22.06.2007 09:17

Rútuferðin í maí....


Hæ allir. Ég átti alltaf eftir að segja ykkur frá rútuferðinni þegar bandaríkjamennirnir voru hjá okkur. Það var mjög gaman og mikill brandari í sjálfu sér. Við lögðum af stað héðan úr Stafneshverfinu að morgni 22.maí kl.8. Ég var búin að tala við Sævar sem á rútur um að fá leigðan 20 manna bíl. Það var allt í góðu en ég sagði honum þó að kannski værum við bara 17. Það væri bara fínt að hans sögn, þá væri nóg pláss. Á síðasta degi vorum við orðin 19 og ég var ekkert að tilkynna það..nóg pláss. En kemur ekki Árni bílstjóri á 17 manna rútu..ææ ekki var hægt að skilja neinn eftir svo Sæsi hafði snarar hendur og reddaði 20 manna rútunni í Sandgerði. Það var sem sagt bíll nr. 2. Í honum vorum við í góðu yfirlæti, fórum alla leið í Jökulsárlón og flestir fóru í siglingu milli jakanna. Þvílík upplifun fyrir útlendingana og svo voru selir á mörgum jakanna sem skemmdi ekki fyrir.

Við ókum svo með stoppum að Lambafelli undir Eyjafjöllum. Þar hefur Þorsteinn Njálsson læknir komið sér upp gistihúsi sem hann flutti frá Hafnarfirði og heitir nú Edinborg. Skemmtilegt framtak hjá honum.Þetta var skátaheimilið í Hafnarfirði og Gunni og margir verið þar viðloðandi sem krakkar. Og ekki skemmdi fyrir að móðurfólk Maddýar sem auðvitað var með bjó á Lambafelli og hún þekkti alla staðhætti. Þarna fór aldeilis vel um okkur og grillað og fl. Næsta morgun fórum við 5 km. til baka að Skógarfossi og svo lá leiðin að Seljalandsfossi þar sem margir fóru á bak við fossinn (ekki ég) og þótti mikið fjör. Bílstjórinn, gamalreyndur kappi sagði okkur allt mögulegt á leiðinni bæði um landið og var þar að auki mikill brandarakarl með góða enskukunnáttu.

En nú byrjaði ballið. Á miðri leið að Hvolsvelli byrjaði rútugreyið að væla í orðsins fyllstu merkingu. Sennilega orðin leið á okkur ha ha. En við komumst á Hvolsvöll og STOPP. Biluð... Þá var kl. 12 á hádegi svo við fórum bara í sjoppuna og fólk fékk sér snarl. Labbaði um í góða veðrinu sem hafði sem betur fer fylgt okkur alla ferðina með smá ívafi. En Sæsi hafði nóg að gera að reyna að redda okkur og kl. 2. kom svo skólarúta sem var að enda við að fara með börnin heim úr skólanum. Rúta nr. 3..Sá bílstjóri fór með okkur þennan hefðbundna hring Geysir, Gullfoss, Laugarvatn og Þingvellir.
 
Svo voru Gunni og Maddý búin að panta fyrir hópinn mat í Fjöruborðinu á Stokkseyri. Það var sérstök upplifun fyrir flesta. Borða humar og brjóta sjálf. Þetta var góð stund og svo var rúta frá Sæsa mætt til að koma okkur heim. Rúta nr.4 !!! Og hún var að minnsta kosti 40 manna og mikið hlegið á heimleið og sungið. Við gerðum stuttan stans við Hafið bláa og þar fóru gestirnir okkar niður í fjöru til að skoða svartan sand! Ja hér.Við sem höfum hann allstaðar.. 

Nú gekk allt eins og í sögu Maddý og Gísla skilað í Reykjavík og svo átti að skila Konný og co í Sandgerði. Þegar hún var farin inn kl. orðin 23.30 viti menn rútan komst ekki í afturábakgír. Við lágum í hláturskasti aftur í en einhvernvegin tókst að láta hana komast frá staðnum og hingað út á Stafnes. Farangur tekinn úr bílnum og svo fór bílstjórinn út á endastöð við V. Stafnes.. En nei hann gat ekki bakkað!!!! Og karlmennirnir í hópnum tóku sig þá til og ýttu henni.. ekki djók.
 
Og ég hitti bílstjórann daginn eftir og það var ekkert að bílnum.. Hvað.. var einhver að stríða okkur? Vorum við ekki búin að hlægja nóg? En þetta var frábær ferð kannski ekki fyrir aumingja Sævar að lenda í þessu en svona er að vera með rekstur.. Og þessi ferð gengur síðan undir nafninu the best, The four bus trip.
 Mig langaði bara leyfa ykkur að deila þessari skemmtun með mér. Kveðja Silla.



Flettingar í dag: 453
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 191918
Samtals gestir: 37130
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:24:52