03.01.2008 18:04
Neytendasljóir Íslendingar.

Ég var að hlusta á útvarpið í dag og heyrði í fréttunum sagt frá doktorsritgerð í markaðsfræði. Það var Valdimar Sigurðsson adjunkt við Háskólann í Reykjavík sem varði ritgerðina. Það var viðtal við hann og ég varð smá hugsi.
Hann segir að verð og verðlækkanir hafi ekki áhrif á sölu á vissum tilteknum vörum sem hann rannsakaði..Meira að segja í sumum tilfellum hafi það slæm áhrif að lækka t.d hársnyrtivörur.. Hann segir Íslendinga skera sig úr á þessu sviði. Og aðspurður tók hann undir það að við værum neytendasljó þjóð Íslendingar.
Þá vitum við það. Og kannski vissum við það. Íslendingar kunna ekki að standa saman til að mótmæla verðhækkunum. Eins og tildæmis bensíni og olíu hvað þá aðalnauðsynjununum matvörunni. Í löndunum í kring um okkur heyrum við af fólki sem fer bara í stræk og hundsar vöruna. En maður spyr sjálfan sig. Getum við hætt að kaupa t.d mat og eldsneyti?
En það er aðeins annars eðlis og alvarlegra ef það er rétt að við bara kaupum og lítum ekki á verðið. Ég gæti trúað að þetta hafi ágerst með tímanum hjá okkur. Það verða allir að vinna svo mikið og eru á hlaupum við að versla. En eitthvað hlýtur þetta að vera misjafnt. Fólk myndi ekki flykkjast í lágvöruverslanirnar og bera saman við hinar ef þetta væri algilt.
Ég sjálf hef meiri tíma en oft áður og kíki oftast (ææ) á verðið. En í gamla daga þegar ég var heimavinnandi með fullt hús af krökkum, þá held ég að ég hafi verið best vakandi. Og þurfti að vera það. En þetta er umhugsunarefni og ætti að hvetja okkur til að staldra við.
Kaupa kaupa..Mér varð hugsað til okkar hjúanna sem létu ekki nægja eitt skrifborð á dögunum. Þau urðu að vera tvö.

En ég er með bók á náttborðinu, Sögur úr Síðunni eftir Böðvar Guðmundsson og þar er talað um hversu miklu við söfnum að okkur um ævina og hvað það skilur lítið eftir. Það er svo kannski annað mál og þó, þessi höfundur er mjög góður. Skrifaði líka bækurnar Híbýli vindanna (Ísland) og Lífsins tré. Frábærar bækur um Vesturfarana á nítjándu öld.
Nóg af svona þönkum í bili. Allt annars gott að frétta úr Heiðarbænum. Vindur úti....
Hafið það gott öllsömul.
Ykkar Silla.

Flettingar í dag: 453
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 191918
Samtals gestir: 37130
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:24:52