Færslur: 2009 Mars

29.03.2009 11:33

Veðrátta og fermingar.


Halló öll sömulemoticon .
Ég ætla að pikka niður nokkrar línur. Þetta sígilda efni veðrið er eitt. Maður veit aldrei hvort það er sól og blíða eða snjóhret þegar maður fer á fætur. Núna er flott veður í gær var snjómugga, síðan hlánaði og svo spáir frosti og roki...Úps.

En hvað um það. Nú eru fermingar víða og t.d í Reykjanesbæ. Vona að veðrið haldist gott þar til börnin komast í hús. Nú er Anita Ósk að fermast. Hún er dóttir Guðbjargar og stjúpdóttir Hilmars Braga. Við komumst ekki í ferminguna hennar en sendum henni og foreldrunum bestu kveðjur. Svo er nú ekkert of auðvelt að fá Gunna í veislur. Hann versnar með aldrinum!emoticon 

Fermingarnar hjá sr. Lilju okkar í Garði og Sandgerði verða ekki fyrr en eftir mánuð. En svo er ætlunin að bræðurnir Þorsteinn Grétar og Helgi Snær fermist í júlí. Annar ári seinna en venja er, hinn ári fyrr. Ágætt held ég því staðan er svo ólík þar sem þau búa í Danmörku. Þá er ekki verið að fylgja sérstökum árgöngum eins og oft er hér.

Nú er sunnudagur og Linda ætlar að koma með dæturnar og Flugu á eftir. Í gær kíkti ég á yngsta barnabarnið Róbert Óla. Sá stækkar. Hann rifnar út eins og maður segir. Það á að skíra hann næsta sunnudag 5.apríl. Sem sagt eftir viku. Alltaf nóg að hugsa um.emoticon

Ég sá í gær að Björk Ína og fjölskylda voru mætt í Glaumbæ. Flott hjá þeim að kíkja í sveitina. Einhverjir voru svo komnir á fjórhjólið og það var greinilega fjör á bæ.

En ég læt þetta duga að sinni.
Látið nú heyra frá ykkur þarna í Flórida!
Kveðjur til allra.
Ykkar Silla.


24.03.2009 18:18

Hitt og þetta.


Góðan dag.

Nú er daginn farið að lengja. Orðið bjart fram til klukkan átta. Það hefur verið allavega veður. Ég hélt fyrir helgi að það væri komið sumar en svo kólnar og hlýnar til skiptist. Svo tók ég hjólið út og þá hafði vindurinn farið úr dekkinu yfir veturinn. Það er svo gott að hjóla hér í friðsældinni á Stafnesinu. Aðeins verra ef blæs mikið!

Ég var að breyta aðeins kjól fyrir Ástrósu. Hún er að fara á árshátíð Grunnskólans sem verður á fimmtudag. Vona að hún skemmti sér vel. Hún er nú í tíunda bekk. Síðasta árinu í skólanum í Sandgerði. Skrítið hvað sum barnabörnin eru orðin fullorðin! Svo stækka ört þau yngstu. Þarf að fara að kíkja á Róbert Óla en hef svolítið verið að passa Júlíu Lindu. Þau eru yngst af 13 barnabörnum.

Á morgun fer ég á ASÍ fund. Aukafund sem stendur örugglega til klukkan fimm. Hvað sem nú kemur út úr því. Það eru erfið þau málin núna.Vonandi fer þetta að lagast.

Nú eru Maddý og Gísli farin í húsið sitt í Jax í Flórida. Sennilega bara að koma þangað þessa stundina. Við sendum kveðjur yfir og til Dísu og co. Líka til David og Stacey.

En ég læt þetta duga í dag.
Bestu kveðjur til ykkar.
Silla.

18.03.2009 13:29

Barnagæsla

emoticon
Jæja ..Nú sit ég hjá Lindu og passa Júlíú ..Hún er reyndar steinsofandi úti í vagni. Áðan var ég í Fúsa ehf og eldaði kjötsúpu. Svei mér þá mér ennþá heitt eftir að hafa staðið yfir pottunum. Svo kl.15.00 kemur Lilja og ég sæki hana upp í flugstöð. Svo mér leggst alltaf eitthvað til.

Í gærkvöld var ég á fundi í verkalýðsfélaginu. Það var langur fundur og margt rætt. Mikill urgur í fólki yfir því sem Hb. Grandi ákvað. Það er að greiða sér arð en launagreiðslum verkaólksins haði verið frestað og þetta er algjörlega siðlaust. Þeir fara verkalýðsforingjarnir á fund í dag með fulltrúum stórnmálalokkanna og fleirum. Þar verður rætt um framhaldið.

En ég hef svo sem ekki margt fleira að segja í bili. Þarf að laga þetta seinna í dag því það vantar í tölvuna hennar Lindu einn staf..Sést alveg hver hann er. Bæti við í kvöld.
Bestu kveðjur.
Silla.

Jæja klukkan orðin hálf fimm og búin að sækja Lilju Kristínu. Líka búin að bæta effinu í fyrri hlutann..Linda missti gos yfir tölvuna sína fyrir nokkrum vikum og það má þakka fyrir að þetta sé það eina sem er að. Litla ljósið hún Júlía svaf nú bara í þrjú korter. Sennilega eru tennurnar að angra hana en þær eru að þyrpast upp. emoticon


Tengdó lenti inn á spítala í gær og við héldum að hún ætti að vera tvo daga. En hún geystist út í morgun og þurfti svo að fara aftur kl. tvö. Auðvitað átti hún að vera lengur en hún gegnir ekki. Gunni þurfti því að sækja hana og fara með hana aftur. Ódrjúgur tíminn hans í dag.

En svona er nú þetta daglega líf og ekkert svo sem yfir að kvarta. Gunni er farin að sofa með vél vegna kæfisvefnsins. Það gengur þokkalega en kvefið hefur truflað.emoticon

Aftur kveðjur og knús úr Heiðarbæ.

12.03.2009 14:49

Tíminn flýgur.


Ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða. Þann 9.mars var eitt ár frá því tengdapabbi kvaddi. En svona er víst lífið. En að öðru. Ég fór á Héraðsfund Kjalarnesprófastsdæmis í gær. Þar var margt um manninn og gaman að hitta þetta fólk allt saman. Ég fór með Reyni og Lilju. En aðalsafnaðarfulltrúinn er Kalli Ottesen en hann fótbrotnaði um daginn og var ekki á bætandi hjá honum. Hann hefur átt við meiðsli að stríða í hné um lengri tíma. En ég er í sóknarnefndinni og fór í staðinn.

Fundurinn núna var í Hafnarfirði. Við byrjuðum á helgistund í Hafnarfjarðarkirkju kl. sex og fluttum okkur svo yfir í Safnaðarheimilið. Strandhamar held ég það heiti. Við vorum ekki komin heim fyrr en um klukkan ellefu..Við Lilja sluppum við að keyra því Reynir fór á bílnum sínum.

Í morgun tók svo við eldabuskustarfið hjá vinnudýrunum mínum. Þeir eru nú reyndar aðeins þrír núna. En þeir vinna hörðum höndum og heimta mat sinn og engar refjar!!

Eftir mat fórum við Hrefna í kaffisopa til Siggu Þórhalls. Við höfum ekki farið lengi en vorum oft í kaffi þegar við unnum allar saman í Flugstöðinni. Það er alltaf gaman að kíkja til Siggu. Alltaf svo hress. Þó ýmislegt hafi gengið á hjá henni í veikindum undanfarið er hún alveg einstök. Ef allir væru eins og hún væri ekkert væl og víl. Svo sáum við nýjasta barnabarnið hennar sem er aðeins tveggja vikna gamalt. Hún á orðið átta barnabörn. Næstum eins rík og ég!!

En þetta var svona blogg um hitt og þetta. Bara láta ykkur vita af mér. Ef þið farið inn á síðuna hans Bjössa sjáið þið skemmtilegar gamlar myndir. Hann er svo duglegur í þessu.
Bestu kveðjur úr Heiðarbæ.
Silla. 


07.03.2009 14:17

Blogg í tvö ár.

emoticon
Góðan dag.
Nú eru rúm tvö ár síðan ég byrjaði að skrifa svona þankabrot á 123.is/ heidarbaer. Það var Konný sem kom mér til að prufa og það er bara gaman að þessu. Ég fór aðeins yfir þetta og það geta allir. Þetta er allt hér til hægri á síðunni.Stundum hef ég bloggað mikið stundum löt og þá fer það niður í 5-7 skipti í mánuði. Það finnst frændfólki og vinum of lítið og segja að hér sé hægt að fylgjast með hvað er í gangi. Þetta á nú frekar við þá í fjölskyldunni sem búa erlendis. En mér fannst sjálfri bara gaman að fara svona rúnt yfir það sem ég hef skrafað um frá því síðla febrúar 2007. Já ýmislegt sem kom upp í hugann við upprifjunina. Og líka hægt að brosa yfir þessu.

Það var til dæmis ein færslan sumarið 2007 sem ég sagði frá belgiskum ferðalöngum sem ég leyfði að tjalda í görðunum hjá mér og gaf þeim svo kaffi og te um morguninn. Í byrjun árs 2007 snýst líka mikið hjá mér um Wilson Muuga nokkurn. Og svo var ég dugleg að blogga í ferðinni sem við fórum með Maddý og Gísla um Bandaríkin og Kanada í brúðkaupsafmælinu okkar. Já það er bara gaman að rifja upp og þetta er svona í ætt við dagbók..emoticon

En í dag er bjart og fallegt veður. Það hefur verið undanfarna daga. Ég tók æði áðan með tuskuna. Sólin var farin að segja mér til syndanna!! Gunni er að vinna í íbúðinni sem er verið að standsetja fyrir Jóhönnu. En hann er bara að þessu núna svona í laugardagsfríi. Það hefur minnkað í bili vinnan í Fúsa ehf en samt er nóg að gera virka daga. Þessi tími hefur nú alltaf verið rólegastur því sandblástur fer aðallega fram að sumrinu. Þeir vonast eftir stærri verkefnum sem komi með vorinu. En svo spilar þetta ástand eitthvað inn í dæmið.

Ég læt þetta duga í dag. Hafið það sem best um helgina og alltaf.
Ykkar Silla.emoticon

02.03.2009 20:16

Ýmislegt-allt og ekkert.

Sæl verið þið. 
Ýmislegt gengur á í þjóðfélaginu. Eins og alltaf. Sandgerði var neikvætt í fréttunum í dag. Enda er það svo hjá fréttamiðlum að neikvæðar fréttir reynast eiga meira upp á pallborðið en þær mörgu góðu. Og það sem var í umræðunni var skelfileg árás tveggja unglinga á skólabróðir sinn. Það var reynt að gera út á að hann væri Pólverji (það er fórnarlambið) en að mínu áliti er hann Íslendingur. Hann er fæddur á Íslandi á íslenskan föður og hefur alla sína skólatíð gengið í skóla í Sandgerði..Svo það að reyna að finna út úr þessu kynþáttamisrétti skil ég ekki. En það er kannski önnur saga sem ég hætti mér ekki inn á..

Ég fékk áfall þegar ég heyrði þetta um árásina. Enda á ég fjóra ömmustráka í þessum skóla. Og mér finnst þessi skóli til fyrirmyndar. En MBL.is tók viðtal við skólastjórann og það var ekki beint vel heppnað. Ég þekki Fanneyju og veit fyrir hvað hún stendur. Frábær skólastjórnandi sem ég veit að tók á þessu með miklum myndugleika. Gekk í kennslustofur og talaði við nemendur og fordæmdi verknaðinn.

En hún hefur ekki frekar en margir staðið í sviðsljósi fjölmiðla og það tók greinilega á. Erfitt og hvað ég skil hana. Ég fór í tíma aftur til ársins 2000. Þá var ég formaður Bæjarráðs í Sandgerði. HB á Akranesi áður Sandgerði hafði svikið okkur (ég segi svikið) og ég var til svara í sumarfríi Bæjarstjórnar. Ég svaraði spurningum fréttamanns RÚV eftir bestu getu og fannst ég hafa ýmislegt sagt. Á leiðinni norður í brúðkaup Dúnu systir heyrði ég þetta í útvarpinu og var ekki sátt. Allt var tekið úr samhengi. Og það sem ég vildi mest koma á framfæri var ekki þarna. Sólrún tók þetta upp og bauð mér að sjá en ég hafði aldrei geð í mér til að skoða viðtalið.

Svona er lífið, skin og skúrir. Ég vona og veit að Fanney tekur á þessu ásamt starfsfólki sínu. Ég vona að þessi ósköp verði nemendum víti til varnaðar.

En að okkur í Heiðarbæ. Við sitjum nú hérna ég og Lilja í sitthvorri tölvunni. Hún á Facebook að tala við þau í Dk. Það eru þar fjölskyldumeðlimir sem vilja heyra í henni.

En bestu kveðjur til ykkar allra.
Silla.
  • 1
Flettingar í dag: 19
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 58
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 97172
Samtals gestir: 19694
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 04:00:43