30.12.2007 17:30

Árið 2007 senn á enda.



Heil og sæl. Nú er árið senn á enda. Næst síðasti dagurinn í dag. Þetta er búið að vera viðburðaríkt ár hjá okkur. Flutt í Heiðarbæ, yngsta barnið hún Linda gifti sig, David og Stacey giftu sig líka í Hvalsneskirkju, við gömlu áttum 40 ára brúðkaupsafmæli, ég komin á ææ sjötugsaldurinn. Skrítið, finnst ykkur það ekki líka? Ha ha.

Svo fórum við í lengra ferðalag en við höfum áður farið. Allt til Kanada og niður til Flórida. Svo ekki þurfum við að kvarta yfir tilbreytingarsnauðu ári. Aldeilis ekki. Þetta hefur að flestu leyti verið gott ár. En alltaf um áramót hugsar maður bæði aftur og ekki síst fram á við. Því vissulega má margt bæta.

Við skelltum okkur á hjónaball í gærkvöld. Fórum fyrst til Sólrúnar og Óskars og síðan saman upp í Samkomuhús. Maður var nú svolítið að spá í því fyrirfram hvort við værum ekki eins og öldungar í hópnum. En þetta var fólk á öllum aldri eins og best er á kosið og fullt hús. Við gengum í hjónaklúbbinn árið sem hann var stofnaður. Ég held 1973.

Maður hitta þarna marga sem maður hafði ekki séð lengi. Það var sko reglulegt fjör. Ég hef kannski innbyrgt fullmikinn vökva. Var örlítið þreytt í dag!! Allavega finnst mér nóg komið að sinni! En þetta var gaman og Bjössi bróðir skutlaði okkur heim tímanlega. Ég talaði við Gullu og Ævar. Þau ætla að taka smá pakka fyrir mig til Mumma. Bara svona að gamni. Þau eru að fara út til hans í Sívætlu 10.janúar.

Annað kvöld, Gamlárskvöld ætlum við að vera í mat hjá Fúsa og Erlu Jónu. En mig langar að vera komin heim fyrir Skaupið því nú sjáum við loks vel alla sjónvarpsdagskrána. En það er nú notalegt að þurfa ekki að elda..og vera með allavega hluta af fjölskyldunni síðasta kvöld ársins.

En ég ætla að enda bloggið mitt þetta árið núna og vitna í bók sem ég fékk í jólagjöf. Þar er vitnað í marga fræga húmorista frá ýmsum tímum. Winston Churchill sagði..Svartsýnismenn sjá vandamál í hverju tækifæri... Bjartsýnismenn sjá tækifæri í hverju vandamáli. Er þetta ekki bara fínt inn í nýja árið. Og endilega verum bjartsýn.

Gleðilegt nýtt ár og kærar þakkir til ykkar sem nennt hafið að kíkja á skrifin mín.
Silla í Heiðarbæ.

Flettingar í dag: 566
Gestir í dag: 86
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 192031
Samtals gestir: 37159
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:45:54