04.03.2008 20:46

Bleyta.. gönguferðir..og Færeyjar!


Jæja. Ekki er nú fyrr talað um fannfergi en komin er bleyta..Blaut bleyta. Við hjúin höfum gengið af okkur allt veður í tíu daga... EN nú fórum við ekki fet. Við eigum ekki góða regngalla og hefðum orðið eins og hundar á sundi og meira en það.
 
Í staðinn fór Gunni hamförum í vinnunni og ég fékk skúringaræði og tók allt í gegn svo svitinn lak..hm . En ég hreyfði ekki bílinn í dag og vona að þetta verði skárra á morgun. Ég var einmitt í gær að horfa á þátt í sjónvarpinu um hverju vatn gæti áorkað. Og ekki stóð á því í morgun..Regnið var í miklum ham.

En við fengum póst um helgina frá Gunnari Þór í Færeyjum. Hann er fluttur til Suðureyjar með spúsu sína...Skemmtilegt að hann er einmitt á Suðurey þar sem vinabær okkar Sandgerðinga er. Það er að segja Vogur (á íslensku).  En Gunni Þór og Stína  búa í næsta bæ sem heitir (á íslensku) Þvereyri!

Það býr gott fólk og skemmtilegt í Færeyjum. Allavega kynntist ég bara slíku fólki í ferðum okkar þangað. Við höfum komið þrisvar til Færeyja fyrir utan stopp með Norrænu á leið til Eiríks 2006. Fyrst fórum við á Ólafsvöku 1999 með Óskari og Sólrúnu og þá bara til Þórshafnar og nágrennis. Vorum þá í tíu daga.
 
Síðan fórum við vikuferð með Norrænu, bílinn var meðferðis og komum þeim sömu vinum okkar Sólrúnu og Óskari að óvörum í Vogi. Við vissum af þeim og létum vaða. Frábær heimsókn.. Það var árið 2001. Síðast heimsóttum við svo Vog í vinabæjarheimsókn með Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar árið 2005. Þá átti Boltafélagið þar stórafmæli. Hundrað ára afmæli. Það var velheppnuð heimsókn og gaman að það skuli vera komið á áframhaldandi samband.

Það væri svo margt hægt að segja um vini okkar í Færeyjum. Þeir eru rólegri en við (samt kátari). Það er kannski ekki alveg eins mikið lífsgæðakapphlaup þar og þeir eru áberandi gestrisnir..Kannski eins og Íslendingar voru hér áður. Og náttúran er svo nálægt þeim. Þegar við gistum fyrst í Þórshöfn 1999 voru hænur í garðinum og litla dóttirin í húsinu færði okkur egg í körfu..Ógleymanlegt.

En læt þennann Færeyjapistil duga í bili.
Kveðja úr Heiðarbæ.
Silla.
Flettingar í dag: 298
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 191763
Samtals gestir: 37116
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:03:51