21.11.2007 10:27
Uppeldi.

Það er eitt sem alltaf verður til. Uppeldi barna


Af og til verður manni hugsað til þess hvað mótaði mann mest í uppeldinu. Mamma og pabbi áttu þar stærstan þátt að sjálfsögðu. Þar var kjölfestan.
En aðrir höfðu áhrif líka. Afi Arnbjörn var mikill íslenskumaður og vildi að við töluðum rétt. Alltaf að leiðrétta mann sem var kannski ekki þakkað fyrr en seinna! Og svo voru það fréttatímarnir sem ég hef sagt frá áður. Allir áttu að hafa hljótt meðan fullorðna fólkið hlustaði. Kannski er ég svona mikill fréttafíkill síðan?
Amma mín Guðrún var mikil alþýðukona. Ég meina Alþýðuflokkskona-krati. Örugglega hefur eitthvað síast þar inn án þess að maður tæki eftir og mótað pólitískt viðhorf seinna. En af því ég ætla ekki að tala um pólitík á síðunni minni þá læt ég þetta verða lokaorðin í því...Lífið er samt allt ein pólitík.

Aðrir sem maður hugsar hlýtt til frá æskuárum og seinna er Stefanía á Stafnesi. Hún fylgdist með manni og öllum afkomendum sem sínum eigin. Mjög ættrækin og elskuleg. Gunna í Bala er líka kona sem er stór mynd í barnæskunni og var góð kona. Ég veit að ekki síður yngri systur mínar fóru ófáar ferðirnar á þessa staði í heimsóknir.
Anna frænka mín á V.Stafnesi var líka hlý kona og mjög iðin. Fór meira að segja í kartöflugarðana meðan heilsan entist henni. Svona gæti ég haldið lengi áfram. Þetta kom í hugann af því ég var að hugsa um barnabarn í gær og maður skyldi ekki gleyma að börn muna marga hluti.
En ætli ég láti þetta ekki duga af hugleiðingum um gamla og nýja daga í bili.
Kveðja Silla.

Flettingar í dag: 453
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 191918
Samtals gestir: 37130
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:24:52