19.01.2008 00:03
Bætandi eða bull?
Halló halló. Ég var að koma úr saumó! Eins og ég sagði ykkur þá var saumaklúbbur í kvöld hjá Eydísi. Gómsætt hjá henni að snæða umm. Auðvitað var gaman eins og alltaf. Fjörugar umræður og sagðar sögur. Mín saga var um úrið mitt. Ég segi ykkur hana seinna. Ég hélt á leiðinni inn eftir að ég myndi þurfa á ökuleikninni að halda á heimleið því það skóf dálítið. En það var bara komið logn núna.
Hluti af umræðunni í kvöld var um Blogg. Hvað það stæði fyrir. Væri það bara rugl að vera að þessu bloggi? Skiptar skoðanir voru á því. Við vitum að öll umræða hvort sem hún fer fram á netinu eða heima milli tveggja og fleiri er æði misjöfn.
Sumir eru tölvuvæddir og nota netið mikið eins og ég geri. Aðrir ekki. Einni fannst asnalegt að tala um hvort Gunna eða Jón kæmu í heimsókn. En er það nokkuð verra umræðuefni en hvað annað. Vinir kíkja á síðuna og hafa gaman af. Ekki er nú kannski um leyndarmál að ræða!!!
En kannski tók ég þetta til mín..ha ha. En mig langar að ræða þetta almennt. Hver er tilgangurinn? Hjá sumum er pólitík í aðalhlutverki..Allt í fínu með það en ég er búin með minn skammt þar (Sendi kannski kveðjutón til vinar míns í xD). Aðrir eiga marga ættingja og suma erlendis. Ég er í þeim hópi og fæ jafnt og þétt klapp á bakið fyrir að halda þessu úti.
En það sem mér finnst aðalatriðið er að bloggið sé á góðum nótum. Ekki rætið eða neikvætt. Helst alltaf jákvætt. Ég hef reynt að hafa það þannig ,ná til vina og ættingja og deila með þeim þessu venjulega í lífinu..Helst að þeim líði betur eftir lesturinn. Ég ætla að halda því áfram og á bráðum eins árs bloggafmæli eins og ég sagði ykkur.
Ein góð saga í lokin! Gunni var að fara í vinnuna í fyrradag um hálf átta og ók fram á gamla konu á göngu. Það er nú ekki svo óvenjulegt en hún var ansi sunnarlega. Milli Nesja og Melabergs. Gunni hugsaði. Þetta gamla fólk í morgungöngu og án endurskinsmerkja. En það fór að fara um hann þegar hann sá engan bíl, því fólk leggur oftast bílnum á einhverjum ákveðnum stað og gengur síðan.
Þegar hann var kominn að Hólshúsi snéri hann við. Honum fannst eitthvað skrítið við málið!! Þá var konan komin næstum því að Melabergi. Hún var skjálfandi úr kulda og ekki bráðung! Líklega vel yfir sjötugt. Konan sagði Gunna að hún og maðurinn hennar hefðu farið að biðjast fyrir við kirkjuna á Hvalsnesi og svo hefði bíllin fest sig þar í snjó og maðurinn farið að sækja hjálp. En hún sagði að biðin hefði verið svo löng að hún hefði gengið af stað og var orðin ísköld...
Já þetta líf er margbrotið. Líði ykkur sem best.
Ykkar Silla.