08.04.2008 20:01

Frábært fólk!

Það er gott til þess að vita hvað margt fólk í kring um mann er frábært og hugulsamt! Eins og þetta ferli með hundinn Brúnó sýnir. Að týna dýri er ekki skemmtileg reynsla. Og fjölskyldan á Vallargötu 14 og við öll vorum eyðilögð. Fjölskyldan öll að leita flestum stundum og um nætur líka. En það yljar um hjartarætur að finna að fólk er að hjálpa.

En um níuleytið í morgun hringdi öryggisvörður í mig og sagði..við vorum að reyna að ná hundinum þínum en hann slapp. Þá voru þeir staddir við stóra flugskýli Kanans (sem var) og ekki á þeim stað sem búrið var sem honum var ætlað að rata í. Það var sett upp með aðstoð Stebba hundaeftirlitsmanns. En á því svæði hafði hann jú oftast sést og síðast sá flugvirki að nafni Jónas hann þar á planinu.

Svo hann var sem sagt kominn inn á nýja Háskólasvæðið Keilir. Hann hefur kannski frekar viljað verða læknir en flugvirki ..En við fórum með Týru með okkur uppeftir og leituðum allstaðar. Meira að segja strákar sem áttu lausan tíma í Fjölbraut hringdu og buðu hjálp. En ekki fundum við gripinn og fórum heim um hádegi.

En Gunni átti lausan smá tíma eftir mat og fór aftur og víkkaði leitarsvæðið yfir í athafnasvæði Íslenskra Aðalverktaka þar sem hann er jú kunnugur. Eftir klukkutíma var hann við að gefast upp og lét Jóhönnu vita. Hún vinnur skammt frá eða í Bónus. Hann hafði ekki fyrr sleppt símanum þegar hann sá vininn standa uppi á hól að kíkja yfir. Og þá sleppti hann Týru mömmu sem hljóp í áttina til hans.

En á sama tíma hafði Jóhanna fengið smáfrí og kom þar að! Hún fór sér hægt og kallaði á Brúnó sem snarstoppaði..MAMMA kallaði! En þessi tegund hunda sér illa þó þeir heyri mjög vel svo hún læddist að honum. Girðing á milli þeirra stoppaði hann því hann var að ærast úr gleði þegar hann SÁ Jóhönnu. Og þar með var fjögurra daga útlegð lokið því það þurfti bara að lyfta aðeins girðingunni!

Við fjölskyldan viljum þakka öllu þessu góða fólki sem aðstoðaði við leitina að Brúnó blessuðum. Selma og Smári á 245.is, Hilmar Bragi á V.f og fjölskylda, björgunarsveitarungliðar, skólabörn og þið öll hin sem með leit og ábendingum sýnduð einstaka hugulsemi. TAKK.

Kveðja úr Heiðarbæ.
Silla.  

 
Flettingar í dag: 453
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 191918
Samtals gestir: 37130
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:24:52