eftirá). Svo skrapp ég í kaffisopa í Glaumbæ þar sem þau eru mætt í setrið sitt Maddý og Gísli. Þau eru með kúttmagakvöld fyrir vini og kunningja annað kvöld. Svo það er nóg að gera á þeim bænum. Það er eitthvað sem við kunnum ekki.(að verka kúttmaga).

Þeir raða sér hér fyrir utan bátarnir núna. Vonandi er gott fiskirí hjá þeim. Það er frost og frekar hægur vindur. Örugglega gott í sjóinn. Og svo er loðnan komin sem betur fer fyrir alla og þjóðarbúið. Vonandi að þeir finni fullt af henni og fái að fiska nóg. Manni stóð ekki á sama þegar ráðherra stoppaði allar veiðar á loðnu. Þvílíkt hrun fyrir margar sjávarútvegsbyggðir eins og t.d Vestmannaeyjar og Neskaupsstað. En þeir brosa nú breitt í bili....

Það er saumaklúbbur í kvöld hjá Sigrúnu í Keflavík. Svo þá verður malað smá hjá okkur!! Ein góð setning eftir Oscar Wilde írskan rithöfund...Það eru tvær gerðir af konum í heiminum..þær sem tala stöðugt og þær sem þagna aldrei !! ææ.... En ég læt staðar numið í bili. Hafið það notalegt, það er kominn föstudagur.

Kveðja úr sveitinni.
Silla.

27.02.2008 13:36

Gagnaver og fleira.Það var gaman að heyra fréttina um Gagnaverið á Keflavíkurflugvelli. Og búið að skrifa undir samning um fyrirtækið! Vonandi þarf ekki að bíða mjög lengi eftir því eins og svo mörgu sem hefur verið sagt í augsýn hér á Suðurnesjum. Þarna er á ferðinni fyrirtæki sem mun skapa yfir hundrað störf. Og sennilega mörg tengd störf líka.

Ég heyrði í fréttunum áðan að það ætti að innkalla alla Nissan Navara bíla sem hefðu verið seldir undanfarin ár. Galli í björgunarpúðum. Ekki er nú gott að vita til þess að Gunni hafi keyrt í tæp tvö ár á stórhættulegum bíl!! Reyndar er ekki bíllinn það í sjálfu sér, heldur er hann í raun nákvæmlega eins og bílar voru fyrir tíma loftpúðanna.

Nú er fallinn dómur í máli bloggara sem taldist sekur um meiðyrði. Þar kom að því. Mér hefur fundist annsi mikið um að fólk væri rætið á netinu. Auðvitað þarf að fara að lögum þar sem annarsstaðar. Mér finnst samt allra verst þegar fólk kemur ekki fram undir nafni. Það þyrfti að taka á því. Ég hef nú reynt að vera varkár í orðum á mínu bloggi. Og ætla að halda því áfram. Mér finnst þessi miðlun mjög skemmtileg en hún verður það ekki ef fólk missir sig.

En göngugarpar halda áfram með sitt. Mér sýnist ætla að verða ágætt veður fram á kvöld en svo fer að snjóa aftur. Enginn friður á þessum vetri. Annars þarf ekki að vera neitt væl um það. Sólin er búin að vera dugleg undanfarið. En þetta er búið blogg í bili!!
Kveðja úr Heiðarbæ.
Silla.

26.02.2008 21:06

Úti að ganga..


Það var sólskin og gott veður þegar ég fór í göngu í dag. Gunni var að koma úr vinnu og stoppaði bílinn rétt við Hvalsnes. Svo við mættumst og fórum að bílnum..la la la.. Umræðuefnið hugsar einhver nú!  En tímann tók ég og hann var sautján mínútur. Næst verður hann að stoppa fjær og svo áfram með fjörið!

En ég eldaði í vinnudýrin min í dag og fékk mjög góðar undirtektir... En ég var ekki búin að segja ykkur að við fjögur í fyrirtækinu, Fúsi, Erla, Gunni og ég fórum í ferðalag á föstudaginn. Við fórum ásamt um fjörutíu manns upp í Hvalfjörð. Þar heimsóttum við Álverið á Grundartanga. Það verður að segjast eins og er að ég var hissa á hvað allt var fólksvænt eða þannig.

Og við sáum þarna að við getum og vonandi með vistvænni og góðri orku verið með störf sem henta báðum kynjum og fólki á öllum aldri í Helguvík.  Ef við á annað borð getum verið sátt um orkuflutninginn hingað suður, eigum við ekki að hugsa okkur um.

Við erum sennilega nokkuð sátt á þessum hluta Reykjanesskagans en eitthvað þarf örugglega að ræða málin í Vogunum. Um Strandaheiði liggja raflínur sem við þekkjum. En þær verða hærri til álversins... En ekki eins og okkur var sýnt að var lagt fyrir íbúa Voga. Það er afskræming og bara til þess eins fallið að skapa deilur.

En þetta var svona innlegg.. Ég hef verið hrædd við sjónmengunina og allt það sem ég hélt að fylgdi álveri í Helguvík. En eftir að hafa séð með eigin augum starfsemina á Grundartanga og hugsandi um framtíðina hér með tillititi til atvinnu á komandi tíð þá er ég ekki í vafa.

Með framtíðarkveðjum.
Silla.

25.02.2008 11:39

Næring--hreyfing!!


Jæja þá er komið að því að Gunni eigi að mæta hjá næringarfræðingi. Og við bæði. Það þarf örugglega að breyta ýmsu í mynstrinu á bænum. Grænt og vænt verður örugglega enn og aftur og oftar á boðstólum. Og hreyfi-listin!! Ætli hún verði nú ekki mest fólgin í utanhússhreyfingu.... En það kemur í ljós í dag hvað fræðingurinn fræðir okkur gamla settið um.

Veðrið í dag er bjart og fallegt. Í gær voru Jóhanna og Vilmundur hér í mat. Voffarnir eru í uppáhaldi hjá mörgum sem koma og kíkja. Björk, Gísli og börn komu gagngert til að sjá þær Týru og Vikký. Reyndar var Brúnó líka hér í pössun. Svo kom Bárður með pabba sínum Hilmari að kíkja á uppáhaldið sitt hana Vikký Snatasystir ..

Kolla Kidda Lár kom á laugardag með Önju dótturdóttir sína með sér og við áttum gott spjall. Alltaf gaman að hitta Kollu. Og henni finnst jafn stutt hingað og mér finnst til Sandgerðis. ..Held nú samt að sumum finnist það lengra en það er. Maddý og Gísli eru í Glaumbæ en þar hefur verið gestkvæmt um helgina.

Annars er svo mikið að gera hjá krökkunum mínum núna að ég hef ekki séð mikið af þeim fyrir utan Jóhönnu og börn. Ætlaði að passa fyrir Lindu í morgun en þurfti þess svo ekki. Það voru allir með flensu hjá Konný um daginn. Streptakotkasýkingu sem ég las nú reyndar um í morgun að væri að verða einhver hræðslumóðursýki. En þau fengu þennann óþvera.. Og svo býst ég við að fara að kokka ofan í vinnudýrin mín að nýju eftir smá hlé. Það hefur fækkað aðeins í hópnum og svei mér þá, ég held þeir sakni mín bara í Fúsa ehf..

En annars allt í góðu hér um sveitir!
Bestu kveðjur úr Heiðarbæ.
Silla.

23.02.2008 21:34

Annó 24.febrúar 07 -23.febrúar 08


Jæja kæru lesendur Sillubloggs. Nú er nákvæmlega ár frá fyrstu færslu á morgun. Núna var ég að enda við að horfa á Evróvision keppnina íslensku og er búin að kjósa mitt lag. Hef reyndar ekki fylgst náið með þessu og var hissa á sumu sem komst í gegn. En ég var hrifnust af laginu með Friðrik Ómari og Reginu Ósk. Það kemur í ljós rétt bráðum og áður en ég lýk við bloggið hver vinnur.

En nú er komið að annálnum fyrir síðasta bloggár.....Ég ætla að ganga um bloggsíðurnar..

Febrúar 07. 
Það fyrsta sem ég rak augun í er að ég skrifaði um allann þann fjölda sem keyrði fram hjá okkur Jóhönnu þegar hún var að hjálpa mér við að stafla timbri við Heiðarbæinn. Við töldum tvö hundruð bíla á einum klukkutíma. Mikið af þessu stafaði af umferð vegna Wilson Muuga sem strandaði í desember 2006.
Stafnesvegurinn var að sligast undan allri umferðinni og var ekki góður fyrir. Konný tók myndir og sendi í Víkurfréttir...Og þeir brugðust vel við.

Mars 07.
5. mars var íþróttamaður Sandgerðis valinn samkvæmt venju á afmælisdegi Magnúsar heitins Þórðarsonar. Hann var að þessu sinni Hafsteinn Helgason. Og eins og ég sagði brugðust Víkurfréttamenn við ákalli okkar í sambandi við Stafnesveginn með því að skrifa um veginn og á fyrstu dögum marsmánaðar voru vinnuvélar frá Vegagerðinni komnar á vettvang. Um miðjan mars skrifa ég um að menn Fúsa ehf. eru 20 metrum undir Þingvallavatni við vinnu í Steingrímsvirkjun! Og Ellert Grétarsson frá Víkurfréttum tók við okkur viðtal í sambandi við Heiðarbæinn. Bárður Gísli Guðjónsson fermdist.

Apríl 07.
Fermingarmánuður. Ástrós dótturdóttir mín fermdist 5. apríl og frænkur hennar Þórunn Anna, dóttir Bjössa bróður fermdist 1. apríl og Telma dóttir Dabbý fermdist líka í apríl.... 17.apríl komst Wilson Muuga á flot við mikinn fögnuð okkar. Sumir héldu að við vildum hafa hann sem stofustáss! Og vinnan hélt áfram í Heiðarbæ. Jón tengdasonur og Kalli pabbi hans byrjuðu að flísaleggja. Og alltaf er unnið við að koma okkur inn í hreiðrið.

Maí 07.
Ég sat í annað sinn yfir nemendum í tíunda bekk í samræmdum prófum. Það er mjög gefandi og gaman að umgangast ungu kynslóðina. Og þann 17. mai fluttum við hjónakornin í Heiðarbæinn. Fyrst aðeins upp á loftið með smá aðstöðu niðri. Daginn eftir komu svo væntanleg brúðhjón David og Staycy til landsins. Þau gistu í Glaumbæ í boði Maddý frænku og Gísla. Og á næstu dögum á eftir kom fjölskylda þeirra og vinir. Við fórum í frábæra ferð með útlendingunum okkar um suðurland ásamt Maddý og Gísla,Jóhönnu, Konný og fl. Og stoltur var minn ektamaki þegar hann leiddi brúðina að altarinu klæddur íslenskum búningi hinn 26.maí. Lilja Kristín gaf brúðhjónin saman og börnin og fleiri komu með henni frá D.K

Júní 07.
Í júní tókst okkur að koma okkur niður á báðar hæðir og það var frábært. Og úti var tyrft og sólin skein alla daga. Ég byrjaði að laga garðana og er ekki hálfnað verk þá hafið er? En áfram skal haldið næsta sumar. Fallegt veður í júní 2007. Og ný vefsíða hefur hafið göngu sína. Lífið í Sandgerði -245.is. Mjög fín og kemur til okkar fréttum úr byggðarlaginu og ýmsu fleira eins og Þankabrotum. 

Júlí 07. 
Færeyskir vinir frá Vogi á Suðurey komu í heimsókn og þurftu að fara upp hænsnastigann úr kjallarnum. En þau voru ekki neitt ósátt við það. Allavega var gaman að fá þau og veðrið var frábært. En svo tveim dögum síðar var pallurinn og tröppurnar tilbúnar! Það var viss áfangi. Og 4. júlí komu hvolpar Týru í heiminn. Sex að tölu og einn þrífættur. Hún heitir Vikký og verður hér hjá okkur í Stafneshverfinu. Við fórum í helgarferð með fjölskyldunni og enduðum á Þórisstöðum í Svínadal í steikjandi hita en vindi.

Ágúst 07.
Áfram var einstök veðurblíða. Ég leyfði ferðalöngum frá Belgíu að tjalda á túninu hjá mér og bauð þeim svo í morgunmat. Þetta voru háskólanemar á puttanum! Og við vorum sveitt við að fúaverja húsið en náðum samt ekki öllu. Og litla systir mín Dabbý kom í heimsókn. Sandgerðisdagar voru haldnir og tókust prýðisvel. Reyndar rigndi á setningunni á föstudagskvöldið. Veðurguðirnir gátu ekki lengur haldið vatni! En svo stilltu þeir sig. Við kláruðum að laga planið og það er bara fínt og rúmar fjölda bíla. Og fyrsta partýið í Heiðarbæ var haldið 31.ágúst. Þá fékk ég suma af gömlu félagunum úr bæjarstjórn og fleiri í heimsókn ásamt mökum.

September 07.
Allir hvolpar Týru yfirgefa heimilið nema Vikký hin þrífætta sem mun búa í Stafneshverfinu með mömmu sinni. Eiríkur kemur í heimsókn..var að selja bílinn og koma í brúðkaup systir sinnar Lindu. Hún gifti sig 8.september á afmælisdegi pabba síns. Gunni leiddi hana inn kirkjugólfið og var að rifna úr stolti. Smá væta var en ljúfur dagur. Daginn eftir héldum við gömlu á vit ævintýranna í BNA og Kanada á 40. ára brúðkaupsafmælinu. Við vorum ekki ein því bestu vinir okkar voru með okkur ..Maddý og Gísli.

Október 07.
Við eyddum hluta af október í Ameríku og gistum síðustu tvær vikurnar í húsinu hjá M og G í Aplleton streert í Jax í FL. Þar vorum við í beinu sambandi við Dísu og co... En eftir að við komum heim í hversdagsleikann tóku haustlægðirnar við. Og það hefur ekkert lát orðið á þeim síðan. Lilja Kristín tengdadóttir kom í heimsókn frá Danmörku.

Nóvember 07.
Herleg afmælisveisla var hjá Hrefnu vinkonu 2.nóvember. Sextug!! Reyndar varð Margrét dóttir hennar fertug sama dag. Og smátt og smátt er allt að koma hér í Heiðarbæ. Í þessum mánuði tókum við gestasnyrtingu og þvottahús í notkun. Allt á sömu hæðinni. Og húsbóndinn í Heiðarbæ lendir á sjúkrahúsi í lok nóvember. Hann var með óskýrðan dofa um annann helming líkamans. Og ekki stóð mér á sama.

Desember 07.
Við fórum í nokkurskonar jólaheimsókn til Eiríks og fjölskyldu í Söndeborg. Góð heimsókn sem ég vona að þau hafi líka notið. Þau hafa það bara gott þarna á Jótlandi. Eiríki gengur mjög vel í skólanum og fjölskyldan virðist hafa það gott. Gaman að hafa farið og deilt með þeim nokkrum dögum. Og jólin gengu í garð og voru friðsæl og fjölskylduvæn.

Janúar 08.
Og nýtt ár gekk í garð og áfram halda veðurguðirnir sér við efnið. Hver annarri dýpri lægð með tilheyrandi rigningu eða snjó..Meira um flugtruflanir á Keflavíkurflugvelli en verið hefur í manna minnum. En á milli lægða læddum við okkur til Los Angeles á sýningu. Erla og Fúsi voru auðvitað með okkur og svo komu David og Stasey til okkar út. Við hittum frændfólk úti og þetta var góð ferð.

Febrúar 08.
Erfiðir samningar eru í höfn. Margir eru ósáttir. En lægstlaunaða fólkið fékk þó mest fram. Þeir sem eru ekki ánægðir með það.. eru hærri. Og ég veit að þó einhverjir séu hærri eru þeir ekki með viðunandi laun. En svona er þetta og þegar ég skrifa þetta eiga félögin eftir að samþykkja samningana. Vonandi tekur fólk þátt í kosningunni... Og svo kom í ljós í byrjun vikunnar að það sem hrjáir Gunna er sykursýki 2. Og nú er ekkert elsku mamma. Bara taka á þessu.

Nú hef ég hlaupið á því helsta á þessu bloggári. Ég hefði viljað segja mikið meira. Um alla þá sem hafa komið í heimsókn og fleira. En þá hefði þetta orðið allt of langt og ég læt staðar numið að sinni.
Kveðja. Silla.

E.s Lagið mitt vann!!

21.02.2008 17:29

Gott gönguveður.


Eitthvað hefur nú veðrið róast undanfarið. Fínt gönguveður og orðið bjart frameftir öllu. Bræðurnir gistu tvær nætur hjá okkur og svo bara koma þeir seinna þegar vorar meira. Það er nú svona eins og vor í lofti en ekki þorir maður að trúa því, allur mars eftir.

Hrefna vinkona kíkti áðan, brún og sæt! Hún er nýkomin frá Kanarí úr sólinni. Þar voru þau ásamt fjölda veðurbarinna Íslendinga sem höfðu það fínt... Ekki er ég nú mikið hissa þó landinn reyni að komast í sólina eftir þennann æðislega góða vetur...

Já, það eru rúmlega þrettán þúsund manns búnir að kíkja á bloggsíðuna mína frá upphafi. Ég get nú bara verið ánægð með það. Jafnvel þó ég skrifi ekki alltaf margt né merkilegt!! En ég veit af nokkrum föstum lesendum. Þeir eru ekkert endilega að skrifa álit og þurfa þess ekki. Það er gott að vita af 3-4 fjölskyldum vestanhafs og svo börnunum okkar í Danaveldi. Þau geta þá allavega aðeins fylgst með því helsta og hringt ef þau vilja vita meira!!.

En blogg er eitthvað sem maður þarf að bera ábyrgð á sjálfur. Maður þarf að standa og falla með því. Þess vegna vil ég fara frekar hægt í sakirnar. Ég fékk smávegis í magann yfir bloggi fyrrum formanns Samfylkingarinnar 20.02 08. Ekki það að hann eins og aðrir ráða með hvaða orðum þeir koma sínu áliti á prent (skjá). En svolítið fannst mér hann berorður.. ææ...Það er kannski þess vegna sem ég kaus Ingibjörgu Sólrúnu formann síðast.

Annars aftur til D.K. Mér finnst hrikalegt allt fárið í Danmörku. Íkveikjur og eldar um allt og alls ekki bara í Kaupmannahöfn. Ekki veit ég hvað blöðin þar voru að hugsa með því að æsa upp innflytjendur og afkomendur þeirra af muslimskum ættum. Vonandi fer þessu að linna. En það er vandratað meðalhófið. Og allstaðar í heiminum..  

Og kannski er farið að bera á þessu hér heima líka. Allavega sá Bubbi ástæðu til að stofna til tónleika á móti kynþáttafordómum í gærkvöld. Og hann fékk forsætisráðherrann okkar til að syngja með..Frábært hjá Geir Haarde sem er jú hálfur Norðmaður.

En ég ætla að slá botninn í þetta núna í blíðviðrinu og fara út í göngutúr og toga Gunna með....
Kveðja úr sveitinni.
Silla.

Kl.18.50..Jæja nú snjóar bara. Vorið er örugglega bara inni í mér!!

19.02.2008 20:48

Bræður í Heiðarbæ.

 Þeir eru í sveitinni núna Garðar Ingi og Vilmundur Árni. Tilbreyting fyrir þá að fá að sofa í Heiðarbæ. Svo fara þeir í skólann í fyrramálið um leið og afi þeirra fer í vinnuna....Á meðan fá þær örlitla pásu mæðgurnar Jóhanna og Ástrós.

En á morgun fer ég með mömmu í Reykjavík. Hún er að fara í heyrnarmælingu. Ég er komin í æfingu á Reykjanesbrautinni. Fór tvær ferðir í gær. Tengdapabbi þurfti að fara í smá aðgerð snemma í gærmorgun og svo sótti ég hann seinnipartinn. Hann er bara nokkuð hress...Það er ekkert vol og víl hjá honum.

Reykjanesbrautin er kafli út af fyrir sig. Allt stopp í framkvæmdum og hjáleiðir á mörgum stöðum. Gott að þurfa ekki að fara hana í slæmu veðri. Vonandi sér Vegagerðin fram úr þessu verkefni fljótt og svo má ekki bíða lengi með tvöföldun á Hellisheiði og Vesturlandsvegi. Það hefur ekkert banaslys orðið síðan þessi þó nokkuð langi tvöfaldi kafli á brautinni var tekinn í notkun. Það hlýtur að segja eitthvað um nauðsyn tvöföldunar hinna veganna líka. Mannslíf verða aldrei bætt.

Í dag var jarðsettur Gunnar Ingi Ingimundarson aðeins 39 ára. Skelfilegt hvernig krabbinn tekur burtu fjölskylduföður frá fjórum ungum börnum. Þrjú þeirra eru ófermd. Konan hans er Linda Gústafsdóttir æskuvinkona Sigfúsar okkar og bekkjarsystir og var þó nokkuð samband á milli fjölskyldna þeirra á fullorðinsárunum.

En svona er víst lífið. Engin veit sína ævina fyrr en öll er. En hugurinn er hjá fjölskyldunni um þessar mundir. Vinkona Maddý frænku var að kveðja eftir 13 ára baráttu við sjúkdóminn. Reyndar orðin 65 ára en það er ekki hár aldur. Hún barðist lengi blessunin hún Svenna. 

En... reynum að vera hress og lítum á hvern dag sem gjöf.
Bestu kveðjur úr Heiðarbæ.

18.02.2008 20:33

Sykursýki og samningar!


Já Gunni fór til doktorsins í morgun og nú vitum við loksins fyrir víst að hann er með sykursýki..Það kom okkur svo sem ekkert á óvart. Læknirinn sagði að hann ætti að léttast um 20 kg og hreyfa sig mikið..utan vinnu og úti!!  Hann fræddi hann líka um að þetta væri sko ekkert grín þar sem hann er líka með háþrýstisjúkdóm og það fer ekki vel saman...En með góðum vilja, hreyfingu, útiveru og einhverjum lyfjum (bara fyrst í stað) ætti þetta að ganga vel. Ég veit það!!

Og svo er næst að fara til næringarfræðings eftir viku og ég með . Því það er jú ég sem elda yfirleitt matinn. Ég er reyndar alltaf að reyna að koma ofan í hann grænni fæðu sem hefur gengið upp og ofan. En betur má ef duga skal og það er mjög gott að einhver annar segi honum þetta því ég veit að þetta er rétt. Og hann hefur tekið vel í það sem ég hef verið að segja honum. Starfsfólk Reykjalundar kenndi mér mikið árið 2006. Ég bý að því lengi..

Og svo eru það samningarnir!!  Það hafðist ekki meira fram en þetta. Og það er bara þannig. Og þótt það það sé rétt hjá Dúnu og nánast öllum að lágmarkið ætti að vera 250 þúsund til að lifa, þá er bara ekki tekið meira stökk í bili fyrir þá lægst launuðu. Þar vinnst þó svolítið en ég gæti trúað að það átti sig ekki allir á að þetta gengur ekki upp launastigann að þessu sinni. Og sumir fá bara það sem ríkisstjórnin býður. Þeir fá lítið sem hafa þegar á einhvern hátt fengið meira á liðnum árum. Og það tekur aldeilis tíma að fara upp í 115 þús frítekjumark. Ég hefði viljað sjá 120 þús frítekjumark og það NÚNA.

En ekki er nú fyrr búið að semja við þá lægst launuðu og þorra launafólks (það villir um fyrir fólki að tala um 7 samninga af 320)  því þetta eru fjölmennustu hóparnir sem samið var fyrir að viðtöl koma við t.d háskólamenn sem rignir upp í nefið á. Það vantaði bara örlítið upp á að háskólaséníið (kona) segði ''pakk'' eftir að hún talaði niður til verkalýðshreyfingarinnar.( Kannski bara mitt álit!).. Þau færu sko ekki eftir svona...Ég er og hef alltaf verið hliðholl menntun sem er af því góða... en sumir eru sko með menntahroka.

Ég var loksins að senda Ástu frænku bréf og myndir. Ég lofaði henni þessu þegar við heimsóttum hana í LA. Við erum nýbúin að fá myndina frá Báru..Takk Bára!!  Ég veit þið að kíkið annað slagið á síðuna. Það var gaman að fá mynd af ömmu og afa Gunna þegar þau voru svona ung.  Ástrós Jóhönnudóttir gistir hjá okkur núna og var s.l nótt og líkaði svo vel að hún vill bara vera.. ha ha..Gott að sofa undir súðinni uppi. En ætli ég hætti ekki í bili og eigið góðar stundir.
Ykkar Silla.16.02.2008 15:18

Bloggsíðan nálgast ársafmæli.Sæl verið þið. Dúna systir á afmæli í dag.. 29b..eða var það f. Og vika í að ég sé búin að halda úti þessari bloggsíðu í eitt ár. Af því tilefni ætla ég að vera með nokkurssonar bloggannál um það leyti. Það getur verið gaman að rifja upp það helsta..Tíminn flýgur hratt!!!

Ég var á fundi í stóru samninganefndinni í morgun. Flóanum svokallaða. Líklega er um það bil verið að ljúka samningum milli aðila en það verður ekki skrifað undir neitt nema Ríkisstjórnin komi almennilega að málunum. Þýski rithöfundurinn Heinrich Heine sagði einu sinni........
Fátækt fólk nærist ekki á tölfræðilegum upplýsingum...Flestir hafa að borða á Íslandi en það er kannski borið uppi af yfirdrætti vegna þess að fólk nær ekki endum saman.

Margir deila um ástæður þessa. Við séum orðin of kröfuhörð og annað. En allir hljóta að sjá að lægstu laun á Íslandi eru skammarleg. Og annað sem er ekki síður ástæða. Nauðsynjar miklu dýrari en í löndunum í kring um okkur. Við sjáum það bæði vestan hafs og í t.d Danmörku..Þar hef ég verslað sjálf í matinn og keypt bensín!!!!

Ég sat hjá konu úr Eflingu stéttarfélagi sem vinnur bæði í HB Granda og aukavaktir á Grund. Þetta er líkt og hjá mörgum öðrum. Unnið langan vinnudag til að halda uppi heimili... Og svo heyrðist mér á forsætisráðherra í gær að þar á bæ væru menn ekki að tala um hækkun persónuafsláttar!  Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur hjá mér! Ég veit að til þessa atriðis horfir fólk vonaraugum. Það er bara skömm að því að byrja að taka skatt af fólki undir 100 þús króna tekjum...

En fleira er ekki skrifað að sinni. Bestu kveðjur.
Silla.

14.02.2008 13:19

Óveðurstíð að baki?


Hæ hæ..
Skyldi nú sjá fyrir endann á þessu leiðindaveðri sem hefur staðið yfir síðan í haust. Ekki er nú alveg víst að það sé en eitthvað er þetta rólegra á næstunni. Enn er auðvitað hávetur en um leið og daginn lengir verður t.d snjór ekki eins erfiður. En það huggar mig ekki smáræðis að Sandgerði er Draumasveitarfélagið á Suðurnesjum.. Og það þrettánda í röðinni á landsvísu!!  Alveg satt..og ég veit það!

Ég var á sóknarnefndarfundi í gærkvöldi sem er ekki beint í frásögur færandi!  Ég held bara að fundurinn hafi verið nokkuð góður. Allir mættir og Reynir Sveins að komast til heilsu aftur, vel undirbúinn.. En við þurfum að sinna þó nokkuð áríðandi verkefnum á næstunni. Það varðar bæði kirkjuna okkar á Hvalsnesi og Safnaðarheimilið í Sandgerði. Ærin verkefni framundan..

Ég heyri af fréttum að eitthvað er að ganga saman í ferli kjarasamninga. Vonandi tekur Ríkisstjórnin líka myndarlega á móti með aðilum vinnumarkaðssins. Því ekkert af þessu gengur upp ef ekki er hægt að halda niðri verðbólgu og gera eitthvað í skattamálum. Svo eigum við svokölluð stóra samninganefnd eftir að vera kölluð inn eftir eina ferðina enn þegar eitthvað raunverulegt er í hendi.

Nú hefur komið í ljós að dofinn sem ég sagði ykkur frá hjá Gunna og var að hræða mig er sennilega sykursýki.(Ekki móðursýki) Hann fer á mánudag í nánari athugun og þá fæst endanlegt svar. Dofinn er ekkert farinn en hann bara reynir að lifa við hann.

Svo er svolítið skondið að þegar það kom til umræðu fyrir jól að þetta kynni að vera ástæðan þá hætti hann að fá sér mola með kaffinu sem hann gerði áður, einn af fáum. En einhver hér heima hefur verið að læðast í jólanammið og það er ekki ég!! 

Ég er að lesa smábók sem heitir Stutt og Laggott.. Tilvitnanir í heimsþekkta húmorista..Góð til að kíkja í.. Hér er eitt eftir rithöfundinn Somerset Maugham. Eitt af því óheppilega við þennan heim er að það er mun auðveldara að losa sig við góða ávana en slæma.
 
Það er nefnilega það..Læt þetta duga í bili..Góðar stundir.
Ykkar Silla.

12.02.2008 10:36

Erfiðir samningar..Sæl öll ..Það verða örugglega erfiðir kjarasamningarnir framundan. Ég var í gærkvöldi á fundi þar sem lögð voru fram drög frá SA. Verkafólk er orðið leitt á því að draga vagninn. Þ.e.a.s vera alltaf fremst í röð kjarasamninga. Þurfa að taka tillit til verðbólgu sem jú allir vilja hafa sem lægsta.

En svo segir fólk og örugglega réttilega ..Þegar búið er að semja við þá lægstlaunuðu þá koma hinir og skríða upp bakið á okkur!! Svo er ástandið í peningamálum ekki til að bæta þetta. Ætli það sé planað fyrirfram að hafa erfiðasta ferlið þegar kemur að kjarasamningum láglaunafólks? Segi nú svona!!

Þetta verður erfitt..annaðhvort semst á næstu dögum eða slitnar upp úr þessu. En inni í þessum drögum eru samt mörg nokkuð góð atriði en það er ekki því að heilsa með launin sjálf. En það var rangur fréttaflutningur um þetta í gær að þessu hafi verið hafnað. Það er verið að fara yfir fyrstu raunverulegu tillögur frá SA.

Og fréttir! Ekki hefur þær vantað. Þetta er skelfilegt í Reykjavík. Horfa á í beinni borgarfulltrúana læðast frá fréttamönnum til að komast hjá viðtölum eða hvað?..Þeir hafa fáir verið til viðræðna síðustu daga heldur. Það þarf örugglega að endurskoða upplýsingaþátt sveitarstjórnarlaga. Þá væri ekki fjölmiðlafárið svona algjört.

Ég var nokkur ár í fulltrúaráði Sambands Íslenskra Sveitarfélaga.  Þá var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson formaður þar. Ef ég væri göldrótt kæmi ég honum þangað aftur. Þá hefði hann klárað ferili sinn með glæsibrag. Hann var góður þar og vinsæll. Alltaf tilbúinn að sætta fólk í ólíkum fylkingum. Og er örugglega hinn besti maður. En þetta í borginni er að fara með hann. Hann hefði átt að segja af sér að mínu áliti. Þetta versnar bara hjá honum.

En að öðru. Maddý og Gísli eru í Glaumbæ. Við kíktum á þau í fyrrakvöld. Þá var bóndinn þar farinn að hressast af flensunni. Þau ætla að vera hér fram eftir vikunni. Nú eru þau bæði hætt að vinna í svona reglulegri vinnu. En ég að held ég þekki ekki vinnusamara fólk. Svo þau eru ekki í neinum vandræðum. Alltaf nóg að gera. Alltaf hægt að laga einn og einn bíl og sauma eitt og eitt teppi..

Í gærkvöld fórst lítil flugvél hér vestur frá okkur. Hún fannst ekki og enn er verið að leita.  Þetta er vél með einum manni..Sennilega vél sem var verið að ferja milli landa. Það er alltaf sorglegt þegar svona fer. En ætli ég láti ekki staðar numið hér. Mínar bestu kveðjur..Ykkar Silla

09.02.2008 20:13

Gestir og Spaugstofa..


Æ æ..Ég var að horfa á Spaugstofuna..Þeir eru oftast góðir og líka núna!! Ha.ha.ha.ha.ha. Þeir tóku mjúkt á Borgarmálefnunum og það er fínt. Ég vorkenni Villa vini og gott að hann slapp núna að mestu.. En þetta mál allt er auðvitað ofarlega í huga fólks. Og því að einhver beri einhverja ábyrgð!

 Lesið bloggið hjá Bjössa bróður. Hann vill meina og kannski réttilega að stjórnmálamenn beri aldrei neina ábyrgð. Ég var svolítið hugsi yfir því. Ég sat í bæjarstjórn Sandgerðisbæjar í tólf ár og var alltaf að hugsa um að gera rétt!!  En kannski hafa sumir aðrar skoðanir á því sem við gerðum þessi ár...Já ef til vill en hvað er rétt ???

En við hjónakornin fórum í kaupstaðinn í dag..Gaman að segja svona eins og í gamla daga..Í kaupstaðinn!!! Og þegar við komum heim....Viti menn. Fylltist ekki allt af góðum gestum!!  Kiddi frændi minn bróðir Hrefnu vinkonu og Ragnhildur konan hans komu rétt á eftir okkur. Yndisleg hjón og gaman að fá þau í heimsókn. Þau voru að koma í fyrsta skipti í Heiðarbæinn. En höfðu áður heimsótt okkur í bílskúrin (Bjössahús).

Og svo komu Hilmar, Guðbjörg, Bárður og Birta til að heimsækja Vikký..og kannski okkur líka. Stundum þegar þau koma finnst mér eins og Eiríkur sé að koma. Þeir eru svo líkir að vexti og jafngamlir Hilmar og Eiríkur. Þau eru svona svolítið eins og krakkarnir okkar og alltaf gaman að fá þau.. Dýravinina okkar. Svo kom Benni með Týru og Brúnó sem ég hafði sleppt út litlu áður og voru komin til hans og vildu bara heimsækja hann.

Við elduðum góðan mat áðan og höfum það nú notalegt í Heiðarbænum. En nú spáir aftur vondu veðri..vonandi ekki jafn slæmu og í gær. En Maddý og Gísli eru mætt í Glaumbæinn en Gísli er eitthvað lasin svo ég veit ekki hvort við kíkjum á þau núna. Og Dísa mín í Jax!!. Ef þú lest þetta sem ég veit að þú gerir... þá biðjum við að heilsa ykkur í Appleton Ave.

En ekki fleira í bili héðan úr Stafneshverfinu.
Kv. Silla.

08.02.2008 10:58

Og áfram með fjörið!


 Það er ekki hægt að segja að það sé nein lognmolla úti núna í orðsins fyllstu merkingu!! Það er ekki fyrr hætt að snjóa þegar komið er suðaustan rok og rigning..Já ég ætla að halda mig heima aftur í dag. Svo það gefst tími í blogg, innanhússvinnu og annað slíkt!!!

Og með kvöldinu á veðrið að versna..lengi getur vont versnað.. Ég las á Víkurfréttavefnum að losaðir hafi verið fimm hundruð bílar úr snjónum í Reykjanesbæ í gær!  Sem sagt allt í kös.. Þessu má alveg fara að linna fyrir mér. 

Það er gaman að fylgjast með forsetaframboðsslagnum í Usa. Hver verður næsti forseti? Ellilífeyrisþeginn, konan eða blökkumaðurinn. Á ferð okkar síðast hittum við vini og frændfólk og þar fundum við fyrir aðdáendur allra þriggja..reyndar ekki hjá sama fólkinu. Auðvitað hefur fólk misjafnar skoðanir. Það verður fróðlegt að fylgjast með..

En í sambandi við flug og veður. Það hlýtur að vera óskemmtilegt að bíða upp í flugstöð þessa dagana sólarhringum saman eins og sumir þurfa að gera. Þegar við fórum um daginn vorum við heppin...Allar vélar á áætlun..daginn eftir þurfti fólk að bíða og sofa um alla stöð!

En það er víst hávetur og við búum á Íslandi.. Við vorum bara farin að venjast of góðu undanfarin ár sennilega... Ég hefði gjarnan viljað hafa það þannig áfram. En það sjónarmið kemur líklega með aldrinum..Konný segir til dæmis,,meiri snjó, meiri snjó,,
En ég læt þetta duga að sinni. Góðar stundir.
Kv. ykkar Silla.

Skr.11.25. Já og enn einu sinni í vetur er Samhæfingarstöðin í Reykjavík virkjuð vegna yfirvofandi vonskuveðurs..Vonandi að allt gangi upp og engin slasist í þessum látum.

07.02.2008 14:50

Og enn um veðrið!Ég er heima í dag og ánægð með að geta það. Ég hefði kannski komist allavega vegna snjóþunga í æfingarnar í morgun....En það er búið að vera og er enn um miðjan dag svo blint að það sést ekki út úr augum í verstu éljunum.

Ég var komin í úlpuna og allar græjur fyrir níu. Þá hringdi Gunni og bannaði mér að fara fet!! Og ég er auðvitað svo gegnin ha. Hringdi í Átak og þá vissu þau allt um ófærðina.. Og svo fór ég bara á netið og sá hvað var að ganga á.

Um kl. ellefu var búið að aðstoða yfir 100 bíla á Suðurnesjum og Sandgerðisheiðin lokuð. Garðvegurinn líka vegna fastra bíla..Ja hérna og mest vegna þess að fólk sá ekkert fram fyrir sig. Ég hef nú sjaldan séð frétt um að það væri illfært innanbæjar í Reykjanesbæ... En jú í morgun.

Líklega er þetta að lagast en Ísar var að koma heim og stoppaði í skafli rétt við Melaberg og fékk Ölla til að draga sig upp. Hann sagði líka það sama. Hann sá ekki neitt og varð því að hægja á sér og sat fastur. En hann er nú á litlum bíl. Svo þá kemst Gunni heim á eftir...En það er enn blint í éljunum...

En þetta er nú orðin frekar leiðinlegur vetur. Minnir dálítið á árin milli 70 og 90 og fyrr. En síðustu áratugina höfum við verið heppin hvað snjó varðar. Á árunum sem ég vann upp í Leifsstöð kom held ég tvisvar fyrir að Björgunarsveitin yrði að keyra okkur heim. Og ég var þar í 17 ár frá 1987 með hléi einn vetur.

En mér finnst notalegt að vera heima núna og pirrar mig ekkert að vera aðeins frá aðalbæjarkjarnanum. En kannski ef það stæði í marga daga? En þetta er ekkert grín þegar fólk þarf að mæta í vinnu eldsnemma í myrkri. Ég er ekki að elda í Fúsa ehf þessa dagana svo mín er ekki saknað þar ...

Ég man ekki hvort ég ætlaði að segja eitthvað fleira..(kölkuð ha?).. En það kemur þá næst. Vona að allir séu heilir á húfi og hafi það sem best með sól í sinni.
Ykkar Silla ..

06.02.2008 20:44

Reykjavík, ó Reykjavík!!Við Ástrós fórum í bæinn í dag. Hún þurfti að fara til læknis vegna ofnæmis sem hún er með. Það gekk nú allt vel. En mikið er ég alltaf fegin þegar ég kem aftur til baka úr þessum bæjarferðum. Ég tók tímann og ég var lengur að keyra í gegn um Hafnarfjörð og inn í Lágmúla heldur en alla leið að heiman.

Umferðin er svo þung á þessum kafla og ekki bætir svona snjóþæfingur eða hvað er hægt að kalla þessa færð sem er ekki ófærð en leiðinleg. Svo alltaf er gott að koma heim. Ég var reyndar á stjórnarfundi í VFSK í kvöld milli sex og átta.

Ég hringdi í Hitaveituna í morgun út af ljósastaurnum hjá Bjössa. Hann var reyndar líka búin að tala við þá áður. Staurinn hefur látið ófriðlega undanfarið eða réttara sagt ljósið á honum. Logaði kannski í tíu mínútur og slökkti á sér í fleiri klukkutíma eða jafnvel daga. En ég varð nú bara aldeilis hissa þegar þeir mættu tveim tímum seinna og voru þarna dágóða stund að baksa við staurinn.

Svo ætlaði Týra alveg að ærast (verja húsið fyrir þessu ferlíki, körfubílnum) þegar þessir tveir ókunnugu menn komu hingað til mín og fóru að spyrja mig um þetta og vildu að ég léti þá vita ef ekkert lagaðist. Vildu greinilega gera það sem þeir gætu. Sá eldri sagði að þetta nýja dót (perurnar) væru aldrei til friðs ef eitthvað væri að veðri.

Svo þarna stóð þjónustan sig nokkuð vel og enn logar ljósgreyið!! En það er nú eftir að sjá hvernig það verður eftir rokið sem spáð er í nótt!!

En ekki fleira í bili. Kveðja úr Heiðarbæ.
Flettingar í dag: 73
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 74
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 124468
Samtals gestir: 26578
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 05:19:37