17.06.2008 12:58

17.júní!


 Hæ hó jibbý jei og jibbý jei, það er kominn Sautjándi júní. Og merkilega gott veður. Sól og blíða en dálítill vindur. Í fyrra var ég fengin á síðustu stundu til að halda þjóðhátíðarræðuna. En nú er allt vel undirbúið og ég vona að Sandgerðingar fjölmenni á hátíðahöldin. Það var sett sérstök sautjánda júní nefnd eins og þarf raunar að vera ef vel á að takast til. Ég var í slíkri nefnd í hittifyrra og Erla Jóna tengdadóttir er í henni núna og nóg að snúast hjá henni.

En ég held að ég hafi varla sleppt því að fara á hátíðahöldin síðan 1994 en þá var ég nýkosin í bæjarstjórn og hélt mína fyrstu ræðu..skjálfandi á beinum. En það tókst bara vel. Og auðvitað vorum við fjölskyldan vön að fara á hátíðahöld dagsins frá því við fluttum til Sandgerðis. Ég á myndir af fjölskyldumeðlimum sem ekki voru háir í loftinu 1974 og þá voru hátíðahöldin alltaf haldin á Bjarmalandstúninu.

En seinna voru þau oftast við skólann og íþróttahúsið. En núna verða þau við Vörðuna nýja stjórnsýsluhús bæjarins. Þar er orðin mjög góð aðstaða bæði úti og inni. Málverkasýning er inni í kaffisalnum og þar á mamma myndir ásamt Bjössa sem einnig býr í Miðhúsum. En sýningin mun standa í nokkra daga.

Ég veit ekki hvort ég nenni núna sjálf. Gunni og Fúsi eru í Örfirisey að ganga frá eftir blástur og málningu. Svo ég er ein heima ásamt fimm hundum sem þurfa smá athygli. Svandísar voffar eru í pössun! En ég ætla að sjá til hvort ég skelli mér ...

En stóra fréttin er skírn Júlíu Lindu Jónsdóttur sem fór fram á laugardaginn síðasta. Hún var auðvitað eins og engill og Gunni hélt henni undir skírn. Stoltur!  Mér finnst nafnið flott og gaman að því að hún ber sama nafn og vinkona mín. Sú er reyndar Ómarsdóttir. Og hún var í ljósmæðranámi þegar Linda fæddist og kom í rútu úr bænum til að taka á móti henni eða þannig.. Æfing...undir handleiðslu Sólveigar sem var jú ljósan. En síðan eru liðin rúm 25 ár. Fljótur að líða þessi tími!


Læt þetta duga að sinni. Ég er ekki of dugleg að blogga svona í sumrinu. Mikið útivið með græna fingur. Líði ykkur öllum sem best.
Silla í Heiðarbæ.
Flettingar í dag: 566
Gestir í dag: 86
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 192031
Samtals gestir: 37159
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:45:54