07.01.2008 15:04
Venjulegur janúar!

Komið þið sæl. Nú eru jólin endanlega búin og ég er að taka niður jólaskrautið. Í Ameríku er það nú tekið niður á annan í jólum. Ég heyrði það hjá Mumma að það er gert bara strax. En við höldum í dótið þar til á þrettándanum og sumir lengur. Það er nú allt í lagi að lofa einu eða tveim ljósum að loga til að lýsa upp skammdegið.
En við verðum að sætta okkur við að nú er kominn venjulegur janúar. Ég var að elda fyrir strákana í Fúsa og fór svo með Ástrósu til tannlæknis. Það þurfti ekkert að gera við heldur stafaði verkurinn af kvefi! En talandi um hana Ástrósu þá var hún hæst í ensku í bekknum og há í stærðfræði og fær að taka samræmdu prófin í þeim fögum í vor með tíunda bekknum. Hún er í níunda bekk.
Þau fá að gera þetta ef þau eru með yfir níu held ég. Ég er búin að sitja yfir krökkunum sl. tvö ár en ég er ekki viss um hvort þessum prófum verði hætt á næsta ári. Einhverjar breytingar eru í gangi. En það er um að gera fyrir þau sem eru áhugasöm að taka svona próf og sjá hvar þau standa.
Svo er hún komin í Ungliðasveit Björgunarsveitarinnar og segist fíla það í botn. Það hafa nefnilega ekki allir áhuga á íþróttum og gott að geta tekið þátt í öðru uppbyggjandi. Hún sagði mér að hún hefði hjálpað til að festa bát.. Þetta gefur krökkunum svo mikið að fá að taka þátt. Annars er hún líka dugleg að hjálpa mömmu sinni sem vinnur mikið en við höfum reynt að ofgera henni ekki í þeim þættinum.
Jæja nú er Ástrós búin að fá umfjöllun!!! Hvert af barnabörnunum verður næst? Kannski Hljómsveitargæinn minn? Eða einhver þeirra sem búa í Danaveldi? En núna er líklega best að halda áfram við að tína niður jóladótið. Líði ykkur sem best.
Ykkar Silla.

Flettingar í dag: 453
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 191918
Samtals gestir: 37130
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:24:52