26.05.2008 15:43

Síminn til skammar!


Já það er ekki ofsögum sagt hvað þjónustan er léleg hjá símanum. Hvort það heitir Míla eða Sími veit ég ekki, fyrirtækið sem sér um viðgerðir þegar bilar. Slitinn strengur á laugardagsmorgun inn við íþróttavöll í Sandgerði þýddi sambandsslausir símar í öllum húsum þar fyrir sunnan alla helgina. Og þetta eru ekki bara símar. Ég veit til þess að Lauga í Hólkoti er með öryggishnapp sem auðvitað varð óvirkur um leið. Ekki mikið öryggi hjá gömlu konunni það.

En Veðurstofan er líka með jarðskjálftamælir hér í Nýlendu og þeir hafa verið að reyna að ná sambandi og höfðu samband við Símann um helgina vegna þessa. Auðvitað dettur allt slíkt út og nettengingin líka. Við sem erum í dreifbýlinu notum jú þann kost mikið. Ég les fréttirnar á netinu ofl.

En það sem hefur farið mest í skapið á mér er að alla helgina skrökvuðu þeir blákalt að okkur. Við höfðum margoft samband með gsm símum ( sem næst samband úr á vissum stöðum ef við erum heppin) og alltaf sagði starfsfólk Símans að verið væri að vinna í málinu. Hefði nú ekki verið nær að segja okkur satt að ekki yrði nein viðgerð fyrr enn á mánudag vegna þess hve við værum fá sem værum sambandslaus .. Og ekki bera á borð fyrir okkur sem vorum búin að hafa samband úr öðrum símum að engin hefði hringt og látið vita. Ótrúlegt!

Jæja og ætli við borgum ekki líka síma og net. Og ég held að á þessum tíma árs séu milli 30 og 40 manns á svæðinu og tæplega 20 tengingar. Þetta er til háborinnar skammar og sýnir bara gróðahyggjuna sem hefur margfaldast með einkavæðingunni. Of mikil kostnaður að vinna helgarvinnu fyrir okkur..Ja svei.

En nóg um svona ham í bili. Eurovision var flott á laugardaginn og við lentum í 14. sæti. Mér fannst það bara fínt og þau stóðu sig vel Friðrik Ómar og Regína Ósk.... Ég var úti að gróðursetja smávegis áðan. Var að koma fyrir græðlingum sem Maddý gaf mér. Þeir koma til með að gista á öðrum stöðum en það bíður betri tíma.

Við fórum í Borgarholtsskóla á laugardag til að vera við útskriftina hjá Hannesi. Mjög fínt og 195 útskriftarnemar af ýmsum brautum. En ég læt staðar numið hér í bili.

Bestu kveðjur úr Heiðarbæ sem er kominn í net og símasamband en með hrikalega lélegt GSM sem er nú reyndar ekki nýtt fyrir okkur.

Silla... 
Flettingar í dag: 59
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 66
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 192482
Samtals gestir: 37222
Tölur uppfærðar: 6.4.2025 07:59:22