Færslur: 2009 Febrúar

25.02.2009 17:16

Jarðarför Kristínar.


Góðan daginn.
Nú vorum við að koma úr jarðarför Kristínar Sigurðardóttur. Útförin fór fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði og jarðsett var í Hafnarfjarðarkirkjugarði. Sorglega ung var hún blessunin til að yfirgefa þetta líf. Hún var rétt rúmlega 57 ára. Það er ekki hár aldur en engin veit víst hvenær kallið kemur. Og ekki spyr skaparinn um aldur.

Við vorum búin að þekkja hana síðan hún kom inn í stórfjölskyldu Gunna, ætt Borgþórs og Guðrúnar. Gunnar Þór og Gunni eru systkinasynir. Hún og Gunnar Þór giftu sig árið 1974. Eina barnið þeirra Júlíús var fæddur eins og Jóhanna okkar vorið 1975. Við höfum verið samferða gegnum lífið með mismiklum samgangi þó oftast hafi verið stutt milli símtala eða heimsókna.

Síðast komu þau hingað í Heiðarbæinn rúmum mánuði áður en hún veiktist hastarlega í október sl. Við kíktum til hennar á Grensásdeildina í janúar og ég held að við höfum þá endanlega áttað okkur á hversu alvarlegt þetta var. Blessuð sé minning Stínu og megi Guð styðja Gunna okkar og fjölskylduna. Soninn Júlíus, tengdadóttirina og ömmustrákana tvo.

En þó svona dagar séu sorglegir eiga þeir alltaf einhverjar bjartar hliðar. Fleiri hundruð manns vottuðu Stínu virðingu sína og þar hittum við stórfjölskylduna. Alltof slitrótt samband hefur verið hjá okkur og það eru margir sem vilja laga það. Í um tuttugu ár frá 1981 og fram til aldamóta fór hópur systkinabarna, barnabarna Borgþórs og Guðrúnar með fjölskyldur sínar á hverju ári í útilegu. Og fyrstu árin var líka komið saman að vetri. Það voru meira að segja formleg samtök um þessar hátíðir. Félag kátra frændsystkina hét hópurinn. FKF og ekki létu Gunni og Stína sitt eftir liggja. Þau útbjuggu til dæmis fána með einkennisstöfunum. Ég held að þau hafi ásamt Bogga Sigurjóns átt stóran þátt í hvað þessi hópur hélt lengi saman.

Og undanfarið hafa mínir krakkar oft verið að tala um að byrja upp á nýtt. Og þá myndu það verða þau af yngri kynslóðinni sem ættu að vekja upp sínar góðu minningar og byrja! Það væri frábært að gera það í nafni vinkonu okkar sem nú kvaddi.

En Linda og Konný komust ekki í dag.. Konný er nýkomin heim með litla prinsinn og Linda er ein með stelpurnar því Jón er við vinnu í Húsafelli. En Fúsi og Erla sem og Jóhanna komust. Eiríkur í Danmörku svo ekki átti hann heimangegnt. Ég held að það gangi bara vel hjá honum í fjarbúðinni. Þau eru öll á sama tíma í skóla hann og krakkarnir. En Lilja býr hjá okkur á loftinu í Heiðarbæ og hefur mikið að gera í prestsembættinu.

En hér læt ég staðar numið. Bestu kveðjur vinir, hvar sem þið eruð.
Ykkar Silla. 

20.02.2009 08:43

Eftirvænting.


Jæja nú sit ég hér í tölvunni og var að fá mér morgunkaffið. Konný er á leiðinni upp á fæðingardeild og litli prinsinn líklega væntanlegur á næstu klukkutímum. Svo það er bara spennandi tímar núna. Myndavélin hennar er hér og ég er að fara með hana til þeirra hennar og Hannesar.

Í gærkvöldi fengum við heimsókn. Mummi bekkjarbróðir minn frá í barnaskóla kom en hann býr í Seattle í Bandaríkjunum. Við sátum rúma fjóra tíma að spjalli og tíminn flaug eins og hann gerir stundum. Frábært að rifja upp gamla tíma og ræða nýja.


Ég á að fara í sjúkraþjálfun klukkan tólf en ef litli maður verður ekki mættur ætla ég að sleppa því. Ég ætla að fá að sjá hann alveg nýjan. Það er bara að vona að allt gangi nú vel.

Ég hef undanfarið verið að elda handa Fúsagenginu stundum þrem og stundum fimm. Fáir núna og skipta sér stundum á verkin. Það er bara gott meðan eitthvað fæst að gera.

En ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili.
Góðar stundir.
Ykkar Silla.emoticon  
                                  NÝTT..

Klukkan er 17.30 og við erum búin að eignast þrettánda barnabarnið. Hann fæddist 12.55 og var fimmtán og hálf mörk og fimmtíu og fjórir sentimetrar. Þá eru strákarnir níu og stelpurnar fjórar í barnabarnahópnum. Við erum rík. Auðvitað eru amma og afi búin að kíkja á prinsinn sem er dökkhærður,slettur og fínn. 
Silla og Gunni.

 

13.02.2009 21:21

Þorrinn og Góan.


Hæ hæ. Nú eruð þið örugglega farin að halda að ég sé hætt að blogga. En það er nú ekki. En ég er svo pólitísk í mér að ég hef verið á Moggablogginu mínu síðustu daga. Ég er að fylgjast með þjóðmálum á þeim vettvangi en hef haldið því að mestu burtu frá minni heimasíðu.

Ég sagði ykkur síðast að Lilja Kristín tengdadóttir mín væri komin til landsins til að leysa Sr. Björn Svein af í hans leyfi. Og nú er hún búin að vera að störfum í tíu daga og allt gengur vel að ég held. Reyndar fór hún í höfuðborgina yfir helgina en þar á hún ættingja og vini. 

Og reyndar er þetta fyrsta pásan sem hún hefur fengið. Starf prests er erilsamt og ef einhverjir halda að það snúist bara um messur þá er það mikill misskilningur. Allavega stoppar ekki síminn hennar. Og við erum á því að hún haldi bara til hjá okkur og hafi loftið fyrir sig. Þar er herbergi og stofa.Ekki nein þörf á að finna annað húsnæði. Ég veit að það var sjálfsagt af Bjössa hálfu að hún færi í Skúrinn sem við köllum. Við bjuggum þar í tæp tvö ár við góða líðan.

En nú er tímabil þorrablóta og síðan kemur bollu og sprengidagur. Um síðustu helgi buðu Maddý og Gísli hverfinu í þorramat og alles. Þvílíkt flott hjá þeim eins og alltaf. Bjössi, Benni. Ölli, við og fjölskylda Glaumbæjarhjónna komu í matinn.

En nú er Mummi bekkjarbróðir minn líklega kominn til landsins með soninn Skyler. Ég vona að þeir komi við í næstu viku áður en þeir fara heim. Ég ætlaði líka að sýna þeim gamla heimilið hans Mumma. Þar búa Jóhanna og hennar börn núna.

En talandi um Jóhönnu þá eru að komast á samningar milli hennar og Fúsa ehf um að skipta út íbúðinni á Vallargötu 14 fyrir Ásabraut 35. Það leysir vanda hennar og krakkanna.Vonandi heldur Bónus áfram og hún vinnunni!! En það er búið að kaupa flísar og baðherbergisdót...

En nú held ég að ég hætti þessu blaðri. Lifið heil elskurnar mínar. Hvort sem þið eruð í Jax, Atlanta, Milwalkee í Danmörku eða hér heima á Íslandi sem er í kröggum! 

Kveðja úr Heiðarbæ.
Ykkar Silla.


06.02.2009 12:02

Lilja komin.


Komið þið sæl.
Það er ekki langt síðan við komum frá Danmörku. Og ekki datt mér í hug að tengdadóttirin yrði komin innan nokkurra daga á eftir mér. En presturinn okkar hann Björn Sveinn þurfti að fara í leyfi til USA frekar snögglega. Hann verður í þrjá mánuði og tekur svo sumarfríið sitt strax eftir það. Svo þetta gæti orðið afleysing fram í júní. 

Svo það voru fljótir hugar sem fundu út að kannski gæti Lilja Kristín leyst hann af. Og það gekk eftir og hún er á fullu að fara yfir verkefnin sem bíða. Tvær messur um helgina og skírn. Og svo allur hópur fermingarbarnanna sem þarf áframhaldandi fræðslu og umönnun.

Svo Eiríkur er í Lysabild með krakkana og þau eru auðvitað öll í skólum. Og vonandi verða allir frískir þá gengur þetta allt upp. Sem sagt fjarbúð! En Lilja er hér í augnablikinu í Heiðarbæ. Við erum búin að biðja Bjössa um að hún fái að vera í skúrnum. Það er ágætt fyrir hana að hafa smá stað sjálf þegar hún þarf næði. Förum kannski í það um helgina að koma þangað rúmi og fleiru. Svo eru það bílamálin. Ekki getur hún verið án bíls. Í augnablikinu er hún á mínum en annað hvort kaupum við eða leigjum ódýran bíl hjá Sissa..(Hann er í sóknarnefnd með mér). Það kemur í ljós. Hann lánaði mér reyndar bíl til bráðabrigða. Frábær þjónusta hjá Bílahorninu..

En í dag er verið að jarða Pétur Björnsson. En það er sr. Önundur sem jarðar. Þeir eru bræður hann og sr. Björn Sveinn og hann var búin að ganga frá þeim málum.

Annars er allt ágætt að frétta og styttist í næsta barnabarn. Það er eftirvænting í lofti og við látum ekki kreppuna hafa of mikil áhrif á okkur. Lífið heldur áfram og við verðum að gera gott úr því!

Þar til næst..Góðar stundir.
  • 1
Flettingar í dag: 12
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 58
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 97165
Samtals gestir: 19693
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 03:35:34