21.01.2008 14:22
Guðrún amma.

Góðan daginn..
Í dag 21. janúar hefði Guðrún Gissurardóttir móðuramma mín orðið 110 ára. Hún fæddist að Gljúfri í Ölfusi árið 1898. Hún var mér fyrirmynd í marga staði og bjó á heimilinu hjá okkur í Nýlendu ásamt afa Arnbirni Guðjónssyni frá því ég var sjö ára. Hún bjó í Hafnarfirði síðustu sextán árin og lést árið 1981. Ég bjó samtímis í sjö ár þar á svipuðum slóðum.
Amma var pólitísk. Mikil Alþýðuflokkskona og ansi ákveðin. Hún sagði alltaf að hún hefði viljað vera fædd strákur því þá hefði hún fengið að læra. Það var nefnilega ekki sjálfgefið í stórum barnahóp á þessum tíma að ganga menntaveginn og þá frekar drengirnir sem það fengu.
Amma var líka mikil hannyrða og prjónakona og held ég að sumir sem eldri eru muni hana sem Guðrúnu prjónakonu. Hún var framsýn og keypti sér prjónavél og margir krakkar í Sandgerði og víðar gengu meðal annars í kisumyndapeysunum frá henni.
Amma og afi eignuðust eitt barn, móður mína sem hefur nú aldeilis fengið góða hæfileika frá þeim. Afi var einnig leikinn í höndum og smíðaði meðal annars stóla og dívana. En mamma bætti líka úr í sambandi við barneignir og eignaðist okkur sex systkinin.
Þetta var nú það sem mig langaði til að skrifa um í dag í tilefni dagsins. Ég tek undir með honum Sigurði Jónssyni sem skrifaði álit hjá mér í gær. Hann segir að hann bloggi sér til ánægju og er það ekki einmitt kjarninn? Það væri ekkert gaman að skrifa ef maður hefði ekki ánægju af því. Fyrir mig er þetta eins og tómstundagaman.
Ég hef eins og hann alltaf haft gaman af að skrifa. Setja eitthvað á blað. Ritgerð í skólanum í gamla daga var eitt af því skemmtilegasta. Og ég átti pennavini bæði á Íslandi og í Noregi. En kannski hefði ég átt að vera duglegri að koma frá mér skoðunum á prenti þegar ég sat í bæjarstjórn. Það er nú annað mál... En þá bara var ég ekki orðin svona tölvuvædd! Tímarnir breytast hratt...
En ég ætla að láta hér staðar numið að sinni.
Góðar kveðjur úr Heiðarbæ.
Ykkar Silla.
Flettingar í dag: 453
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 191918
Samtals gestir: 37130
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:24:52