13.07.2007 09:08

Helgarferð.


Jæja þá er komið að fjölskylduferðinni. Reyndar eru aðeins 4 af 5 af krökkunum á landinu. Eiríkur og fjölskylda búa í DK. Og Ástrós er þar og Gunnar yngri á Kýpur hjá vini sínum. Ja hefði maður verið upprifin á þessum aldri að fara svona ferðir eins og þau. Þá horfði maður bara upp í himininn hérna á Stafnesinu á þessa furðufugla flugvélarnar og hugsaði um hvernig þær héngu í loftinu?
 
En ég er nú búin aldeilis að sannreyna að sem betur fer gengur það oftast vel. Ég vann hjá Flugleiðum seinna IGS í 17 ár og þá fengum við tækifæri til að skoða heiminn bara ansi vel. Allt frá Barcilona til Grænlands og New York og svo fórum við í fyrsta skipti til Dísu frænku í Florida árið 1992 með stelpurnar 3. Þvílík upplifun fyrir þær. Linda 9 ára Konný 12 og Jóhanna 17 ára.

Og ferðirnar urðu margar þangað og til vina í Milwalkee í Wisconsin og víðar. Búin að fara tvisvar til Texas og hitta frændfólk. Seinni ferðin var farin með Maddý og Gísla en þá var ég hætt í flugtengdu vinnunni. Þá stoppuðum við í New Orleans sem svo stuttu seinna eyðilagðist af flóðum. Undarleg tilfinning að hafa séð staðinn þegar hann var á skjánum dag eftir dag vegna atburðanna.

En nú erum við að fara styttra. Upp í Borgarfjörð sem mér finnst alltaf svo fallegur. Ég á dálitlar rætur þar því ég var í Reykholtsskóla einn vetur og tók landsfróf þar. Það var þungt að mínu unglinga-mati en dugði mér til að fara í M.R. En sá frægi menntaskóli var ekki það sem ég fílaði eins og börnin segja. Svo árið þar varð bara eitt. En örugglega hef ég haft gott af þessu eins og fólk hefur líka af því að vera í skóla lífsins. Hann er besti skólinn þó nauðsynlegt sé að hafa hina með..

En nú er veðrið gott líkt og sl. einn og hálfan mánuð svo vonandi gengur allt vel í útilegunni og verður gaman að vera þar með aldrinum eins og hálfs til fimmtíu og níu! Mamma skrifaði í gestabókina áðan að við ættum að fara varlega í umferðinni og ég vona að allir geri það.
Og Týra og afkvæmi verða í góðri umsjá Benna og Maddý svo hundaamma slappar bara af. Ég óska ykkur góðrar helgar hvar sem þið eruð öll elskurnar, nokkur í Seattle(Solla og fj. og Mummi) á fleiri stöðum heima og heiman. Ætla að fá mér aðeins meira morgunkaffi.

Góðar stundir.
Flettingar í dag: 63
Gestir í dag: 35
Flettingar í gær: 189
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 101693
Samtals gestir: 20611
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 17:48:09