09.11.2007 10:49
Frændsemi.

Ég á stóran hóp frændfólks. Sérstaklega af náskyldu föðurfólki. Átta voru þau systkynin pabbamegin sem lifðu til fullorðinsára. Aftur á móti er mamma einbirni.Og við erum því stór hópur systkinabarna í föðurætt.
Eina frænku kveð ég í dag, Huldu Reynhlíð. Hún var 26 árum eldri en ég og það er skiljanlegur aldursmunur því Jóna móðir hennar var elst systkinanna frá Hólakoti (í Stafneshverfi) eins og þau voru oft kölluð en pabbi næstyngstur. Auk þess var pabbi orðinn 32 ára þegar ég fæddist.
Svo í dag erum við að fara í jarðarför í Reykjavík. Benni frændi ætlar að koma með mér og auðvitað mamma. Þær voru ekki á svo ólíkum aldri. Þó er mamma yngri. Þegar við Gunni bjuggum í Vestmannaeyjum (1972-73) þar sem Hulda var uppalin hafði hún flutt upp á land eins og kallað er. Veit að flestir eldri Eyjabúar kannast við hana sem Huldu í Mjólkurbúðinni! Hress kona.
En annars er allt gott að frétta héðan úr blíðunni í Stafneshverfinu. Rólegt og fínt. Lolli í Bala farinn í Kópavoginn þar sem hann dvelur yfir háveturinn. Elín Bjössadóttir er búin að fá íbúð í Njarðvík og farin úr skúrnum. Gott mál því þó góður sé (skúrinn) þá er hann kannski ekki endilega barnvænn.
En Ísar býr hjá Bjössa núna. Svo í hverfinu búa núna sjö, hvað eigum við að segja..hræður..hm. Einhvern tíma hefur nú verið fjölmennara. Það þarf ekki að horfa lengra en til minna uppeldisára. Þá hafa líklega verið hér hátt í þrjátíu manns. Og ef ég fer aftur um 100 til 200 ár þá voru yfir hundrað bæir og kot hér!!!
En það var þá. Núna eru tímarnir breyttir og kannski bara skrítið fólk eins og við sem búum hér og kunnum svona vel við rólegheitin. Ekki má þó gleyma þeim mörgu sem koma um hverja helgi í bústaðina sína þó þau búi annarstaðar.
Læt þetta duga í bili af ættfræði og öðru.
Kveðja Silla.

Flettingar í dag: 453
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 191918
Samtals gestir: 37130
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:24:52