Færslur: 2008 Nóvember

28.11.2008 17:27

Þakkargjörð.

emoticon
Heil og sæl..og ekkert væl.
Í Bandaríkjunum er þakkargjörðardagur og hann var í gær. Mummi bekkjarbróðir minn sendi mér póst og var að hjálpa konunni með kalkúninn klukkan níu að morgni. Þetta er siður hjá þeim alveg frá tíð Abrahams Lincon að ég held. 

En í gærkvöld klukkan sjö var samverustund í Safnaðarheimilinu í Sandgerði og um leið fyrirlestur um fjármál. (Ekki veitir af)..En þessi stund var frábær. Þarna voru samankomin um þrjátíu manns og margir komu með mat og allavega góðgæti með sér. Úr varð hlaðborð sem hefði verið sæmandi í hvaða veislu sem væri. Mitt framlag var súpa og brauð. Sr. Björn Sveinn Björnsson byrjaði á hugvekju. Við sungum saman tvo sálma og svo hélt Garðar Björgvinsson fyrirlestur um fjármál. Hann var mjög góður og ekki var tíminn lengi að líða og mikið hlegið þrátt fyrir þrengingar. Klukkan var orðin hálf ellefu þegar ég kom heim í Heiðarbæinn.

Svo það var nokkurskonar þakkargjörðarmáltíð hjá okkur í gær. Og inntakið í þessum sið er jú góður og er ekki ástæða til að þakka bara fyrir að hafa góða heilsu?

En nú er frost úti og hefur verið rok undanfarna daga en er nú að róast hér sunnan heiða allavega. En fyrir norðan og vestan er búin að vera stórhríð og allt ófært. Skólum aflýst víða og auðvitað flugi. Við erum bara heppin að það hefur verið auð jörð hér. 

Læt þetta duga að sinni.
Góðar kveðjur úr Heiðarbæ.
Silla.

25.11.2008 18:27

Jólaljósin.

emoticon
Halló öll. Nú fer að koma að því að kveikja á jólaljósunum. Fyrsti sunnudagur í aðventu er á sunnudaginn næsta. Það verður kveikt á jólatré Sandgerðisbæjar á laugardaginn. Ekki veitir af að lýsa upp skammdegið núna. Ekki síður að lýsa upp í hugum fólks. Ég hef sjaldan fundið fyrir svona mikilli óvissu og áhyggjum hjá fólki og núna.

En allt gengur þetta nú einhvernveginn. Og gott að hugsa til jólanna og hvað það gerir okkur gott að gleðja aðra. Og þá er ég ekki að tala bara um gjafir. Ég er að tala um meiri samskipti og að taka utan um hvert annað. Sem við eigum auðvitað alltaf að vera dugleg við.

Það er öruggt að jólagjafir verða ekki dýrar um þessi jól enda ekki þörf á því. Á okkar heimilum hafa aldrei verið gefnar dýrar gjafir. En þær verða kannski enn minni í krónum talið nú. En kerti og spil í gamla daga , kannski ein bók og eitthvað smá fatakyns gladdi og lýsti jafn vel upp hugann og aðrar dýrari gjafir gera í dag.

En þetta var svona smá hugleiðing um verðmæti. Þau verða nefnilega ekki mæld í aurum. En það er búið að vera nóg að gera í Fúsa ehf og jafnvel von á verkefni núna strax á eftir því sem er að ljúka. Það er frábært ef af verður því alltaf þarf að vera að huga að verkefnum. Vonum að það gangi allt upp.

En ég hef þetta ekki lengra og bestu kveðjur til ykkar nær og fjær.
Silla.

21.11.2008 18:21

Vélarvana bátur.


Sæl verið þið öll. Nei ég er ekki að tala um þjóðarskútuna. En ég horfði í gær á rétt fyrir myrkur 180 tonna bát veltast um vélarvana hér fyrir sunnan okkur. Reyndar var sagt að hann væri út af Sandvík á Reykjanesi og það getur alveg passað því þetta var suður af Stafnesi..(veit ekki hvað langt)..Svo kom skari af bátum á svæðið og inn í myrkrið var allt uppljómað. Svo þetta fór allt vel. En svo skrítið sem það var átti þessi bátur í vandræðum með vélina annan daginn í röð. Segir kannski að einhverjir séu að verða blankir eða hvað..

En að öðru. Þessa daga eru Fúsamenn að vinna í Hvalfirði og munu gera það sleitulaust allavega fram á þriðjudag. Þeir eru þar að vinna við tanka hjá Skeljungi. Í gær kom Gunni ekki heim fyrr en klukkan tíu.. Auðvitað dauðþreyttur og lurkum laminn. Ég er alltaf að reyna að segja honum að hann sé ekki lengur tvítugur heldur sextugur!! En þeir eru aðeins þrír og þurfa allar hendur. Ég slepp við þessvegna að elda fyrir þá þessa daga. Held að þeir séu á einhverju sjoppufæði þarna uppfrá. En það styttist í afmælisferðina og gott að geta hvílt sig þá í öðru umhverfi (og helst ekki með síma)

Í dag fór ég í búðarferð með mömmu og tengdó. Það gekk bara ágætlega. En þegar ég kom hér heim sá ég að buddan hennar tengdamömmu lá í framsætinu með lyklunum að íbúðinni og ýmsu. Ég hringdi í mömmu og hún komst að því að sú gamla sæti í næstu íbúð leitandi að lyklunum.. Jæja ég fór í hvelli og hún komst til síns heima. Sagðist aldrei ætla að læsa meir!

En nú fer að líða að fréttum og ég ætla að láta þetta duga í bili.
Góðar kveðjur úr Heiðarbæ. 

17.11.2008 22:35

Hvalsnessókn.


 Stutt kvöldblogg!
 
Var áðan á aðalsafnaðarnefndarfundi..Vá langt orð. En þetta var tveggja tíma fundur og bara fínn. Ekki margt fólk en fínn samt. Það er margt um að vera í safnaðarstarfinu nú um þessar mundir. Það veitir ekki af að létta fólki áhyggjurnar með samverustundum og fleiru. Kirkjan og bæjarfélagið eru með fundaröð um allavega efni tengt ástandinu og á fimmtudaginn 27.nóvember verður fundur um fjármál og hugmyndin er að hafa eitthvað að borða...súpu og fleira.

En annars er allt ágætt að frétta. Það styttist í afmælisferðina og ég vona að það verði hvíld frá argaþrasinu. Ég fer í sjúkraþjálfun í fyrramálið kl.9.30 og ætla þessvegna ekki að blogga meira núna. Koma mér í háttinn svo það verði tími fyrir kaffisopa og lesa fréttir áður en ég fer. Það er nú reyndar netlestur...

Hafið það gott nær og fjær.
Kveðja úr Heiðarbæ.


14.11.2008 22:39

Föstudagur.

emoticon
Gott kvöld. Þá er aftur komin helgi. Tíminn flýgur. Ég var að elda fyrir karlana mína í Fúsa eins og flesta daga síðustu vikur. Svo kom Bjössi aðeins við og hann fékk afganga af kubbasteik. Síminn var bilaður og Veðurstofan hafði samband við hann vegna tölvunnar (eða jarðskjálftamælinum) sem dettur út eins og netið. Það er nefnilega það.emoticon.Fyrir ykkur sem vitið ekki er jarðskjálftamælir hér rétt fyrir ofan húsið. Síminn eða Lína eins og það heitir var óvenju fljótur að koma símastrengnum í lag. Síðast tók það marga daga. Það var eins gott því ef ég hef ekki tölvuna finnst mér mikið vanta. Les fréttirnar og skoða bloggið. Maður getur vanið sig á margt!

Lilla vinkona var að fara heim rétt áðan. Hún kom eftir vinnu og var í mat hjá okkur. Svo vorum við búnar að sitja og spjalla í yfir þrjá klukkutíma. Ég labbaði með henni niður að bíl og tók voffana í leiðinni í svefnplássið. Þeir sofa alltaf í kjallaranum og eru held ég bara sáttir við það. Það er komin smá snjóföl og aðeins tekið að hvessa en annars er þetta bara fínt haustveður sem við höfum haft undanfarið. Það hefur verið frekar milt.

En ég er að hugsa um að fara bara snemma að sofa þetta föstudagskvöld. Núna er klukkan bara sex í Epplagötu (ellefu hér) og sennilega bara aðeins tekið að skyggja..Ekki rétt Epplagötugengi? Annars var ég í sms við Maddý í dag og þar er allt í góðu.

Og ég ætla ekki að minnast á k-fréttir nóg af þeim á öðrum síðum. Hafið það sem best um helgina, hugsið vel um hvort annað , góða nótt og sofið rótt.
Kveðja úr Heiðarbæ.
Silla.emoticon

 

09.11.2008 21:25

Ísland í dag.

emoticon
Hæ hæ. Það gengur mikið á hjá okkur Íslendingum. Á hverjum degi fáum við fréttir af allavega spillingu eða ráðleysi. Já ráðleysið og dáðleysið virðist algjört og litlar upplýsingar sem við fólkið sem byggir þetta land fær. Ég held að þetta sé alltaf að versna. En þrátt fyrir það verðum við að halda ró okkar enda lítið að gera annað en vona það besta. Og vera góð hvort við annað.

Við erum komin áratugi aftur í tímann og gjaldeyrisflæði milli landa er í molum. Fyrirtæki með fiskútflutning fá ekki peninga fyrir afurðir sem það hefur sent út. Verst hefur þetta verið í viðskiptum við Bretland. En svo er gjaldeyrir líka skammtaður. Ef fólk eins og við sem fyrir löngu höfum borgað ferð (afmælisgjöfin) ja þá þurfum við að sýna farseðil til að fá fimmtíu þúsund! Í dollurum nú ca 380.emoticon Í dönskum krónum 2.300 kr. Það er svo sem gott að reyna að spara þá daga sem fólk er erlendis EN! Og að nota kretitkort er auðvitað ávísun á eitthvað óþekkt. Við höfum áhyggjur af námsfjölskyldunni í Danmörku en vonum það besta. En við höfum verið í sambandi við þau undanfarið og einhvernveginn blessast þetta..

En um helgina voru næturgestir í Heiðarbæ og nóg að gera. Linda kom og gisti aðfaranótt laugardags. Jón vildi endilega að hún tæki smá frí. Júlía Linda er búin að vera erfið um nætur og það var æðislegt fyrir mömmuna að fá að sofa heila nótt og hvíla sig. Svo sl.nótt gistu bræðurnir Garðar Ingi og Vilmundur Árni ásamt Jóhanni Sveinbirni frænda sínum. Alltaf fjör að gista í sveitinni.

Í dag fór ég svo og náði í mömmu og við kíktum við hjá Sigga Eiríks í Norðurkoti. Þar vorum við boðnar í kaffi og spjall! Svo fór mamma til Bjössa og svo komu þau í mat í Heiðarbæ. Lambalifur úr Bónus og kartöflur úr Nýlendugörðum. Umm..nammi.

En annað hef ég ekki í kollinum í bili annað en bara blíðuveður marga síðustu daga.
Kveðjur til ykkar allra.
Silla.emoticon

04.11.2008 19:10

Helst í fréttum!


Komið þið sæl.emoticon
Það er nú ekkert helst í fréttum. Ég var bara að gera ykkur forvitin. Í dag var ég að elda fyrir Fúsana mína og einnig í gær. Nú eru þeir komnir að mestu heim og búnir uppi í Búrfelli. Svo þá er ég komin í gírinn í að finna eitthvað handa þeim í gogginn. 

Ég var líka að passa fyrir Lindu í dag. Og Júlía litla brosti og hló. Mér skilst samt að hún sé ekki eins brosmild um nætur núna. Hún er líklega að taka tennur blessunin. Svo var Fluga að leika sér við okkur og Júlía fékk hiksta af hlátri..Fluga er labradorhundur Jóns og Lindu.

Við Konný skruppum í VSFK og spurðum um réttindi fólks í uppsögnum..Og það var sem mig grunaði..Það er ólögmætt að segja upp ófrískri konu nema að um hópuppsögn sé um að ræða. Það var ekki í þessu tilfelli og reyndar var hún með lengstan starfsaldur af þeim þrem sem vinna saman þarna. En nú er Konný orðin svo sár að ég veit ekki hvað hún gerir. Hættir líklega um leið og núverandi uppsögn tekur gildi. Reynir að gera gott úr hlutunum.

En annars er allt gott að frétta. Reyndar utan vandræðaástandsins í efnahagsmálum sem er bara mannskemmandi að blogga um. Alltaf eitthvað nýtt í fréttum á hverjum degi, annað en einhverjar aðgerðir sem stjórnvöld virðast ekki hafa mikið af...Því miður. Það er slæmt að ekkert eða lítið sé að gerast til styrkingar í þessum þrengingum.

En ég frétti að David og Stacey hafi komið í heimsókn í Epplagötu og það hafi verið fjör á bæ. Það styttist í að afmælisbarnið fari í heimsókn (ég fæ að fljóta með) þangað og þá verður aftur fjöremoticon ...En nú eru þau í miðjum forsetakosningum. Ekki fá þau að kjósa. En Dísa og co reyndar. Það hlýtur að vera spennandi að fylgjast með þarna úti. Það er eins og þetta sé okkar annað föðurland svo mikið sem við erum búin að vera í USA..En nei við verðum að treysta því að það verði lífvænlegt á Íslandi í framtíðinni þrátt fyrir allt.

Að lokum ..Bestu kveðjur til ykkar úr Heiðarbæ..emoticon


  • 1
Flettingar í dag: 143
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 74
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 124538
Samtals gestir: 26580
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 06:01:40