14.10.2009 15:40
Gestakoma.
Góðan daginn gott fólk.
Nú erum við búin að fá David og Stacey í heimsókn. Það eru vinir okkar frá Atlanta í Georgíu. Þau giftu sig hér í Hvalsneskirkju fyrir rúmum tveim árum. Þau komu eldsnemma á mánudagsmorgun en verða nokkra daga í Reykjavík hjá Maddý og Gísla. Það hefur verið mikil samgangur milli okkar allra þriggja hjóna undanfarin ár. En við kynntumst David 1990 þá 29 ára strák! Hann var sendur frá fyrirtækinu sem hann vann hjá til að uppfæra malbikunarstöðina hjá Gunna. En nú er sá vinnustaður (Malbikunar og steypustöðin) ekki lengur starfræktur.. Þegar maður keyrir Hafnaveginn framhjá stöðinni er ansi eyðilegt um að litast.
En það hefur verið líflegt hérna enda krakkarnir að kíkja í heimsókn og heilsa upp á þau. Stelpurnar mínar hændust að David þegar þær voru litlar enda er hann mjög barngóður. Ég veltist um af hlátri þegar ég sýndi þeim sviðahausana sem ég var með í matinn í dag..Svipurinn! Enda kannski ekki skrýtið.. En annars elska þau íslenska matinn og kaupa sósur og skyr til að fara með heim. Svo er kaffiframleiðsla Kaffitárs þeim mjög hugleikinn og það eru keyptir margir pokar af kaffi. Og ég er nú sammála því að það er betri matur á Íslandi en í Bandaríkjunum.
Við skruppum í Reykjavík í gær við þrjú. Fórum í 66°norður og þau keyptu líkt og Íslendingar í Ameríku!! Þau eru svo hrifin af þeim vörum. Og eru að kaupa jólagjafir fyrir fjölskylduna. Það er merkilegt hvað maður venst á að tala enskuna þegar maður þarf á því að halda. Stirður fyrst svo kemur þetta. Ekki er hægt að tala bara íslensku sem gestirnir skilja ekki. Annars er David orðinn nokkuð klár í einstökum orðum. Stundum erfitt að bera fram orð eins og hraðahindrun :)
En um síðustu helgi fórum við með starfsfólk Fúsa ehf í Reykjavík. Við gistum á hóteli og vorum fjórtán saman. Það var verið að gera sér dagamun eftir törnina í sumar. Erla Jóna skipulagði og við vissum ekkert fyrr en kom að því að fara eitt og annað. Við fórum í Keiluhöllina þar sem fólk skemmti sér vel. Við fórum á Askinn fyrra kvöldið og löbbuðum síðan heim á hótelið. Á laugardegi var farið í Perluna og skoðað Sögusafnið og síðan í Kolaportið! Aðalmálið var síðan kvöldverður á Hereford á Laugavegi..Þetta heppnaðis glæsilega og færði eigendur og starfsfólk (eigendur eru reyndar starfsfólk líka!) mikið saman.
En ætli ég láti ekki staðar numið að sinni.
Hafið það sem allra best.
Silla.
Flettingar í dag: 298
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 191763
Samtals gestir: 37116
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:03:51