22.04.2007 20:24

Kosningar framundan.


Jæja ég hef ekki verið á pólitísku nótunum í eigin spjalli. Kannski búin að fá nóg eftir sextán ára þátttöku í stjórnmálum. En áhuginn hverfur ekki svo glatt.

 Ég hef verið að skrifa mín álit á greinar hjá Sigga Jóns fyrrverandi sveitarstjóra í Garðinum. Mér finnst hann oftast mjög málefnalegur og vissulega trúr sinni stefnu, sjálfstæðisstefnunni. En ég hef alltaf talið mig jafnaðarmann og var einn af stofnendum Samfylkingarinnar hér um árið. Ég hef reyndar verið svolítið misánægð með málflutning þeirra í Samfylkingunni. Flest er samt að mínu skapi. En þeir þingmenn sem ég hef kynnst best eru að hætta á þingi og það finnst mér miður.
 
Þar vil ég helst nefna Rannveigu Guðmundsdóttir sem ég kynntist fyrst sem Félagsmálaráðherra. Það vildi ég óska að hún hefði fengið lengra umboð til þeirra starfa. Þar fer kona með bæði gott hjarta og eldklár. Svo kynntist ég Margréti Frímannsdóttur. Alveg frábær og ef þið ekki þekkið til hennar þá skal ég segja ykkur að hún er bara einstök. Lesið bókina hennar sem kom út fyrir jólin ef þið viljið fræðast meira um konuna.


En víða út á landi eru ekki alltaf hrein framboð einhverra ákveðinna landsmálaflokka í sveitarstjórnarkosningum. Það er þannig hér í Sandgerði. Svo ég ætla aðeins að koma inn á þau fyrirbæri. Hjá okkur hér hefur K-listinn alltaf frá upphafi 1966 verið talinn málsvari jafnaðarmanna þó svo að innan hans væru óháðir, sem í raun voru á sömu nótum. Svo þegar ég byrjaði að taka sjálf þátt árið 1990 sem fimmti maður á lista flokksins þá kynntist ég betur flokksstarfinu sem samt var á landsvísu kennt við Alþýðuflokkinn.

 
Seinna, löngu seinna, var Samfylkingin stofnuð og þá óhjákvæmilega þurfti að stofna ný félög í sveitarfélugunum um nýja jafnaðarmannaflokkinn. Ég beitti mér mikið fyrir stofnun Samfylkingarinnar í Sandgerði og var þá ekki í vafa um að þar væri vettvangur fyrir fólkið mitt úr K-listanum. Var reyndar fyrsti formaður félagsins. En fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar kom í ljós að ekki var eining um að S-listi yrði sameinaður hinum rótgróna K-lista. Í bæjarmálunum hafði Káið verið mitt og á endasprettinum fékk því ekkert breytt. Einfalt mál.


Svo að á K-listanum var mitt 14 sæti í síðustu bæjarstjórnarkosningum og ég er sátt. En það er annað sem ég var ekki sátt við. Það var framganga forystumanna Samfylkingarinnar gagnvart okkur á K-listanum. Og ég veit að ég tala fyrir hönd fjölmargra okkar K-listamanna sem hafa á landsvísu stutt Samfylkinguna.


Og því miður held ég að það teygi anga sína til þessarra Alþingiskosninga..Það hefði verið í góðu lagi að heimsækja K-listann fyrir ári, ræða málin og leggja inn. En, nei það var of hættulegt og þar með var eingöngu farið í vitjun til framboðs S-listans. Af því sýpur Samfylkingin mín kannski seyðið. Vona innilega að það verði ekki. Kveðja til ykkar sem nenntu að lesa þetta..

Silla.
Flettingar í dag: 566
Gestir í dag: 86
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 192031
Samtals gestir: 37159
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:45:54