26.04.2007 22:18
Fúsi ehf.

Já á þessu bloggi mínu hef ég annað slagið verið að tala um vinnuna eða Fúsa ehf. Ég ætla núna að segja ykkur aðeins út á hvað það gengur. Fyrirtækið var stofnað fyrir rúmum tveimur árum og er staðsett að Strandgötu 20 í Sandgerði. Eigendur eru hjónin Sigfús og Erla Jóna og Gunni. Húsnæðið var keypt af Degi Ingimundarsyni og þar var áður fiskverkun Arneyjar. Hann er búin að reynast þeim mjög góður og þau hlusta eftir hans ráðleggingum. Og búið er að ákveða að reisa sandblásturshús og málningarklefa. Megin verkefni Fúsa ehf er sandblástur og málning en eftir að það sameinaðist Sértak ehf (Fyrirtækið okkar Gunna) um síðustu áramót hefur verið farið aðeins út í húsbyggingar. Sérstaklega var það hugsað til að fylla upp í auða tíma.
Þeir tímar reyndust svo aldrei miklir og mörg verkefni stór og smá verið hjá fyrirtækinu. Að jafnaði starfa fjórir til fimm hjá okkur en í vetur voru feðgarnir einir um tíma. Þá tel ég ekki okkur Erlu með. En það ætti í raun að gera. Ég sé um að elda fyrir þá og Erla er forkur dugleg og tekur miklar syrpur í að laga til. Svo er hún nokkurskonar bakarameistari..En ef við förum út í titlana þá er Erla forstjóri fyrirtækisins Sigfús framkvæmdastjóri og Gunni stjórnarformaður, jamm.
Einnig hefur hún verið að passa upp á bókhaldið. En Bókhaldsþjónusta Suðurnesja sér um aðalbókhald. En Erla er nýbúin að fara í Tölvuskóla svo kannski kemur að því að hún taki þetta að sér með tímanum. En hún vinnur í Grunnskólanum sem skólaliði (stuðningsfulltrúi) að aðalstarfi.
Núna eru Fúsi og co að ljúka við verkefni fyrir Landsvirkjun sem er búið að taka ca 6 vikur. Og í dag var verið að flytja upp í Steingrímsstöð stærstu einstöku hlutina. Lok á einhverja risatúrbínu. Bara sem dæmi þá var hvor hlutur rúmlega NÍU tonn, segi og skrifa níu tonn. Og það þurfti aflmikinn krana og treiler til flutninganna. Ég horfði á aðgerðirnar út um gluggann og var hálfstressuð. Vissi að ekkert mætti fara úrskeiðis. En allt tókst þetta og það var mikið spennufall hjá Fúsa, Gunna og Gumma þegar allt var komið á bílinn og njörvað niður. Úff.
En svo er unnið á hinum vígstöðvunum í húsinu við Ásabraut sem er alveg að verða fokhelt..Það er verið að ljúka við þakið. Reyndar er járnið ekki komið á en allt er þetta mikil vinna. En húsið er að taka á sig mynd þó mikið eigi eftir að breyta útlitinu. Það á eftir að klæða gaflana með liggjandi stáli og síðan verður gengið frá innkeyrslum ofl. En reyndar er ekkert farið að spá í sölumál. Það birtist sölumaður og vildi taka þá hlið að sér en það einfaldlega hefur ekki gefist tími í það ennþá. Hvert hús er 156 fm með bílskúr. Ég myndi segja fín stærð. Jæja ætli ég láti þetta ekki duga í bili. Góða nótt.
Sofið rótt í alla nótt..
Flettingar í dag: 566
Gestir í dag: 86
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 192031
Samtals gestir: 37159
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:45:54