22.12.2008 11:53
Klikkað veður!

Það blæs heldur betur núna. Veðurstofan var búin að vara við suðaustan roki og rigningu seinnipartinn í dag. Pabbi sagði alltaf að suðaustanáttin kæmi fyrr en veðurfræðingar segðu. Allavega oft. Það er þá bara fínt og þá gengur fyrr yfir vatnsveðrið. Ég var búin að áætla að fara í búðir með mömmu og tengdamömmu. En ég fer ekki fet eins og er. Þori hreinlega ekki fyrr en rignt hefur niður mesta krapann á Stafnesveginum.
Annars er allt í góðu. Ég á eftir að ná í nokkrar smágjafir. Það hefur áður verið farið á Þorlák að klára dæmin og svo koma blessuð jólin án þess að fara yfir um í gjafastressi. Við eigum reyndar tólf barnabörn svo það eru nokkrir pakkar. Við eru löngu hætt að gefa stóru (okkar fimm) börnunum og einbeitum okkur að því að þau litlu fái frekar pakka. Jólin eru jú hátíð barnanna aðallega. Þó okkur finnist jú vænt um jólin erum við ekki að spekulera í gjöfum..
Og svo hefur ástandið í þjóðmálunum í dag orðið til þess að kreppir að. En eins og ég segi..Jólin eru ekki gjafir. Jólin eru samvera og samkennd miklu frekar. Kertaljós og klæðin rauð var sagt í gamla daga og ég held að fólk sé komið á svipað stig. Föt í jólapakkana og friðarljós á jólum. Sem sagt kerti og spil!!
Eitt er það sem ég hef breytt um í jólasiðunum. Ég hætti að mestu í fyrra að senda jólakort og sendi kveðju í útvarpinu. Ég veit vel að það heyra kannski ekki allir en alveg frá barnæsku hef ég hlustað á jólakveðjur í útvarpinu á Þorláksmessu. Reyndar gloppótt þegar ég vann vaktavinnuna í Flugstöðinni. Að sjóða hangikjöt og hlusta á jólakveðjur... þá finnst mér jólin vera að koma. Svo er líka hægt að senda kveðjur á netinu og með tölvupósti. Reyndar er kominn einhver vírus í tölvupóstinn en það verður að hafa það þó það komist ekki í lag strax. En mér finnst nú samt vænt um að fá jólakort.

En ég ætla fara að hlusta á fréttirnar..Klukkan orðin yfir tólf á hádegi. Eigið góðar stundir.
Kveðja úr Heiðarbæ.
Silla.
Flettingar í dag: 453
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 191918
Samtals gestir: 37130
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:24:52