05.01.2008 19:47

ELG og Stafnesbrenna.


Sæl öll. Ég fór á ljósmyndasýningu í Salthúsinu í Grindavík í dag. Ekkert smá flottar myndir. Það var vinur minn Ellert Grétarsson sem var að sýna hluta af myndum sem hann hefur tekið sl. þrjú ár. Ég er með tengil á siðunni minni ef þið hafið áhuga á að skoða myndir eftir hann.

Reyndar eru ekki allar myndir sem voru á sýningunni þar en sumar þó. Mér finnst hann hljóti að vera orðinn fremstur meðal ljósmyndara í náttúrulífsmyndum á landinu og þótt víðar væri leitað. Ég á tvær myndir eftir hann á veggjunum hér í Heiðarbæ. Ef veggjaplássið væri meira er aldrei að vita hvort ég hefði freistast!! Þetta var sölusýning og mjög mikið fjölmenni.

En við hér í Stafneshverfinu höfum haft þann sið að kveikja í brennu um þrettándann. Það er ekki síst Maddý sem hefur verið driffjöðurin í því. Og líka Bjössi. Við bara fórum til að horfa og hitta fólkið. Þeir kveiktu kl. fimm og það var fínt veður..trúið þið því? Bara hægur vindur af norðri og góðar aðstæður til brennuhalds.

Ég held að við höfum verið vel yfir tuttugu manns þarna að horfa með blys og skjóta upp flugeldum. Bjössi var á staðnum með einhverjum af sínum mannskap og myndavélina. Svo það er öruggt að ef þið kíkið inn á síðuna hans þá sjáið þið einhverjar grýlumyndir!!
Er ekki Grýla að fara til fjalla um þessar mundir..

Hadda mamma hennar Hrefnu var jörðuð í gær. Þvílíkt hvað þau gerðu þetta vel systkinin. Og við erfidrykkjuna var spiluð harmonikutónlist. Hún hafði yndi af tónlist og mér finnst að fleiri mættu taka þetta sér til eftirbreytni. Ekkert vol og víl!

Það var gestkvæmt í gærkvöld í Heiðarbænum. Við vorum með þá bræður Vilmund og Garðar ásamt Brúnó hjá okkur fram eftir kvöldi og svo komu Hilmar og Gugga með barnahópinn sinn í heimsókn. Með þeim var nýja mamma hans Snata sem nú heitir Bassi og auðvitað prinsinn sjálfur líka. Held bara að hann hafi þekkt mig. Ætlaði allavega að éta mig. Honum líður greinilega vel hjá nýju fóstrunni sem heitir Elisabet Mary og er dóttir hennar Anfri. Og hún er konan hans Ebba.

Þegar þau voru nýfarin komu nágrannahjónin Maddý og Gísli úr Glaumbæ. Við sátum og spjölluðum fram eftir nóttu. Sumir sifjaðir í morgun..ææ en Gunni fór í vinnu um hádegi.

Á eftir ætlum við upp á loft og horfa á brennuna og flugeldasýninguna í Sandgerði. Hlýtur að sjást vel héðan í svona veðri. Gæti verið gaman að sjá þetta frá okkar sjónarhorni hérna. Hafið það sem allra best á þrettándanum sem og alltaf.
Bestu kveðjur Silla.



Flettingar í dag: 566
Gestir í dag: 86
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 192031
Samtals gestir: 37159
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:45:54