Færslur: 2008 Janúar
07.01.2008 15:04
Venjulegur janúar!

Komið þið sæl. Nú eru jólin endanlega búin og ég er að taka niður jólaskrautið. Í Ameríku er það nú tekið niður á annan í jólum. Ég heyrði það hjá Mumma að það er gert bara strax. En við höldum í dótið þar til á þrettándanum og sumir lengur. Það er nú allt í lagi að lofa einu eða tveim ljósum að loga til að lýsa upp skammdegið.
En við verðum að sætta okkur við að nú er kominn venjulegur janúar. Ég var að elda fyrir strákana í Fúsa og fór svo með Ástrósu til tannlæknis. Það þurfti ekkert að gera við heldur stafaði verkurinn af kvefi! En talandi um hana Ástrósu þá var hún hæst í ensku í bekknum og há í stærðfræði og fær að taka samræmdu prófin í þeim fögum í vor með tíunda bekknum. Hún er í níunda bekk.
Þau fá að gera þetta ef þau eru með yfir níu held ég. Ég er búin að sitja yfir krökkunum sl. tvö ár en ég er ekki viss um hvort þessum prófum verði hætt á næsta ári. Einhverjar breytingar eru í gangi. En það er um að gera fyrir þau sem eru áhugasöm að taka svona próf og sjá hvar þau standa.
Svo er hún komin í Ungliðasveit Björgunarsveitarinnar og segist fíla það í botn. Það hafa nefnilega ekki allir áhuga á íþróttum og gott að geta tekið þátt í öðru uppbyggjandi. Hún sagði mér að hún hefði hjálpað til að festa bát.. Þetta gefur krökkunum svo mikið að fá að taka þátt. Annars er hún líka dugleg að hjálpa mömmu sinni sem vinnur mikið en við höfum reynt að ofgera henni ekki í þeim þættinum.
Jæja nú er Ástrós búin að fá umfjöllun!!! Hvert af barnabörnunum verður næst? Kannski Hljómsveitargæinn minn? Eða einhver þeirra sem búa í Danaveldi? En núna er líklega best að halda áfram við að tína niður jóladótið. Líði ykkur sem best.
Ykkar Silla.

05.01.2008 19:47
ELG og Stafnesbrenna.

Sæl öll. Ég fór á ljósmyndasýningu í Salthúsinu í Grindavík í dag. Ekkert smá flottar myndir. Það var vinur minn Ellert Grétarsson sem var að sýna hluta af myndum sem hann hefur tekið sl. þrjú ár. Ég er með tengil á siðunni minni ef þið hafið áhuga á að skoða myndir eftir hann.
Reyndar eru ekki allar myndir sem voru á sýningunni þar en sumar þó. Mér finnst hann hljóti að vera orðinn fremstur meðal ljósmyndara í náttúrulífsmyndum á landinu og þótt víðar væri leitað. Ég á tvær myndir eftir hann á veggjunum hér í Heiðarbæ. Ef veggjaplássið væri meira er aldrei að vita hvort ég hefði freistast!! Þetta var sölusýning og mjög mikið fjölmenni.
En við hér í Stafneshverfinu höfum haft þann sið að kveikja í brennu um þrettándann. Það er ekki síst Maddý sem hefur verið driffjöðurin í því. Og líka Bjössi. Við bara fórum til að horfa og hitta fólkið. Þeir kveiktu kl. fimm og það var fínt veður..trúið þið því? Bara hægur vindur af norðri og góðar aðstæður til brennuhalds.
Ég held að við höfum verið vel yfir tuttugu manns þarna að horfa með blys og skjóta upp flugeldum. Bjössi var á staðnum með einhverjum af sínum mannskap og myndavélina. Svo það er öruggt að ef þið kíkið inn á síðuna hans þá sjáið þið einhverjar grýlumyndir!!
Er ekki Grýla að fara til fjalla um þessar mundir..
Hadda mamma hennar Hrefnu var jörðuð í gær. Þvílíkt hvað þau gerðu þetta vel systkinin. Og við erfidrykkjuna var spiluð harmonikutónlist. Hún hafði yndi af tónlist og mér finnst að fleiri mættu taka þetta sér til eftirbreytni. Ekkert vol og víl!
Það var gestkvæmt í gærkvöld í Heiðarbænum. Við vorum með þá bræður Vilmund og Garðar ásamt Brúnó hjá okkur fram eftir kvöldi og svo komu Hilmar og Gugga með barnahópinn sinn í heimsókn. Með þeim var nýja mamma hans Snata sem nú heitir Bassi og auðvitað prinsinn sjálfur líka. Held bara að hann hafi þekkt mig. Ætlaði allavega að éta mig. Honum líður greinilega vel hjá nýju fóstrunni sem heitir Elisabet Mary og er dóttir hennar Anfri. Og hún er konan hans Ebba.
Það var gestkvæmt í gærkvöld í Heiðarbænum. Við vorum með þá bræður Vilmund og Garðar ásamt Brúnó hjá okkur fram eftir kvöldi og svo komu Hilmar og Gugga með barnahópinn sinn í heimsókn. Með þeim var nýja mamma hans Snata sem nú heitir Bassi og auðvitað prinsinn sjálfur líka. Held bara að hann hafi þekkt mig. Ætlaði allavega að éta mig. Honum líður greinilega vel hjá nýju fóstrunni sem heitir Elisabet Mary og er dóttir hennar Anfri. Og hún er konan hans Ebba.
Þegar þau voru nýfarin komu nágrannahjónin Maddý og Gísli úr Glaumbæ. Við sátum og spjölluðum fram eftir nóttu. Sumir sifjaðir í morgun..ææ en Gunni fór í vinnu um hádegi.
Á eftir ætlum við upp á loft og horfa á brennuna og flugeldasýninguna í Sandgerði. Hlýtur að sjást vel héðan í svona veðri. Gæti verið gaman að sjá þetta frá okkar sjónarhorni hérna. Hafið það sem allra best á þrettándanum sem og alltaf.
Bestu kveðjur Silla.

Á eftir ætlum við upp á loft og horfa á brennuna og flugeldasýninguna í Sandgerði. Hlýtur að sjást vel héðan í svona veðri. Gæti verið gaman að sjá þetta frá okkar sjónarhorni hérna. Hafið það sem allra best á þrettándanum sem og alltaf.
Bestu kveðjur Silla.

03.01.2008 18:04
Neytendasljóir Íslendingar.

Ég var að hlusta á útvarpið í dag og heyrði í fréttunum sagt frá doktorsritgerð í markaðsfræði. Það var Valdimar Sigurðsson adjunkt við Háskólann í Reykjavík sem varði ritgerðina. Það var viðtal við hann og ég varð smá hugsi.
Hann segir að verð og verðlækkanir hafi ekki áhrif á sölu á vissum tilteknum vörum sem hann rannsakaði..Meira að segja í sumum tilfellum hafi það slæm áhrif að lækka t.d hársnyrtivörur.. Hann segir Íslendinga skera sig úr á þessu sviði. Og aðspurður tók hann undir það að við værum neytendasljó þjóð Íslendingar.
Þá vitum við það. Og kannski vissum við það. Íslendingar kunna ekki að standa saman til að mótmæla verðhækkunum. Eins og tildæmis bensíni og olíu hvað þá aðalnauðsynjununum matvörunni. Í löndunum í kring um okkur heyrum við af fólki sem fer bara í stræk og hundsar vöruna. En maður spyr sjálfan sig. Getum við hætt að kaupa t.d mat og eldsneyti?
En það er aðeins annars eðlis og alvarlegra ef það er rétt að við bara kaupum og lítum ekki á verðið. Ég gæti trúað að þetta hafi ágerst með tímanum hjá okkur. Það verða allir að vinna svo mikið og eru á hlaupum við að versla. En eitthvað hlýtur þetta að vera misjafnt. Fólk myndi ekki flykkjast í lágvöruverslanirnar og bera saman við hinar ef þetta væri algilt.
Ég sjálf hef meiri tíma en oft áður og kíki oftast (ææ) á verðið. En í gamla daga þegar ég var heimavinnandi með fullt hús af krökkum, þá held ég að ég hafi verið best vakandi. Og þurfti að vera það. En þetta er umhugsunarefni og ætti að hvetja okkur til að staldra við.
Kaupa kaupa..Mér varð hugsað til okkar hjúanna sem létu ekki nægja eitt skrifborð á dögunum. Þau urðu að vera tvö.

En ég er með bók á náttborðinu, Sögur úr Síðunni eftir Böðvar Guðmundsson og þar er talað um hversu miklu við söfnum að okkur um ævina og hvað það skilur lítið eftir. Það er svo kannski annað mál og þó, þessi höfundur er mjög góður. Skrifaði líka bækurnar Híbýli vindanna (Ísland) og Lífsins tré. Frábærar bækur um Vesturfarana á nítjándu öld.
Nóg af svona þönkum í bili. Allt annars gott að frétta úr Heiðarbænum. Vindur úti....
Hafið það gott öllsömul.
Ykkar Silla.

01.01.2008 15:04
Gleðilegt nýtt ár 2008.

Gleðilegt ár gæskurnar mínar!! Við skulum vona að árið verði okkur öllum gott og slysalaust. Heilsan verði eins og best verður á kosið. En vissulega hafa allir við eitthvað að bjástra. En að vinna þá fram úr því er nákvæmlega listin við að lifa.
Í gærkvöld fórum við í mat í Miðtún 6 eins og ráðgert var. Alveg einstaklega góður matur. Svo voru þau með uppáhaldið mitt í forrétt..umm humar. Vorum komin heim fyrir Skaupið og horfðum svo á sjónvarpið frameftir. Eins og ég hef sagt höfum við snúið svolítið upp á sólarhringinn. En nú er engin miskunn..hversdagsleikinn tekur við á morgun. Og það er bara ágætt..
Og vona ég að veðrið verði betra á næstu mánuðum en þeim síðustu. Ég lofaði sjálfri mér m.a að fara í fleiri gönguferðir. En sumir segja að ekki að eigi að ákveða eitthvað svona nákvæmlega á áramótum. En er það nokkuð verri tími en hver annar?
En nú er ég aftur komin í eldhúsmálin. Mamma og tengdaforeldrar mínir ásamt Jóhönnu og börnum verða í mat í kvöld. Svo við verðum þá níu. Það er nú bara frekar fátt..Hm við vorum lengst af níu í fjölskyldunni í Nýlendu þegar ég var að alast upp.
Ég ætla að hafa þetta stutt og segi bara enn og aftur. Gleðilegt ár.
Silla.

- 1
- 2
Flettingar í dag: 566
Gestir í dag: 86
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 192031
Samtals gestir: 37159
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:45:54