26.09.2009 20:37

Afmæli og afmæli..



Góða kvöldið kæru vinir.
Nú er ég búin að lofa að vera duglegri við bloggið mitt. Ég er ekkert lítið ánægð yfir því að heyra frá fólki sem les þetta reglulega. Mummi er einn, Erla Kidda Lár önnur og í afmælinu í dag hitti ég þrjá sem létu mig vita að ég skrifaði of sjaldan...Rétt er það og nú skal breyta um kúrs!

Já afmælin..Í dag fórum við í afmæli Binnu..Hún varð 80 ára og þetta var mjög gaman. Við hittum fjölda fólks sem hafa verið vinir okkar til áratuga. Og ekki skyggði það á að Bára systir hennar kom frá Los Angelis öllum á óvart. Alltaf jafn hress..Konný kom með okkur með yngri strákana tvo en aðrir krakkar mínir voru uppteknir. En sá misskilningur varð á milli okkar Gunna Þórs að ég lét ekki Sirrý vita eins og hann hafði hugsað heldur bara mín börn og tengdó..En ég veit að Sirrý var að vinna í dag svo líklega hefð'i hún ekki komist. Vona bara að þær Bára hittist því þær eru svo miklir mátar.

En svo er afmæli á morgun líka! Hannes hennar Konný er þrítugur  þann 21. september og stóri strákurinn þeirra varð sjö ára í gær..Svo það er sameiginlegt afmæli þar! Ég er að setja á brauðtertur fyrir Konný núna en annars er hún mjög flink sjálf í svona veisluhöldum.

En annars gengur allt sinn vanagang..Það hefur gengið yfir mikið rok og mikil læti í veðrinu síðasta sólarhring. Og það brimaði mikið við ströndina hér í dag..Í fyrirtækinu gengur allt nokkuð vel allavega miðað við aðstæður..En aldrei eru áhyggjurnar langt undan í því sambandi..en eins og er bara fínt. Ég elda mat fyrir karlana mína minnst fjóra daga í viku og hef bara gaman að því.

Tengdamamma er frekar léleg til heilsunnar og við höfum jú vissar áhyggjur af því. Mamma er eins og alltaf dugleg og er alltaf að föndra eitthvað. Það væri flott ef maður yrði eins og hún..

Ég er búin að vera á Moggablogginu ásamt mínu..(þessu) í tvö ár. Hætti reyndar í mánuð í sumar og skráði mig út..Var búin að fá nóg af ekkifréttum.. En ég hef eignast góða bloggvini og Sigurður sem var sveitarstjóri í Garði er einn. Reyndar hafði ég kynni af honum áður. En svo kom annar bloggvinur í heimsókn í vikunni og það var bara meiriháttar gaman.. Mikið hvað við gátum skrafað.

En ég skal reyna að vera duglegri að skrifa hér vinir mínir..
Takk fyrir alla athyglina og hafið það sem allra best.
Silla í Heiðarbæ.
Flettingar í dag: 453
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 191918
Samtals gestir: 37130
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:24:52