02.04.2008 14:05

Ólík sýn.

Góðan daginn gott fólk. Nú er ég að undirbúa komu David og Stacey sem koma eldsnemma í fyrramálið. Þau fljúga frá Atlanta í gegn um Boston til Sandgerðisflugvallar ..Og það verður gaman að fá þau í heimsókn. Þau stoppa í rúma viku. Þau eru mjög hrifin af öllu hér og dásama brimið og útsýnið. Þau giftu sig líka hér í Hvalsneskirkju og það sýnir hug þeirra til Íslands.

En talandi um útsýni! Ég hitti á síðastliðnum sólarhring m.a tvær konur sem ég þekki. Önnur gaf sig á tal við mig í gær og átti ekki orð til að lýsa húsinu mínu og umhverfinu og ætlar að kíkja við næsta tækifæri. Hina hitti ég í morgun. Hún spurði hvernig mér líkaði ÞARNA suðurfrá. Ég svaraði reyndar eins og er að þetta væri frábært enda valið okkar að setjast hér að eftir hafa langað til þess lengi. Og er eitthvað að sjá spurði hún?! Hún svaraði reyndar að bragði sjálf og sagði.. jú sjórinn!

Þetta er dæmigert fyrir ólík sjónarmið. Enda ekki gott ef allir væru steyptir í sama mót og hugsuðu eins. En svolítið skrítið finnnst mér,eða hvað?? Konan sem ég hitti í morgun er uppalin í hverfinu hérna! Mér finnst stundum að fólk kunni ekki að meta íslenska náttúru nema að þar sé trjágróður eða fjöll niður í fjöru eða þannig. En landið okkar er einmitt líka fallegt af því það er svo fjölbreytt. 

Og útsýnið mitt er yndislegt að mínu mati! Og breytilegt eftir veðri. Ég sé Eldey, Hafnir og Reykjanesið til suðurs og yfir að Hvalsneshverfi og inn til Sandgerðis í norður. Og fjöllin frá Snæfellsjökli að Þorbirni við Grindavík. Á þessu svæði hér sé ég fjóra vita, Reykjanesvita, Stafnesvita, Sandgerðisvita og Garðskagavita.

En þetta var svona innskot um umhverfi mitt sem er að sumu leyti urð(sem er að gróa upp) og grjót en þó ekki mikið upp í mót!! Og meira að segja steinarnir eru flottir. Sérstaklega í grjóthleðslunum þar sem þeir eru mosavaxnir. Og líka í heiðinni!

En ekki meira slór í bili. Hafið það sem allra best.
Ykkar Silla.

Flettingar í dag: 298
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 191763
Samtals gestir: 37116
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:03:51