21.07.2007 20:48

Sumarkvöld...


Það tosast áfram sumarið og ekki getum við núna kvartað yfir því. Í rigningunni er meira segja næstum logn og sól á milli. Ég baðaði Týru áðan og hún var nú ekki par ánægð með mig. En það þurfti og hvolparnir dafna mjög vel. Til að aðgreina þá hef ég gefið þeim nöfn sem þeir hafa allavega fyrst um sinn. Þau eru Agnarögn, Victoría, Frekja, Steinka, Snúlli og Snati. Nú eru þeir farnir að líta í kring um sig og horfa á mann litlu skinnin.

Ég var að taka aðeins til hér í kring í dag og líka fyrir ofan garðana. Það leynist ýmislegt rusl hér og þar. Svo var farin ruslaferð og gott að losna við þó þetta. En vinnan er ótæmandi við að byggja upp og snyrta og gott að taka svona hænuskref í þeim efnum.

Ég var með pistil á 245.is á fimmtudaginn og var byrjandinn. Þankabrot heitir þetta hjá þeim og ég held að þetta eigi eftir að verða góður, fastur punktur. Sá sem skrifar skorar á einhvern að skrifa næst og svo koll af kolli. Bara gaman að þessu.

Ég fór með Jóhönnu í bæinn í morgun. Hún var að fara í æðahnútaaðgerð sem reyndist heilmikil. Sex hnútar, svo það er ekki gaman hjá henni núna. En Konný sótti hana og hún er komin heim. Vilmundur er hjá pabba sínum þar til á morgun sem betur fer þegar svona stendur á. Ástrós kom heim frá Danmörku í morgun svo hún hjálpar mömmu sinni. Hún er mjög dugleg, allavega þegar hún vill. Svo er Garðar Ingi það líka og orðinn svo stór. Tíu ára!

Jæja ég ætla bara að vera löt í kvöld og taka daginn frekar snemma á morgun. Hafið það nú gott um helgina. Bestu kveðjur til ykkar allra sem nenntuð að lesa...

 

Flettingar í dag: 298
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 191763
Samtals gestir: 37116
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:03:51