25.07.2009 20:34
Ættarmótið!
Sæl öll.
Ég ætlaði svo sannarlega ekki að sleppa því að segja ykkur frá mótinu okkar um síðustu helgi. Það var ættarmót með frjálslegu sniði. Og yndislegt var það. Og veðrið lék við okkur.
Þannig var að í vetur komum við saman með hluta af börnum og tengdabörnum og vorum ákveðin í að hittast í útilegu eða tjaldsamkomu á sumri komenda. Stefnan var sett á Hellishóla í Fljótshlíð þar sem Sigfús og Erla Jóna hafa verið með hjólhýsið sitt undanfarið. Ég sendi póst á Hellishólana og fékk það svar að aðeins væri eitt lítið hús 16 fm til leigu. Ég vildi fá stærra hús þar sem margir voru tjald og húslausir. En ekki fékkst það..Leið nú tíminn og að lokum kom frábær lausn hjá stelpunum um að koma saman hjá okkur gamla settinu í Heiðarbæ. Eða í Nýlendu þar sem nóg tjaldsvæði voru fyrir hendi.
Það varð ofaná og það sem meira gerðist var að það kom fram mikill vilji til að endurreisa FKF eða félag kátra frændsystkyna í tengslum við þetta mót. Svör komu frá mörgum okkar kátu en svo var ákveðið að þetta mót okkar væri eitt allsherjar fjölskyldu-frænku og frændamót fyrir báðar ættir okkar Gunna.
Það varð niðurstaðan og fjölskyldumót Heiðarbæjarfjölskyldunnar var haldið með miklum ágætum. Hannes smíðaði fótboltamörk og mikið var um að vera. Unga fólkið fór með börnin í Melabergsfjöruna sem er hvítur og flottur sandur. Þar voru gerðir kastalar eins og gerast bestir í sandfjörum Spánar. Boggi frændi Gunna, Marta dóttir hans og Gunni Þór komu frá FKF sérstaklega. Og frænkur mínar Helga, Sibba og Kolla komu frá mínum ættboga. Elín hans Bjössa, Ása Ingibjörg og þeirra fólk komu og kíktu bæði föstu og laugardagskvöld. Maddý og Gísli og börn voru auðvitað sjálfboðin enda frænd og vinafólk og hverfisbúendur:) Bjössi sjálfur var auðvitað með í hópnum :)
Það er bara að segja frá þessum mannfagnaði að hann fór mjög vel fram og var í alla staði vel heppnaður. Það var mikið sungið, sagðir brandarar og hlegið. Og við flögguðum fána FKF og allir voru ákveðnir í að hittast að sama tíma að ári.
Það geri ég að mínum orðum og hvet allt frændfólk til að skoða hvað hverfið okkar hefur mikið upp á að bjóða. Við þurfum alls ekki að leita langt yfir skammt.
Góðar stundir.
Flettingar í dag: 453
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 191918
Samtals gestir: 37130
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:24:52