03.09.2007 21:43
Rok.

Það er hávaðarok í Stafneshverfinu þessa stundina. Dótið mitt á pallinum var farið að fjúka og ég dreif mig út til að bjarga því. Reyndar er ekki hundi út sigandi. Týra vildi endilega kíkja en var fljót inn aftur. Svo fylgja þessu þvílíkar skúrir á milli. Vona að veðrið verði skárra á morgun að ég tali ekki um laugardaginn. En það má víst búast við allavega veðri á þessum tíma.
Ég fór með Tátu litlu í Reykjavík á nýja heimilið. Þar verður sko örugglega hugsað vel um hana. Meira segja búið að finna vekjaraklukku (tikk takk eins og hjartsláttur) og hitapoka til að gera henni lífið létt. En hún skældi svolítið á leiðinni inneftir en ég veit að hún hætti því fljótt. Brúnó tekur Jóhönnu traustataki og Snati fylgir Guðbjörgu hvert fótmál. Svo nú eru þær þrjár eftir hér í Heiðarbænum smátíma í viðbót.
Ég var á fundi áðan í Verkalýðsfélaginu. Það eru einu fundirnir sem ég fer á núna. Þetta er mikil breyting frá því að ég var í bæjarstjórninni. Því fylgir bæði léttir og pínulítil eftirsjá. En mér finnst gott að vinna með stjórninni í V.S.F.K. Það er mikill áhugi á að reyna að bæta kjör og aðstöðu en það eru nú ansi fáir sem mæta á félagsfundi (þetta var reyndar stjórnarfundur). Það mætti lagast því þar getur fólk komið á framfæri málum sem þvi finnst fara miður ofl.
Nú eru fjórir dagar í giftingu hjá Lindu og Jóni og nóg að snúast hjá þeim og fleirum. David og Jennifer systir hans koma á miðvikudagskvöldið. Eiríkur mætir á fimmtudag frá Danaveldi. Dúna kemur að norðan á föstudag. Svo þetta fer að smella allt saman.
Segi þetta gott í bili...góðar stundir.

Flettingar í dag: 298
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 191763
Samtals gestir: 37116
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:03:51